Beint í efni

Konan í glugganum og Áttunda dauðasyndin

Konan í glugganum og Áttunda dauðasyndin
Höfundur
A.J. Finn
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Konan í glugganum og Áttunda dauðasyndin
Höfundur
Rebecka Edgren Aldén
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Konan í glugganum eftir A.J. Finn er líka fyrsta bók höfundar, en hún sver sig í ætt við vinsælar ‚minnisleysis‘ sögur eins og Konan í lestinni. Þessi saga er að mörgu leyti áhugaverðari, því aðalsöguhetjan Anna, konan í glugganum, er sálfræðingur sem sérhæfir sig í því að aðstoða börn og er því fær um að greina sjálfa sig og ástand sitt, án þess þó að geta gert neitt í því. Einnig er þáttur kvikmyndarinnar afskaplega skemmtilega unninn, en Anna er aðdáandi gamalla kvikmynda og atriði úr þeim tengjast á ýmsan hátt inn í söguna. Fremst í flokki er að sjálfsögðu myndin Rear Window (1954), en Anna er bundin við heimili sitt á sama hátt og söguhetja þeirrar myndar. Ástæðurnar eru þó aðrar, því hún þjáist af víðáttufælni og kemst því ekki út fyrir hússins dyr. Einu reglulegu samskiptin sem hún á við fólk eru símtöl við fyrrverandi eiginmann sinn og dóttur. Einnig hittir hún stundum leigjanda sinn, en hann aðstoðar hana við innkaup og praktísk mál og svo kemur geðlæknir hennar reglulega í heimsókn, en hann reynir að vinna á fælninni.

Í staðinn fyrir að hitta fólk fylgist Anna með nágrönnum sínum út um glugga heimilisins og þekkir því siði og hætti allra í nágrenninu. Til að missa ekki af neinu notast hún við kíki. Hér er því enn á ný verið að fást við áhugavert sjónarhorn sem tengist einkalífi og því að bera líf sitt á torg, en þó Anna sé afar dul veit hún allt um nágrannana. Meðal annars fylgist hún með því þegar nýir nágrannar flytja inn, sem fyrir hana er spennandi nýjung. Líf hennar gerbreytist svo þegar hún vitni að morði í húsi nýju nágrannanna. En af því hún er veik á geði og að auki veik fyrir áfengi, er henni ekki trúað. Hún reynir því að grafast fyrir um málið sjálf, en það reynist ekki auðvelt í ljósi aðstæðna.

Inn í söguna fléttast svo upprifjun Önnu á því atviki sem varð til þess að hún veiktist og missti tökin á tilverunni, en þar koma fyrrverandi eiginmaður og dóttir við sögu. Fram kemur að Anna heldur áfram að ‚starfa‘ sem sálfræðingur, en hún á netsamskipti við fólk sem þjáist af samskonar röskunum og gerir sitt besta til að aðstoða þau. Loks ber að nefna nágrannana sjálfa, og þá sérstaklega fjölskylduna sem leynir morðinu sem Anna verður vitni að. Þar er ungur sonur sem hún tengist sterkum böndum og reynir að aðstoða.

Auðvitað reynist fæst sem sýnist, enda er það eitt að fylgjast með fólki úr fjarlægð og annað að vita raunverulega hvað gerist. Út á það ganga einmitt flestar þær myndir sem Anna heillast af, hrollvekjur, rökkurmyndir og ekki síður kvikmyndir Hitchcocks. Það eru einmitt þessar myndir sem gefa sögunni aukalega snerpu og skapa henni opnara svið, auk þess sem þáttur upprifjunarinnar – og gleymskunnar – er virkilega áhrifamikill.

Áttunda dauðasyndin eftir sænsku blaðakonuna Rebecku Edgren Aldén er líka fyrsta bók höfundar og þar er einnig róið á svipuð mið og í Konunni í lestinni. Hér segir frá Nóru sem hefur öðlast hamingjuna og lifir á því að selja hana öðrum, hún skrifar sjálfshjálparbækur sem seljast vel, enda talar hún af eigin reynslu. Áratug fyrr varð hún fyrir slysi, féll niður margar hæðir en lifði af, þó illa farin. Með aðstoð eiginmanns síns, Franks, tekst henni að byggja upp líkama sinn og líf sitt á ný, eignast börn og koma tilveru sinni á réttan kjöl, en fyrir slysið var hún óánægð, drykkfelld og við það að skilja við Frank.

En nú hefur hún snúið lífi sínu til betri vegar og hefur sitt lifibrauð af því að koma fram og segja sögu sína. Hjónin búa í virðulegu húsi í úthverfi og eiga í góðum samskiptum við nágrannana, en þar er Nóra ‚drottningin‘ í hópnum og nýtur þess mjög að vera miðpunktur athyglinnar. Reyndar kemur í ljós að þessi mikla hamingja felst aðallega í því að geta selt ímyndina, því Nóra er upptekin af velgegni sinni og óttast mjög alla samkeppni. Þetta kemur meðal annars fram í því að samband hennar við börnin er ekki sterkt, sérstaklega er dóttirin þögul og afskipt.

Þrátt fyrir þetta finnst Nóru líf sitt harla gott, þar til ný kona flytur í hverfið sem reynist Nóru erfið. Sú virðist þekkja Frank eitthvað, þó hann hafni því alfarið og smátt og smátt verða ýmis atvik til þess að Nóra missir tökin á tilverunni. Að sjálfsögðu trúir enginn því sem hún heldur fram um ásóknir nágrannakonunnar og Nóra er farin að efast um eigin geðheilsu.

Sagan er í sjálfu sér ekki mjög merkileg og umfjöllunin um bókina sem Nóra er að skrifa um dauðasyndirnar sjö og þá áttundu sem hún hefur uppgötvað tilvísanir til í gömlum skræðum er heldur ekki mjög sannfærandi, né það hvernig syndirnar fléttast inn í söguþráðinn. Lokaspretturinn er hinsvegar ánægjulegur, þó hann hafi ekki endilega komið mjög á óvart, og það er alveg þess virði að fylgjast með Nóru og leit hennar að áttundu dauðasyndinni.

Konan í glugganum og Áttunda dauðasyndin eru hvorttveggja fyrstu skáldsögur höfunda sinna. Það er sláandi hversu góðu taki Finn hefur náð á skáldsagnaforminu, en Konan í glugganum er sérlega vel upp byggð og með betri glæpasögum sem komið hafa fram á undanförnum árum. Áttunda dauðasyndin er hinsvegar öllu slakara skáldverk, og margt sem hefði mátt vinna betur í uppbyggingu sögunnar. Viðfangsefnið, eltingarleikur við ímynd hamingjunnar, og spurningar um syndir er hinsvegar athyglisvert og eins og áður segir er endirinn afskaplega skemmtilegur.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2018