Beint í efni

Kóralína

Kóralína
Höfundar
Neil Gaiman,
 Dave McKean
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ég ætlaði að vera búin að skrifa pistil um þessa bók fyrir lifandi löngu. Ekki datt mér til hugar að hún yrði þýdd, slíka áleit ég þröngsýni íslenskra bókaforlaga þegar kemur að óvenjulegum og verulega furðulegum fantasíum. En svo bárust flugufregnir: saga myndasöguhöfundarins Neil Gaiman, Coraline, kemur út hjá Máli og menningu. Og ég varð að éta ofaní mig allar fullyrðingar um þröngsýni.

Ekki svo að skilja að fram að Coraline hafi Neil Gaiman bara skrifað myndasögur, þó það sé það sem hann er þekktastur fyrir, og stundi hvað mest. Hann er Íslandsvinur, athugið það, því þótt hann eigi enn eftir að koma fram opinberlega hér, þá hefur hann heimsótt landið oftar en einu sinni, eins og er berlegt þegar maður skoðar endi á sögu hans American Gods, sem fjallar meðal annars um norræn goð. Sú saga er dæmi um þau fantasíuskrif sem Gaiman iðkar meðfram myndasögunum, af öðrum bókum má nefna Neverwhere og nú Coraline, eða Kóralínu eins og hún heitir á íslensku. Gaiman hefur áður skrifað ævintýri fyrir börn – eða ætti ég að segja 'börn', því barna-ævintýri hans höfða til fólks á öllum aldri – en það er sagan af drengnum sem skipti á pabba sínum og tveimur gullfiskum (The Day I Swapped My Dad for Two Goldfish). Sú saga er, líkt og Kóralína, barnaævintýri með fullorðinslegum víddum og eru báðar með myndlýsingum Dave McKean. Eins og titillinn bendir á, segir The Day I Swapped My Dad for Two Goldfish frá því þegar ungur drengur skiptir á föður sínum og tveimur gullfiskum. Vinur stráks kemur í heimsókn þar sem þau systkinin eru að leik og sýnir honum gullfiskana sína. Drengurinn ágirnist þá mjög og ákveður að skipta á þeim og föður sínum, sem hvort sem er gerir ekkert annað en að sitja í stól og lesa blaðið, og er því augljóslega til fremur lítils gagns. Vinurinn hinsvegar á engan pabba og ágirnist fyrirbærið. Þegar móðirin kemur svo heim er hún ekki ánægð með skiptin og sendir strákinn með gullfiskana að fá pabbann aftur heim í hús. Hefst nú mikil þrautaganga, því fyrrum gullfiskaeigandinn skipti á föðurnum fyrir annan hlut – hafandi komist að sömu niðurstöðu og sonurinn um notagildi gripsins – og sá skipti aftur og að lokum finnst faðirinn í kanínugirðingu, umkringdur salati og gulrótum, heldur rislágur með blaðið sitt.

Rammarnir eru stórir, hálfar og heilar síður og þannig hefur bókin yfir sér greinilegt yfirbragð barnabóka, en teiknistíllinn er í beinni andstæðu við þetta og er órólegur og nokkuð hvass. Dökkgulur litur er meginliturinn sem einnig dregur úr barnalegum áhrifum. Á ferðinni milli vinanna birtast einnig andstæður í stétt og umhverfi, þarsem þau systkinin fara milli húsa þarsem heimilisaðstæður eru greinilega gerólíkar. Þannig birta teikningarnar margvíslegar víddir og undirtóna þessarar sakleysislegu sögu.

Í Kóralínu tekst Gaiman á við þessa undirtóna á mun beinskeittari hátt, og segja má að hann geri sitt til að þýða sérstakan teiknistíl og litameðferð McKean yfir á svið textans. Sagan segir frá stúlkunni Kóralínu sem á afskaplega upptekna foreldra sem hafa lítinn tíma til að sinna henni. Þau elda 'uppskrifta' mat sem hún borðar ekki og hlusta lítt á það sem hún hefur fram að færa. Kóralína er ósköp þreytt á þessu afskiptaleysi og fer að leita ævintýra – sem hún finnur bakvið dularfulla hurð, en þar er spegilmynd heimilis hennar og foreldra nema allt er ofurlítið öðruvísi og óhugnanlegra. 'Hinir' foreldrarnir leggja sig fram um að bjóða stúlkuna velkomna og láta henni líða vel: "Við erum hérna. Okkur langar að elska þig og leika við þig og gefa þér að borða og gera líf þitt skemmtilegt" (67). Helsta vandamálið er að ástríki þeirra er einum of kæfandi og Kóralína uppgötvar fljótt að ekki er allt fengið með þessum draumaforeldrum sem eru alltaf tilbúin að sinna henni og gefa henni að borða mat eldaðan í stíl skyndibita. Í ljós kemur að 'hinir' foreldrarnir halda bæði foreldrum Kóralínu og öðrum börnum föngnum og þeirra eina von er að stúlkan finni leið til að frelsa þau undan valdi 'hinnar' móðurinnar, en að hætti Freuds er það að sjálfsögðu móðureðli hinnar ranghverfu móður sem er mesta ógnin.

Sagan minnir um margt – og á meðvitaðan hátt – á Lísu í Undralandi, enda er það stíll Gaiman að vinna með goðsögur, ævintýri og skáldskap og skapa úr því nýja heima og ný ævintýri. Um þetta vitnar þekktasta myndasaga hans, The Sandman, ellefu binda saga um Konung Draumanna. Líkt og í sögunni af Lísu er saga Kóralínu full af dökkum undirtónum sem ég verð strax vör við að fólk óttast – þetta gæti verið of skelfilegt fyrir börn. Það er því ágætt að rifja upp hér umræðu sem Þorvaldur Þorsteinsson, myndlistarmaður og rithöfundur, kom af stað hér fyrir einu og hálfu ári eða svo, en þar talaði hann um hve mikilvægan hlut bókmenntir – eða bara sögur, hvort sem er í máli eða myndum – eiga í að leyfa börnum að takast á við erfiðar tilfinningar, sorg og átök. Í póstmódernískum kenningum hefur hugtakið 'sublime' eða hið upphafna eða göfga, gengið í endurnýjun lífdaga til að lýsa þessu ferli: möguleikanum á því að lifa sig inní sterkar tilfinningar í gegnum skáldaða heima, án þess að þurfa að ganga í gegnum allt þetta í eigin lífi og fá svo að ljúka málunum á ásættanlegan hátt, og upplifa það að hafa gengið í gegnum eitthvað sem skiptir máli. Þannig er Kóralína dæmi um 'sublime' bók fyrir börn, en hún er ekki bara það. Hún er einnig áhugavert komment á nútímalíf, sem svo margir gagnrýna, og þá sérstaklega stöðu barna í breyttu samfélagsmynstri önnum kafinna foreldra og sérstaklega útivinnandi mæðra. Í stað þess að fordæma foreldrana fyrir að sinna dótturinni ekki nægilega beinist uppeldið ekki síður að því hvernig Kóralína fótar sig í nýjum veruleika – bókstaflega í tilfelli 'hins' heimsins og svo almennt að því leyti sem hún verður að endurmeta sitt daglega líf og viðhorf til þess. Líkt og drengurinn í sögunni um pabbann og gullfiskana uppgötvar að faðirinn er nú ágætur þrátt fyrir allt, þá áttar Kóralína sig á að hún þarf líka að vinna í sínum málum. Þetta kemur ljóslega fram í því að það eru ekki hinir raunverulegu, önnum köfnu og utanviðsig foreldrar sem eru uppspretta óhugnaðarins, heldur hinir, sem eru tilbúnir að helga barninu allan sinn tíma: orðin "Við erum hér" breytast því í ógn en ekki loforð um betri heim fortíðarhyggjunnar þarsem mæður sinntu börnum sínum og kynhlutverkin voru á hreinu.

Bók Gaiman sver sig á margan hátt í ætt við þær bækur sem nú eru farnar að brúa bilið milli barna og fullorðinna, en þar má nefna bækurnar um Harry Potter, sögur Lemony Snicket, söguna um Ljónadrenginn og af (enn) óþýddum verkum má nefna bækur Terry Pratchett. En bók Gaiman er líka um margt gerólík þessum sögum, hún er snarpari – enda styttri, óhugnanlegri og jafnframt hlýrri. Þetta kemur meðal annars fram í sjálfum stílnum sem er sérlega skemmtilegur og ég fæ ekki betur séð en að hann skili sér ágætlega í þýðingu Margrétar Tryggvadóttur. Það er ljóst að Gaiman nýtir sér ýmis fangbrögð við texta sem hann hefur lært af myndasögunum, enda er Kóralína að mörgu leyti eins og skrifuð myndasaga, svo ljóslifandi er hún fyrir sjónum lesenda.

Úlfhildur Dagsdóttir, september 2004