Beint í efni

Kleifarvatn

Kleifarvatn
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Kleifarvatn hefur beðið í aldir eftir Arnaldi Indriðasyni. Þetta dularfulla vatn sem kemur og fer í sinni undarlegu auðn á ekkert minna skilið en hæfileika Arnaldar til að skapa því viðeigandi andrúm ógnar og trega. Rétt eins og Norðurmýrin, sem verður aldrei söm í huga þessa lesanda, er Kleifarvatn orðið að bókmenntum. Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli eru mætt enn á ný og eru í góðu formi. Arnaldur heldur áfram að fylla upp í karakterana, þróa þeirra sögu og gott ef þau hafa bara ekki nokkuð þroskast og lært sitthvað af fyrri reynslu. Ekki svo að skilja að þau hafi ekki áfram sína galla og sérviskur, sem höfundur nýtir sér ekki bara til þess að sýna að þau séu mannleg og breysk, heldur einnig sem áhrifavalda í atburðarásinni. Hver einasta persóna, jafnvel þær sem koma lítið við sögu, fær fastmótaða drætti og verður þetta að teljast einn af helstu hæfileikum höfundarins – engin persóna er of ómerkileg og léttvæg til að ekki sé nostrað við karakterlýsingarnar. Stíllinn er áreynslulaus, samtölin grípandi, oft skemmtileg, og gaman er að heyra aftur í Marion, sem svíkur ekki frekar en fyrri daginn.

Arnaldur reynir hér við enn eitt form glæpasagna og gerir að sínu, og sannar enn og aftur að íslenskum glæpasögum er ekkert ómögulegt ef rétt er á penna haldið. Hér er ekki reynt að búa til útlönd á Íslandi, miklu fremur má segja að formið sé komið í sauðalitina, án þess að missa þá dularfullu spennu sem einkennir það. Öðru hvoru er plottið kannski fyrirsjáanlegt, en það skiptir ekki svo miklu máli, stundum er einmitt styrkur þess sá að benda á hvernig atburðarásin verður óhjákvæmileg og tekur völdin af persónunum. Sérstakt áhugamál Erlendar, gömul mannshvörf, koma hér enn við sögu, fólk birtist og hverfur (rétt eins og vatnið), þoku tímans léttir um stund, svo gleymd fortíð kemur skyndilega í ljós. Hér eru kannaðar margvíslegar orsakir mannshvarfa og ekki síst áhrifin sem þau hafa. Tíminn stöðvast, óvissan verður viðvarandi ástand, raunveruleikinn einungis einn möguleiki af mörgum. Hinir horfnu hafa sérkennilega og áleitna nærveru sem ekki er hægt að bægja frá sér – þeir eru í senn lifandi og dauðir (og minna á kött Schrödingers). Og stundum er jafnvel svo að það er eins og þeir hafi aldrei verið til. Þessir þættir fléttast saman í verkinu á tilgerðarlausan hátt, bæði í persónusköpun og atburðarás, svo úr verður tregafull en heillandi glæpasaga sem er ekki síður hugleiðing um endurskoðun fortíðar, ástir, missi og söknuð. Það er alltof auðvelt að tala af sér í ritdómi um glæpasögur og til að spilla ekki fyrir lesendum verður hér ekki sagt orð meir.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2004