Beint í efni

Konurnar báru nöfn og Skelfingin

Konurnar báru nöfn og Skelfingin
Höfundur
Jeet Thayil
Útgefandi
Hringaná
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Konurnar báru nöfn og Skelfingin
Höfundur
Yrsa Daley-Ward
Útgefandi
Hringaná
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Atli Antonsson

Nýlega komu út tvær þýðingar á vegum útgáfuforlagsins Hringaná sem eiga það sameiginlegt að fjalla um kvenpersónur sem hafa alla jafna ekki fengið mikla athygli í bókmenntum á íslensku. Annars vegar er um að ræða sögulegu skáldsöguna Konurnar báru nöfn eftir indverska rithöfundinn Jeet Thayil þar sem konur úr lífi Jesú Krists stíga fram úr skuggunum. Hins vegar sjálfsævisagan Skelfingin þar sem Yrsa Daley-Ward segir frá uppvexti sínum sem svört stúlka í úthverfi Manchester sem leiðist út í störf í kynlífsþjónustu en nær að rísa upp með ljóðlistina að vopni. Að mörgu leyti eru þetta gjörólíkar bækur en hér verður gerð tilraun til að fjalla um þær hlið við hlið og draga fram ýmislegt sem þær eiga sameiginlegt.

Aukapersónur sem verða aðalpersónur

Konurnar báru nöfn er söguleg skáldsaga um konurnar sem urðu á vegi Jesú og eru nefndar í Nýja Testamentinu en hafa alla jafna fengið litla athygli í kristindóminum. Höfundurinn, Jeet Thayil, er indverskur, nánar tiltekið tilheyrir hann hinum kristna minnihluta í Kerala héraði á Suður-Indlandi. Hann flutti til Bandaríkjanna að nema myndlist og hóf feril sinn sem ljóðskáld og tónlistarmaður en fór síðar að skrifa skáldsögur. Mesta athygli vakti hann með skáldsögunni Narcopolis árið 2012 sem var meðal annars tilnefnd til Booker verðlaunanna. Konurnar báru nöfn er hans fjórða skáldsaga og í henni sækir hann í þann kristna arf sem hann ólst upp við hjá móður sinni, en hún lagði mikla rækt við hlutverk kvenna í trúnni eins og mun hafa verið gert í frumkristni. Þetta er fyrsta bókin sem kemur út eftir Thayil á íslensku og þýðandinn Ari Blöndal Eggertsson var svo röskur að verkið kom út á sama tíma hér á landi og í hinum stóra heimi sem hlýtur að vera einsdæmi.

Fyrst fannst mér hugmyndin um skáldsögu sem fjallaði um vanræktar kvenpersónur úr Nýja Testamentinu hljóma vel. Þegar ég byrjaði að lesa fór mér hins vegar að finnast hugmyndin að einhverju leyti tilgerðarleg og kannski einungis til þess gerð að lesandinn og höfundurinn gætu verið sjálfsánægðir yfir því að veita loksins þessum vanræktu konum Biblíunnar athygli. Þótt bókin sé kölluð skáldsaga áttaði ég mig ennfremur á því að ekki var um samfellda frásagnarfléttu að ræða heldur væri nákvæmari að tala um sagnasveig tengdra  frásagna af konum frá fyrstu öld. Þráðurinn sem tengir þær er að í þeim öllum kemur Jesú fyrir sem aukapersóna þegar líf kvennanna skarast við hans. En, sem sagt, þegar ég var búinn að sætta mig við eðli sagnasveigsins fór mér að líka vel við bókina. Þetta er í raun snjöll leið til að segja frá fimmtán konum á ólíkum aldri og af mismunandi stéttum í Jerúsalem og nágrenni fyrir tvö þúsund árum.

Þessi viðsnúningur þar sem aðalpersóna verður að aukapersónu í sögu þar sem aukapersónurnar eru gerðar að aðalpersónum minnti mig á þekkt leikrit Toms Stoppard, Rosencrantz and Guildenstern are Dead. Þar er snúið upp á Hamlet Shakespeares þannig að fjallað er um hvað gamlir vinir Hamlets sem voru í aukahlutverki voru að gera á sama tíma og atburðir harmleiksins áttu sér stað. Og þegar allt kemur til alls held ég að þetta sé besta nálgunin við það að skrifa sögulegar skáldsögur, þ.e. að skrifa um aukapersónur á jaðri sögulegra atburða. Ég veit ekkert um aðferðarfræði Jeets Thayil að öðru leyti og hvort frásagnirnar af konunum byggi á einhverjum heimildum. Ég geri frekar ráð fyrir að hann hafi notað ímyndunaraflið til að prjóna við frásagnirnar þar sem viðkomandi persónur koma fyrir í guðspjöllunum. Þó er vitað að hlutur kvenna var mun meiri í frumkristni heldur en síðar varð.

Fáheyrt viðfang sjálfsævisögunnar

Yrsa Daley-Ward fæddist árið 1989 í Bretlandi og það er að mörgu leyti athyglisvert að lesa sjálfsævisögu höfundar sem var ekki orðinn þrítugur þegar hún kom út. Bakgrunnur hennar og fyrri störf virðast mér einnig vera óhefðbundin fyrir sjálfsævisöguritara því samkvæmt mínum fordómum gagnvart greininni eru þannig bækur yfirleitt skrifaðar af eldra fólki með einhverskonar heiðvirðan starfsferil að baki. Þetta kemur alls ekki að sök því að Yrsa hefur úr nógu að moða.

Móðir hennar var frá Jamaica og faðir hennar, sem hún hitti aldrei, var frá Nígeríu. Mamman flutti til úthverfis Manchester þegar hún var sextán ára gömul en þar bjuggu einnig foreldrar hennar sem voru strangtrúaðir aðventistar. Hún var ólétt og fæddi sitt fyrsta barn skömmu eftir komuna til Englands, en það var Samson, eldri bróðir Yrsu. Móðirinn, Marcia, lærði að verða hjúkrunarkona og eignaðist tvö börn í viðbót með tveimur mönnum, þau Yrsu og Roo. Systkinin ólust upp til skiptis hjá ömmu sinni og afa í ströngu trúarlegu uppeldi og hjá mömmu sinni sem vann alltaf á næturvöktum. Skelfingin sem bókin er nefnd eftir virðist vera lamandi tilfinning óöryggis, kvíða og þunglyndis sem fylgir Yrsu alla tíð. Skelfingin er hugsanlega afleiðing þess að alast upp hjá fátækri einstæðri móður og að vera af afrískum uppruna í umhverfi þar sem nánast allir eru hvítir, en það setur einnig afgerandi svip á uppvöxt Yrsu að hún varð mjög snemma kynþroska. Um sjö eða átta ára aldur fór hún að finna fyrir brjóstunum stækka. Hún er jafnframt mjög falleg og hefur óstöðvandi aðdráttarafl á karlmenn sem á sinn þátt í að framkalla skelfinguna og einnig það að hún dregst ekki eins mikið að karlmönnunum eins og þeir að henni.

Bókinni er gróflega skipt í kafla eftir tímabilum og stöðum þar sem Yrsa bjó. Fyrst kemur formáli um mömmuna. Fyrstu tveir hlutarnir fjalla svo um æsku hennar í smábænum Chorley fram til átján ára aldurs þegar hún flutti að heiman til vinar stjúpföður síns. Í þriðja hluta segir Yrsa frá því þegar hún bjó í Manchester þar sem hún djammaði mikið og eignaðist kærasta. Hún bjó þar til um 22 ára aldurs þegar hún flutti til London. Fjórði hlutinn fjallar um lífið í stórborginni þar sem hún starfaði sem strippari og vændiskona. Undir lok bókar fær hún ábendingu um að hún gæti átt möguleika á að starfa sem fyrirsæta í Suður-Afríku. Hún drífur sig þangað og frásögnin endar í Höfðaborg þar sem Yrsa fær útrás fyrir löngun sína til að skrifa með því að taka þátt í ljóðaupplestrum.

Staða kynjanna á dögum Krists

Það má lesa þá hugmynd úr Konurnar báru nöfn að Jesú hafi verið feministi. Fyrst og fremst virðist bókinni ætlað að vera þörf ábending um að konur á borð við Maríu Magdalenu gegni í raun lykilhlutverki fyrir kristna trú því þær urðu vitni að dauða og upprisu Krists, en að karlkyns lærisveinum hafi verið hampað í þeirra stað.

Eftir því sem tíminn líður munu öldungarnir í kirkjunum sniðganga eða gleyma kenningum hans þar sem hann vegsamar konur. Þeir munu byggja kirkjuna á vitnisburði kvennanna en neita að skrá nöfn þeirra.
En þessu geta þeir ekki breytt: Að hinn upprisni Kristur birtist fyrst Maríu frá Magdala og að það voru konurnar sem urðu fyrstu leiðtogar kirkjunnar. Þetta er bókin um píslarvættisdauða Jesú og þetta er bókin um konurnar sem áttu samleið með honum. (24-25)

Það má segja að María Magdalena sé mikilvægasti hlekkurinn í konsepti bókarinnar. Hún er sú sem sá að gröfin var tóm og var fyrsta vitnið að upprisu Krists. En tilgangurinn með því að rekja sögur hinna kvennanna er ekki alveg jafn ljós. Það er rökrétt út frá orðum Jesú í bókinni um að konur og hinir lægst settu eigi skilið meiri virðingu og sögurnar fylla inn í myndina af samfélagi og umhverfi sem einkenndist af kúgun kvenna og þræla og miklu ofbeldi. Allar eru frásagnirnar þó skrifaðar af miklu listfengi og bregða fersku ljósi á tíðarandann og persónu Jesú. Til dæmis var áhugavert að heyra lýsingu systur hans, Lydíu, á því að hann væri athyglissjúkur og notaði einungis seyðandi orð til að afla sér fylgjenda. Hins vegar verður þessi frásagnarstíll nokkuð endurtekningarsamur þegar maður er farinn að átta sig á að í hverjum kafla er sagt frá nýrri konu sem síðan er nefnd á nafn í lokaorðum kaflans. Skáldsagan er hins vegar ekki svo löng og þessi frásagnaraðferð er brotinn upp með köflum sem eru skrifaðir í orðastað frelsarans. Í fyrstu orðum fyrsta kafla ávarpar Jesú Maríu Magdalenu og segir: „María, skráðu“. Þetta ávarp er endurtekið nokkrum sinnum og samkvæmt lógík verksins þá hefur María Magdalena skáldsögunnar látið verða af því að skrá það sem hann segir henni. Þarna sker skáldsagan sig frá raunveruleikanum þar sem María skráði því miður ekki neitt ólíkt hinum guðspjallamönnunum sem við höfum sögur okkar frá. Þessir kaflar mynda því einskonar guðspjall Maríu og þar opinberar Jesú ýmsa speki sem að ýmsu leyti er ólík þeirri kristni sem ég hef áður kynnst.

Tvírætt eðli töfranna

Í fyrsta kafla Skelfingarinnar sér litli bróðir hennar Yrsu einhyrning í garðinum og bendir systur sinni á að koma og sjá. Einhyrningurinn verður að tákni fyrir töfrana sem tilheyra barnæskunni. Sjálfsævisögur eiga það til að missa töfrana þegar sögumaðurinn verður fullorðinn og Daley-Ward hefur vit á því að enda frásögnina um tvítugt þegar hún er komin til Höfðaborgar í Suður-Afríku. Sögumaðurinn snýr upp á myndhverfingu einhyrningsins þegar sæði er á einum stað nefnt einhyrnings-silfur: „Sérð hana taka upp kjólinn sem þú varst í,/ rauða kjólinn með kraganum/ nú rákóttur innan á bakinu,/ einhyrnings-silfur. Töfrar“ (101). Þetta vekur upp þá myndlíkingu að horn einhyrningsins sé í raun typpi og að töfrarnir séu líka myrkir og tengist kynlífi. Þannig skýrist líka að hinn dökki tónn frásagnarinnar og skelfingin sem söguhetjan upplifir stafar að miklu leyti af því að frá unga aldri er hún ekki látinn í friði af karlmönnum sem hafa áhuga á henni kynferðislega. Karlmenn reyndust henni heldur aldrei neitt sérstaklega vel. Faðir hennar yfirgaf móðurina og stjúpfeðurnir stöldruðu stutt við án þess að vinna sér inn traust.

Það er ekki síst vaxandi kynvitund sem er sagt frá í bókinni. Athygli hennar beinist ekki bara að karlmönnum, eða kannski var það hreinlega bara athygli þeirra sem beindist að henni. Fyrsta kynlífsreynslan er með annarri stelpu og reglulega koma vísanir í samkynhneigð höfundar. Hún skoðar af athygli lýsingar í kynlífsfræðslubók móður sinnar:

Á kvöldin var mér treyst fyrir því að koma Roo litla í rúmið klukkan korter í átta og ég átti sjálf að ganga til náða á þeim tíma sem ég áleit skynsamlegan. Það tók nokkurn tíma að venjast þessum nýja lífstíl frelsis. Fyrir utan læknisfræðileg tímarit voru skápar hennar fullir af ástarsögum og kynlífsbókum.
Frábært kynlíf,
Kynlífsvæntingar (saga um lostafullt ástarævintýri)
og myndskreytt Kama Sutra. Uppáhaldsmyndin mín var kölluð „Eina leiðin fyrir konur að vera saman.“ Ég braut upp á hornið á blaðsíðunni og smeygði bókinni undir koddann minn á hverju kvöldi. (76-77)

Hún minnist á að hafa verið hrifinn af vinkonu sinni í Manchester, en sú var alveg gagnkynheigð. Líklega spilar samkynhneigðin inn í ákvörðun hennar að slíta sambandinu við kærastann sem hafði þó reynst henni vel og beðið hana að giftast sér. Í lok frásagnarinnar kemur fram að Yrsa byrjaði að taka þátt í ljóðaslömmum í Suður-Afríku og fyrsta útgefna verk hennar var ljóðabók. Þessi bakgrunnur hennar sem ljóðskáld hefur líklega haft áhrif á ljóðrænan stíl endurminninganna þar sem kaflarnir eru ýmist settir upp sem ljóð eða innihalda hefðbundna prósafrásögn. Í raun er það stíllinn og sú stemning sem Daley-Ward nær að skapa í æskuminningum sínum sem er aðalsmerki bókarinnar.

Lokaorð

Jeet Thayil tekst með skáldsögu sinni að afhjúpa undirrituðum nýjar hliðar á kristindóminum og sýna að hann eigi erindi við nútímann því er ekki hægt að segja annað en að Konurnar báru nöfn sé býsna vel heppnuð skáldsaga. Skelfingin afhjúpar sömuleiðis sjaldséðar hliðar á hlutskipti kvenna í nútímanum og er þegar allt kemur til alls afar áhugaverð og vel skrifuð reynslusaga sem vekur upp miklar tilfinningar. Báðar eru þýðingarnar vandlega unnar af Ara Blöndal Eggertssyni og á hann hrós skilið fyrir að standa að útgáfu á þessum merkilegu bókum sem eru á margan hátt ólíkar en eiga það þó sameiginlegt að skipa konum af jaðrinum í öndvegi. Það væri óskandi að fleiri slíkar bækur myndu rata á íslenskan bókamarkað.


Atli Antonsson, október 2021