Beint í efni

Í leyfisleysi: ástarsaga

Í leyfisleysi: ástarsaga
Höfundur
Lena Andersson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Bækur um þráhyggju og ranghugmyndir eru oft erfiðar aflestrar, þ.e.a.s. þegar vel er haldið á penna, mann langar til að henda bókinni út í horn, vill ekki hlusta á þetta, vill allra helst snúa af þeirri augljósu braut hörmunga sem söguþráðurinn er kominn á, í stuttu máli geta þær gert lesandann galinn.

Ester Nilsson er aðalsöguhetjan í skáldsögu Lenu Andersson, Í leyfisleysi, hún er heimspekingur, ljóðskáld og greinarhöfundur sem allir vegir virðast færir. Í eins konar formála að verkinu fáum við að vita að hún hafi haft lífið á hreinu síðustu 13 árin og að hún sé sannfærð um að heimspekileg og umfram allt skynsöm hugsun sé lykillinn að tilverunni. En eins og segir í þessum örstutta en hárbeitta formála: „Þessi frásögn fjallar um hinar ógnvænlegu gjár milli orða og hugsunar, ætlunar og tjáningar, raunveruleika og óraunveruleika, og það sem grær í þessum gjám“ (7-8). Og það má með sanni segja að þessu sé fylgt eftir og það er eins og sagt sé við lesandann að hann geti sjálfum sér um kennt ef það sem á eftir fer komi honum á óvart. Þannig er þetta verk, smátt í sniðum, en vandlega uppbyggt og lesandinn er reyrður niður strax í upphafi og getur sig hvergi hrært, ekki ólíkt aðalsöguhetjunni.

Að loknum formálanum hefst svo atburðarásin og eins og í svo mörgum sögum og bíómyndum þá byrjar allt með því að sími hringir. Ef helsta óhamingja mannkynsins er sú að maðurinn sé ófær um að halda kyrru fyrir einn með sjálfum sér í herberginu sínu, eins og Blaise Pascal orðaði það, þá myndi það líka forða fólki frá mörgum hamförunum að sleppa því stundum að svara í símann. Í símtalinu er okkar manneskja beðin að skrifa grein um listamanninn Hugo Rask sem verður til þess að hún verður ástfangin af honum, skilur við manninn sinn og tekur að eltast við listamanninn sem er þó nokkuð eldri en hún og gefur henni fáar vísbendingar um að ást hennar sé endurgoldin. Þetta samband verður til þess að líf hennar smám saman raknar upp, hún er heltekin, gagntekin af manninum, eða mögulega af tilfinningum sínum í garð mannsins. Og smám saman missir hún allan þann styrk sem hún hefur í upphafi, verður algerlega vanmáttug gagnvart viðbrögðum Hugos og samfélagsins við hegðun hennar og tilfinningum. Hún fjarlægist raunveruleikann, ranghugmyndirnar taka við stjórninni og skynsama heimspekilega hugsunin gufar upp.

Undirtitill verksins, ‚ástarsaga‘, er auðvitað að ákveðnu marki írónískur: svona eru ekki ástarsögur. Nafnið vísar í alveg ákveðna tegund af bókmenntum sem við þekkjum öll (ja, a.m.k. af afspurn), og sá tilbúni hamingjuheimur sem þar ræður ríkjum er ekki beinlínis sjáanlegur hér. Og þó, því það er ekki laust við að hugmyndir og þrár Esterar um hamingjuna sem er rétt í seilingarfjarlægð endurspegli einmitt ímyndir ástarsambandsins eins og hún birtist í ástarsögunum. En þetta er líka bók um hvernig ástin getur leikið okkur, hvern sem er, hvenær sem er og jafnvel upp úr þurru. Fína, klára og gáfaða ofurkonan verður mannleg og missir stjórn, en atburðarásin afhjúpar líka djúpstæðan tómleika í lífi hennar, þessu sparsama, skynsama lífi sem er holt að innan, einmanalegt og tilgangslaust án ástarinnar.

Í viðtölum (hér má t.d. sjá eitt slíkt sem undirrituð stjórnaði á Bókmenntahátíð í september 2015) hefur höfundurinn lýst mjög svo sterkum viðbrögðum sem verkið hefur fengið, og þau hafa fyrst og fremst verið af tvennum toga. Í fyrsta lagi hefur mikið verið fjallað um það í sænskum fjölmiðlum að verkið sé sjálfsævisögulegt og segi frá sambandi sem höfundurinn átti við kvikmyndaleikstjórann Roy Andersson (og sú undarlega staða hefur reyndar komið upp að hann hefur lýst því sjálfur yfir í blaðaviðtali að hann sé Hugo, reyndar án þess að hafa lesið bókina). Þessu hefur Lena Andersson staðfastlega neitað og finnst sú umræða augljóslega fáránleg. Í öðru lagi hefur hún fengið mjög sterk viðbrögð við aðalpersónunni, lesendur eru hreinlega reiðir Ester Nilsson fyrir að láta fara svona fyrir sér. Ég held að það sé ekkert fjarri lagi að skýra þetta hvorutveggja með því að bókin nái svo sterkum tökum á lesandanum að hann fari ósjálfrátt að tengja söguna mjög ákveðið við einhvern ytri raunveruleika, annars vegar á þann hátt að þetta sé allt saman sannsögulegt eða með því að gera Ester Nilsson að lifandi persónu sem hægt sé að skammast í.

Þetta er meitlað verk sem veit hvert það stefnir og lesandinn hefur ekki annan kost en að fylgja með. Það er alltaf gaman þegar fín verk frá Norðurlöndunum eru þýdd á íslensku og ekki spillir það fyrir að þýðing Þórdísar Gísladóttur er feikivel gerð.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2015