Beint í efni

KOK

KOK
Höfundur
Kristín Eiríksdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

KOK er fjórða ljóðabók Kristínar Eiríksdóttur. Fyrsta ljóðabók hennar, Kjötbærinn, kom út fyrir tíu árum eða árið 2004, Húðlit auðnin fylgdi á eftir árið 2006 og Annarskonar sæla árið 2008. Fyrri ljóðabækurnar þrjár hafa allar að geyma myndir eftir Kristínu bæði á forsíðu sem og inni á milli ljóðanna. Myndirnar fylgja þannig ljóðunum og myndskreyta þau. Í KOK er samband mynda og ljóða tekið lengra þar sem Kristín teflir myndunum fram til jafns við ljóðin í bókinni. Þá hefur Kristín einnig sent frá sér smásögusafnið Doris deyr og fyrir tveimur árum kom út hin snjalla skáldsaga Hvítfeldfjölskyldusaga og hlaut mikið lof gagnrýnenda og lesenda. Kristín hefur einnig fengist við leikritagerð og samið tvö leikrit sem sett voru upp hjá Borgarleikhúsinu, einþáttunginn Skríddu og leikritið Karma fyrir fugla ásamt Karí Ósk Grétudóttur.

Kristín er bæði skáld og myndlistarmaður og KOK er á mörkum þess að vera ljóðabók og listaverk. Það tvíræða form birtist bæði í innviðum verksins en einnig í „útviðum“ þess, þ.e. útliti, útgáfu og kynningu. Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Forlaginu og kynnt undir flokkinum „Ljóð og leikrit“ í Bókatíðindunum núna fyrir jólin. Á sama tíma hafa sjónrænir eiginleikar bókarinnar mikið vægi; brot bókarinnar er með stærra móti en gengur og gerist sem gefur bæði texta og myndum meira andrými á síðunni. Það er auðséð að myndunum er ekki ætlað að skreyta textann heldur eru þær sjálfstæðar einingar sem hafa jafn mikið vægi og ljóðin í bókinni. Ljóðin sjálf eru óræð og minna á framúrstefnulega ljóðagerð þar sem höfundur skapar senur sem skiptast í þrjá sjálfstæða ljóðabálka og eru aðgreindir með hástöfum. Þar er lögð rík áhersla á sjónræna eiginleika ritaðra orða en ekki síður hljóðmynd þeirra þegar lesið er upphátt. Þetta er undirstrikað með endurtekningum eins og birtist í ljóðabálkinum KOK OG KOK OG KOK:

veggirnir sjást ekki fyrir míniatúrum úr gleri

gólfin sjást ekki fyrir míniatúrum úr gleri

loftin sjást ekki fyrir míniatúrum úr gleri

KOK er í raun marghliða listaverk fremur en ljóðabók. Útgáfu bókarinnar var fagnað í myndlistagalleríinu Týsgallerí, sem sýnir fyrst og fremst samtímamyndlist, samhliða opnun á sýningu Kristínar á myndum sem má sumar hverjar finna í bókinni. Þá er lögð áhersla á hið áþreifanlega efni, sem almennt er sérlega mikilvægt í myndlist því sjálft efnisvalið hefur grundvallaráhrif á framsetningu og útlit verksins, og oft inntak þess. Pappírsvalið í KOK skiptir máli og gerir ljóðabókina að fallegum prentgrip en textinn í ljóðunum vísar einnig í ýmiss konar efni sem fær ákveðna merkingu í meðförum ljóðmælanda. Glerið í míniatúrunum hér fyrir ofan er til að mynda fallegt á að líta en brothætt og þegar miniatúrarnir brotna geta þeir jafnvel orðið hættulegir. Þetta minnir á leik með efni sem finna má í öðrum verkum höfundar: Sena þar sem sögupersónur eyðileggja postulínssafn er eftirminnileg úr skáldsögunni Hvítfeld og í Doris Deyr má lesa sögu um strák sem safnar hlutum úr ýmsum efnum, s.s. plasti, líkamsefnum eins og nöglum, skeggstubbum og augnhárum, og lífrænum efnum eins og blómum. Safnið verður svo fyrir skemmdum þegar jarðskjálfti ríður yfir.

Eins og Kristín hefur sjálf rætt er KOK að vissu leyti skrifuð gegn plottinu sem knýr hefðbundnari frásagnir áfram og leiðir lesendur í gegnum þær. „Plottleysi“ KOK kom skemmtilega upp um sjálfa mig sem textamiðaðan lesanda. Áður en ég hóf lesturinn höfðu mér borist til eyrna tvær hugmyndir um hvað KOK fjallaði í raun og veru. Þegar ég fann hvorugri hugmyndinni stað í verkinu tapaði ég dálítið áttum þangað til að ég áttaði mig á að ég hafði fallið í eigin gryfju. Sem lesandi, alin upp í textasamfélagi og umkringd textum sem lúta ströngum hefðum og hneigjast umfram allt til merkingar, komst ég að því að merkingarleit við lestur á KOK eyðilegði upplifunina á ótrúlega fallegu en viðkvæmu listaverki. Ég get líkt því við að ganga inn á listasýningu og æða beint í textann í sýningarskránni eða veggtextann sem fylgir verkunum til að reyna að skilja listaverkin sem fyrir augu ber, setja þau í það samhengi til þess að geta síðan upplifað þau. Langoftast er mun áhrifaríkara að virða fyrir sér verkið eins og það birtist í rýminu, staldra við og velta því fyrir sér. Kannski læðist að viðtakandanum hugmynd sem gefur til kynna hvernig hann skynjar verkið og jafnvel skilur það. Kannski gerist það ekki. Stundum á viðtakandinn hreinlega ekkert að skilja heldur aðeins skynja sem ég, textamanneskjan, virðist oft eiga mjög erfitt að sætta mig við. En lengi lifir sem lærir.

Að lesa KOK út frá forsendum myndlistar reynist mun frjórra heldur en að skoða það eingöngu út frá hefðum ljóðlistarinnar, hvað þá sem einungis hluta af bókmenntaheiminum. Sá heimur er svo óþolandi oft samtvinnaður bókamarkaðnum – hvernig bækur eru kynntar, markaðsettar og flokkaðar, í hvaða deildir og hillur skuli setja þær í bókabúðum og svo framvegis. Í myndlistarheiminum býr skemmtilegt frelsi. Þar leyfist bandaríska hugmyndalistamanninum Lawrence Weiner að kalla texta skúlptur og því kemur það ekki spánskt fyrir sjónir að Kristín kalli myndirnar sínar ljóð og um leið ljóðin myndir.

KOK er að þessu leyti einstakt verk í flokki ljóðabóka og tilheyrir reyndar ekki nema að hluta þeim flokki á hefðbundinn hátt. Hún fær lesandann til að líta sér nær og skoða eigin lestrarupplifun; hvernig hann les myndir og skynjar texta. Hér verður texti að mynd í tvennskonar skilningi. Orðin, eins og þau birtast á blaðsíðunum, taka að minna á myndir, sem á til dæmis við um orðið kok sem minnir á fyrirbærið sjálft, göng eða op á rás. En ljóðin nýta sér einnig verkfæri sem við þekkjum úr ljóðlist almennt, eins og myndmál og myndlíkingar sem breyta óhlutbundnum hugmyndum í myndir sem vakna til lífsins í hugum lesenda. Hér eiga því hvorki myndirnar að útskýra textann né heldur textinn að útskýra myndirnar, heldur verða textar og myndir að tvennskonar birtingarformi sama verks. Ljóðin í bókinni eru ýmist fígúratíf eða abstrakt, sum birtast með prentstöfum en önnur eru teiknuð með tússi og vatnslitum, þannig að þau taka stundum að leka út af síðunum.

Vera Knútsdóttir, desember 2014