Beint í efni

Ljóðorkusvið

Ljóðorkusvið
Höfundur
Sigurður Pálsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Sigurður Pálsson hefur stungið penna í velflest form skáldskaparins, en þekktastur er hann þó líklega sem ljóðskáld. Fyrir þremur árum síðan kom út lokabókin í tólf bóka syrpu, en þær hópa sig saman þrjár og þrjár og auðkennast af titlum sem hefjast á orðinu „ljóð“, sem dæmi má nefna Ljóð vega menn, Ljóð námu land, Ljóðlínuskip og Ljóðtímaleit. Hvort nýja ljóðabókin sem ber nafnið Ljóðorkusvið sé upphaf á nýrri syrpu er ekki gott að segja, en hvað sem framhaldinu líður er allavega ljóst að bókin kallast á við fyrri verk skáldsins.

Hér birtast okkur enn á ný mörg helstu temu ljóðabóka Sigurðar, tíminn, ferðin og svo ljóðið sjálft. Bókin hefst á ljóðinu „Miðnætti“, en þar er „Kominn tími / Klukkan að verða / klukkan að verða ferð“. Og síðan ferðumst við með skáldinu gegnum bókina, í næsta ljóði fyllir tímaskjálfti hús ljóðmælanda af dúfum; „En þær sjást ekki / jafnvel skyggnasta fólk / hefur aldrei séð þær“. Samt segja þær honum sögur. Hér gat ég ekki annað en rifjað upp ljóð Kristínar Ómarsdóttur sem einnig segir frá dúfum í húsi („Dúfurnar hvítu“ í bókinni Þerna á gömlu veitingahúsi), en Sigurður kallast iðulega á við önnur skáld í ljóðum sínum, síðar í bókinni er að finna heilan kafla sem nefnist „Ávörp“ og inniheldur meðal annars ljóð ort til skálda, auk þess sem bæði tungl og sól eru ávörpuð. Ljóðið sjálft birtist svo í lokaljóði þessa fyrsta kafla bókarinnar sem nefnist „Ljóðin byrja á miðnætti“, en í „Brotasýn“ er „Nakin snörp og stundum / allt að því harkaleg / gleðivíma á auðu blaði“. Og ljóðmælandi finnur hreyfingu sem leiðir hann „Enn eina ferðina / um opna vegi / auðar síður“. Ljóðinu er líkt við ferð, en sú líking er kunnugleg úr fyrri verkum höfundar. Ferðin sjálf byrjar svo fyrir alvöru í kaflanum „Hraðlest“ en þar líkir ljóðmælandi sér við slíka lest. Í þessu ljóði kemur vel fram hversu Sigurði lætur vel að vinna áfram hugmyndir sínar og myndmál, ljóðið er stútfullt af flottum myndum eins og til dæmis þessum í „Hraðlest III“:

Mjóu háhýsin 
vaxa rólega áleiðis til himna

meðan ferköntuð skýin
leggjast til svefns 
á jörðina

en mjóu trén með hárkollu
hækka rólega

og sagnir bjóða sig fram
og sögnin að skynja segist skynja

vita segist vita
skilja segist skilja

En ég er gallharður
leyfi þeim ekki að fullyrða neitt
um það sem kom fram í hinu nýja rými:

enginn munur á prósa og ljóði
enginn munur á reiði guðs og kærleik
enginn munur á vinstra brjósti og því hægra

Í ljóðinu á undan er talað um hratt málað sjávarlandslag og hér virðast almenn náttúrulögmál hafa ruglast ofurlítið, hraði lestarinnar snýr öllu á hvolf eða er það hraði ljóðsins?

Þegar ég tala hér um kunnugleg minni þá meina ég það ekki þannig að ljóðabókin innihaldi ekkert nýtt, þvert á móti, í átökum sínum við kunnugleg minni tekst höfundi stöðugt að skapa nýja sýn, auk þess að hér er alveg nóg af spriklandi nýju efni. Dæmi um það eru í kaflanum „Breytingar“, en þar eru þessi fallega fyndnu og ánægjulega óvæntu myndir sem Sigurður er sérlega flínkur í. „Augu bílanna“ lýsa því hvernig augu bílanna eru „reiðubúin / fyrir myndbreytingar“. Þau eru „sakleysisleg og stór“ og „verða sundlaugarblá / verða grasgræn“. Hér tekur höfundur einfalda, kunnuglega mynd um bílljós sem augu og gefur henni alveg nýtt yfirbragð myndbreytinga. Í ljóðinu „Myndbreytingabirta“ er beinlínis fjallað um myndbreytinguna:

Í nótt hefur snjóað
hvítri birtu

hvítri myndbreytingabirtu
á gangstéttirnar

(undanhaldið er byrjað)

Veggir húsanna rísa hvítir
úr baðinu

(undanhald smádjöflanna er byrjað)

Hvítir veggir 
auð blöð

Hér er á ferðinni ein af þessum einföldu myndum sem síðan leynir á sér, hvað er nákvæmlega meinað með „undanhaldi smádjöflanna“? Myndin virðist í fyrstu vera vetrarmynd með snjóábreiðu sem er líkt við óskrifað blað, en þó er eitthvað sem truflar og kemur þessari kyrrstæðu sýn á ið og skrið. Laumuleg ljóð eins og þessi heilla endalaust, því það er svo gaman að reyna að átta sig á því hvernig svona einföld mynd getur alltíeinu orðið flókin, hvernig hún skríður stöðugt undan ákveðinni túlkun, jafnframt því að bjóða sig svo glöð fram til slíkrar.

Breytingakaflinn er aftarlega í bókinni og almennt séð finnst mér ljóðin styrkjast eftir því sem á líður, flest veikari ljóðanna eru í fyrri hluta bókarinnar, þar með talið sjálft titilljóðið sem er undarlega máttlaust. Almennt eru tök skáldsins á ljóðunum sterk og örugg, en þó fatast honum flugið annaðslagið, bæði eru ljóðin misöflug og svo eru á stöku stað dæmi um að tungutak eða orðalag aflagi ljóð sem annars hefur margt til brunns að bera.

Síðasti kaflinn nefnist „Vængjað ljón“ og inniheldur prósaljóð, en þar nýtur skáldið sín sérlega vel. Titilljóðið vísar til sphinxins, „Þegar vængirnir hafa vaxið á ljónið fer spurningum fjölgandi, svörunum fækkar.“ En þó virðist svarið blasa við, það er ljóðið sjálft, ljóðlistin sem „er nauðsyn. / Gleði. / Ofsi. / Uppreisn.“ Myndbreytingastefið birtist einnig hér og heldur áfram að setja mark sitt á prósana sem oft eru með fantastískum undirtónum eins og í „Gamla höfnin“ en þar koma sjómenn að landi með furðufiska. Lífsgleði er sameiginlegt stef þessara ljóða, sem er mjög áhugavert í sjálfu sér þarsem ljóðið hefur oft verið vettvangur svartsýni og þunglyndis. Þar fyrir utan tekst höfundi að sýna framá að lífsgleðin er ekki síður ljóðræn uppspretta en ógleðin og í síðasta prósanum, sem jafnframt er síðasta ljóð bókarinnar, birtist okkur „Dýrð lífsins“ í einfaldri en ofurfallegri mynd þarsem ljóðmælandi situr inni í herbergi sínu á „hanabjálka með moskítóflugum sem réðust stöðugt alla nóttina suðandi eins og orrustuþotur á skáld í hitakófi undir laki“. Hann horfir „út yfir dýrðlega laufkrónu trjánna sem byrgðu sýn en samt...“ glittir í vatnið í síkinu gegnum laufþykknið: „Laufhjúpur á hreyfingu. / Ljós í gegn. / Lifandi impressjónismi.“ Og þannig eru ljóð Sigurðar, lifandi impressjónismi, böðuð hvítri myndbreytingabirtu.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2006