Beint í efni

Lífsloginn

Lífsloginn
Höfundur
Björn Þorláksson
Útgefandi
Tindur
Staður
Akureyri
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Lífsloginn er þriðja bók Björns Þorlákssonar. Smásagnasafnið Við (2001) innihélt margar sögur, margar góðar en líka nokkrar sem hefði mátt sleppa. Rottuholan kom svo út 2003 en hana hefur undirritaður ekki lesið. Logi Stefánsson, söguhetja þessarar nýju bókar Björns, er mikill andans jöfur og hefur á hraðbergi helstu ljóð bókmenntasögunnar, íslensk sem erlend. Hann getur auðveldlega þulið allan Hrafninn eftir Poe með leikrænum tilþrifum ef á þarf að halda. Uppáhald hans úr röðum íslenskra skálda er Jóhann Sigurjónsson. Einnig er hann hrifinn af Hemingway…en ekki hvað. Af ástæðum sem lesendum Lífslogans verða fljótlega ljósar býr íslenskufræðingurinn og stórskáldið á þeim útnára alheimsins er Akureyri nefnist og fæst við að kenna þar menntaskólakrökkum. En það er þó rétt til að þreyja þorrann á meðan hann lýkur við bestu bók allra tíma. Reyndar er hann fastur á blaðsíðu 67 í snilldarverkinu og búinn að vera það ansi lengi. Enda þarf mörgu að sinna og þó fyrst og fremst lífsnautninni sjálfri. Í tilfelli Loga felst lífsnautnin í áfengisdrykkju en aðrar holdsins lystisemdir fá vissulega að fljóta með. Eiginkonan er búin að gefast upp og farin frá honum með dóttur þeirra. Flutt til Dalvíkur sem er enn meira nápleis en Akureyri. Þar býr hún með verkstjóra í frystihúsinu. Meira að segja kötturinn á erfitt með að búa með honum.

Þetta er saga um hnignun og fall virks alkóhólista sem endar annað hvort með geðveiki eða dauða sé ekki gripið í taumana, eftir því sem fræðin segja. Um það leyti sem lesendur komast í kynni við Loga er ástand hans vissulega orðið sjúkt og á enn eftir að versna. Hann á eftir að dansa á jaðri geðveikinnar. Það er spurning í lok sögu hvort það er upprisa eftir “dauðann” eða hvert flugið sem söguhetjan tekur mun flytja hana. Er hann orðinn heill eður ei? Úr því verða lesendur að ráða en frekar fannst mér hann vera á hálum ís ennþá.

Það er mikil mælska í bók Björns, ekki lengri en hún er, enda er Logi orðsins maður “fírogflamme”. Hann stráir í kringum sig bókmenntalegum tilvitnunum í bland við tómt kjaftæði. Skáletraðir kaflar geyma svo að miklu leyti fylliríisröflið sem óminnishegrinn blessunarlega hlífir honum við. Það er að sjálfsögðu heilmikil tragedía í gangi í nærveru áfengissjúklingsins. Fjölskyldan fær að kenna á því, samstarfsfólk og hjásvæfan sem er nemandi rétt komin á lögaldur.

Það er mikið fjör í frásögninni sem er í þriðju persónu og margt spaugilegt sem hendir og margt spaugilegt sem veltur upp úr aðalsöguhetjunni. Um leið er það dálítið grátlegt. Okkur er auðvitað gjarnt að hlæja að uppákomum sem eru í raun grátlegar. Lífsháskinn getur því miður sannarlega verið fyndinn á köflum.

Aukapersónur eru þokkalega skýrum dráttum dregnar, þar á meðal drykkjufélagar Loga, tvíburabræðurnir Pétur og Páll, sem reynast örlagavaldar í sögunni. Egó aðalpersónnunar er hins vegar svo stórt að allir aðrir hljóta að verða voða mikið auka. Sjálfsblekking Loga er með ólíkindum þótt eitthvað sé farið að brá af honum undir lokin. Hann reynir að bjarga andlitinu á hrokanum á milli drykkjutúra og veltir sér svo upp úr sjálfsvorkun til að réttlæta meiri drykkjuskap. Hvort tveggja týpískt fyrir virkan alka og ekki beint frumlegt en þá skiptir máli hvernig sagt er frá. Birni tekst hér nokkuð vel til. Þótt ekki sé sá sem þetta ritar alveg sáttur við sögulok þá verður oft að bíta í það súra epli að hlutirnir fara á annan veg en maður helst vildi. Það sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið er það að Lífsloginn er bráðskemmtileg lesning þótt hún fjalli um mikinn lífsháska.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2005.