Beint í efni

Íslenskar kynjaskepnur

Íslenskar kynjaskepnur
Höfundar
Jón Baldur Hlíðberg,
 Sigurður Ægisson
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Fræðibækur

Það er til frægt og ægifagurt landakort af Íslandi sem sýnir landið umkringt skrýmslum af ýmsu tagi. Fyrir nokkrum árum gerði listakonan Hulda Hákon lágmyndir af nokkrum þessara skrýmsla og hafa þær notið mikilla vinsælda æ síðan. Almennt séð er þó ekki hægt að segja að kynjaskepnum hafi verið gert hátt undir höfði í íslenskri menningu, utan kannski einstaka óvætt eins og urðarkettinum, en jólakötturinn mun tilheyra því kyni. Á meðan draugar og álfar leika lausum hala virðist sem skrýmslin hafi dregið sig í hlé, eða ef til vill horfið á vit nýrra veiðilenda, eins og segir í kaflanum um Hrosshvalinn í bók þeirra Jóns Baldurs Hlíðbergs og Sigurðar Ægissonar, Íslenskar kynjaskepnur.

Bókin er vegleg úttekt á þessum merku óvættum íslenskrar náttúru. Sigurður ritar texta en myndirnar gerir Jón Baldur. Hér má fræðast um allt sem viðkemur skoffínum og skuggaböldrum, hvítabjarnarkóngum, Nykrum og Skeljaskrýmslum. Einn fugl kemur við sögu, Hverafuglinn svokallaði, því hann hefst við í hverum og er kaldur á bragðið, en flest eru dýrin lagardýr, sem er eðlilegt þegar um eyland er að ræða, sem í ofanálag er mjög vatnssósa (eins og stóriðjuumræðan vitnar um). Það kemur því ekki á óvart hversu mikið er um illhveli og hversu margir nytjafiskar virðast eiga sér önnur og illilegri andlit, en þar ber hæst ‘mæðurnar’, Flyðrumóður, Laxamóður, Selamóður, Silungamóður og Skötumóður. Allar virðast þessar mæður risavaxnar, á við hvali, og sinna afkvæmum sínum ötullega þegar svo virðist sem að þeim sé sótt í óhófi. Það má auðveldlega sjá í þessum móðurímyndum útgáfur af móður náttúru sem bisast við að vernda sjálfa sig og afkvæmi sín, í öllum þeim ágangi sem hún má stöðugt líða.

Það er alltaf auðvelt að finna hið táknræna í þjóðsögum og það er eftirtektarvert og aðdáunarvert að sjá hversu vel höfundar forðast slíkt í Íslenskum kynjaskepnum. Textinn er samansettur af sögnum og lýsingum, allt frá náttúrufræðilegum upplýsingum til tilvitnana í þjóðsögur. Þessi samsetning heppnast almennt vel, en þó er ritmálið nokkuð þétt og á stundum þunglamalegt og það er erfitt að lesa mikið í einu. Enda er það kannski ekki ætlunin, bókin virkar hinsvegar ágætlega sem uppflettirit og heimild um vætti lands og sjávar, mikilvægan þátt í sögu landsins. Myndirnar eru afbragðsgóðar og á stundum afrek, því lýsingum á skrýmslunum ber iðulega nokkuð illa saman - enda bera mörg hver fleiri en eitt heiti. Eins og í öðrum náttúrufræðiritum fylgir staðsetningakort, auk stærðarviðmiðunar og þannig er öllu haldið vandlega til haga.

Ekki má heldur gleyma því að kynjaskepnur landsins eru alls ekki allar til vandræða, því innanum leynast afburða nytjaskepnur eins og sæneytið og jafnvel nykurinn, sé rétt að málum staðið. Öllu verri eru þó þær sem dulbúast sem nytjadýr en reynast eitruð eins og Loðsilungurinn er líklegast frægasta dæmið um. Enn aðrar eru svo göfugar eins og einhyrndi Bjarndýrakóngurinn, þó fáir myndu væntanlega kunna að meta tign hans ef hann stigi á land í dag. Reyndar minnir lýsingin á honum ofurlítið á hina talandi birni í sögum Philip Pullmans, enda ekki ólíklegt að svo mikilfenglegt dýr fari víða. Sérstaklega er þó ánægjulegt að sjá hér saman komin illhveli ýmis, en hvalir hafa fengið á sig einhverja óþolandi krútt-ímynd sem er með öllu ósamrýmanleg við þann sjókalda veruleika sem birtist í Íslenskum kynjaskepnum. Þar eru hvalir illa tenntir, illvígir, eitraðir og eira engu.

Fyrir utan hvað það er mikill almennur fengur að yfirlitsriti af þessu tagi þá felst einnig mikið gildi í því að þarna er safnað saman sögum af óvættunum úr ýmsum áttum, úr ólíkum þjóðsagnasöfnum og frásögnum. Eins og fyrr er sagt eiga sumar skepnurnar sér mörg heiti og jafnvel enn fleiri andlit og getur því verið erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvaða skrýmsli sást óljóst álengdar, jafnvel á hlaupum - eða þá að vitnið var að hlaupum, undan óvættinni. En ef lesandi er vopnaður þessu ágæta yfirliti ætti að vera auðvelt að greina sundur helstu verur, jafnvel ísbirni frá kindum og sveppum. 

Að lokum er mikilvægt að minna á mikilvægi augnaráðsins fyrir þessar ókindur, því margar þeirra búa yfir þeim hæfileika að drepa með augnaráðinu einu. Ráð við slíku er að koma ófétinu fyrir kattarnef með spegli (og á þetta reyndar sérstaklega við kattarblendingana skoffín, skuggabaldur og urðarkött), því það þolir ekki eigið, banvænt, augnaráð. Þó er hinn magíski kraftur spegilsins ólíklega ástæða þess að slíkar kynjaskepnur sjást ekki lengur, því það má vera nokkuð ljóst að þeim hefur reynst augnaráð okkar nútímafólks banvænna sínu eigin.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2008