Beint í efni

Konan í búrinu og Það sem aldrei gerist

Konan í búrinu og Það sem aldrei gerist
Höfundur
Jussi Adler-Olsen
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Konan í búrinu og Það sem aldrei gerist
Höfundur
Anne Holt
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Sumarið er tíminn sem margir hafa til að lesa - allt það sem ekki hefur gefist tími til. Hvíldardagar sumarleyfisins kalla beinlínis á bækur og þá er ekki úr vegi að hverfa um stund frá fjölskylduamstri, garðhúsgögnum og veðuráhyggjum og hverfa inn í heim myrkraverka. Glæpasögur síðasta árs hafa verið að birtast í handhægum kiljum sem auðvelt er að leika sér með á sólarströnd (eða úti á palli, í grasinu, á svölunum, eða bara inni í sófa þegar gluggaveðrið gleður) en svo er nokkuð um nýjar bækur.

Konan í búrinu eftir danska höfundinn Jussi Adler-Olsen, segir frá útbrunnum rannsóknarlögreglumanni, Carli Mørk sem er í áfalli eftir að hafa lent í skotárás þar sem einn félagi hans lét lífið og annar er örkumla. Í kjölfar kerfisbreytinga er honum fengin í hendur ný deild, sem á að sjá um erfið pólitísk mál, en markmiðið er í raun það að koma honum eins langt frá samstarfsmönnum sínum og hægt er, því hann er snakillur mjög. Að auki er honum úthlutað aðstoðarmanninum Assid, sem á að vera einskonar ritari en tekur í raun virkan þátt í rannsókninni. Hann er frá miðausturlöndum og samskipti þessa geðvonda Dana og dálítið dularfulla en jafnframt fallega naífa innflytjanda eru eitt af því sem gera þessa bók sérlega skemmtilega. Málið sem þeir fást við er einkar óhugnanlegt, án þess þó að þeir viti það, því sagan er sögð frá tveimur sjónarhornum, þeirra og svo konunnar í búrinu sem sagan dregur nafn sitt af. Sú er þekkt og umdeild þingkona sem hvarf sporlaust nokkrum árum áður og í ljós kemur að hún er ekki látin heldur hefur henni verið haldið fanginni í klefa með síminnkandi loftþrýstingi. Annað mál kemur við sögu, nýlegt morðmál sem sá geðvondi skiptir sér stöðugt af, auk þess sem hann heldur áfram að hrella bæði samstarfsmenn og yfirmenn með því að gagnrýna (réttmætt) rannsóknina á hvarfi konunnar. Þrátt fyrir óhugnaðinn er bókin bráðskemmtileg, ekki síst kannski vegna þess að hér felst ógeðið ekki í kynferðislegu ofbeldi. Stílinn grípur þessa hárfínu línu vel og þetta skilar sér sömuleiðis í þýðingunni.

Ég var ekki alveg eins hrifin af bók Anne Holt, Það sem aldrei gerist, þó hún sé að mörgu leyti ansi áhugaverður krimmi. Kannski fannst mér það dálítið undarlegt að ná betri tengslum við morðingjann en rannsóknaraðilana, hjónin Adam Stubø og Inger Johanne Vik. Þau eru afar þreytandi dæmilegt norrænt par, hann stór og breiður og mikill á allan hátt, hún horuð og taugaveikluð, meðal annars vegna þess að hún er nýbúin að eignast barn og óttast mjög að eitthvað sé að, en hún á annað fatlað fyrir. Plottið er nokkuð ævintýralegt, en sagan hefst á því að þekkt fjölmiðlakona er myrt og limlest á táknrænan hátt. Tvö önnur morð með táknrænum limlestingum fylgja hratt í kjölfarið og Johanne, sem er sótti nám í „profiling” hjá FBI er fengin til að aðstoða eiginmann sinn, rannsóknarlögreglumanninn. Erfið fortíð hennar blandast í málið, en hún á ekki góðar minningar frá náminu, en neyðist þó til að rifja þær upp, því svo virðist sem málið minni á röð álíka morða sem fjallað var um í fyrirlestrunum. En svo tekur málið allt óvænta stefnu og á sér að lokum ansi lunkna og óvænta lausn. Þýðinguna hefði að ósekju mátt lesa betur yfir og sömuleiðis ber nokkuð á prentvillum og stíllinn virkar óþarflega þurrlegur, sem kannski gerir það að verkum að lesandi tengir sig illa við aðalpersónurnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2011.