Beint í efni

Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn og Vel trúi ég þessu!

Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn og Vel trúi ég þessu!
Höfundar
Bruce McMillan,
 Gunnella
Útgefandi
Epplaeyja
Staður
Garðabær
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn og Vel trúi ég þessu!
Höfundar
Áslaug Jónsdóttir,
 Halldór Baldursson
Útgefandi
Æskan
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hin almenna hugmynd um myndskreytingar í bókum er að þær séu einskonar viðbót við textann, jafnvel skraut, en í öllum föllum ávallt undirskipaðar textanum á einhvern hátt, þjónar hans jafnvel (svona álíka og við gagnrýnendur erum þjónar lista(ma)nna), en ekki skapandi í sjálfu sér. Þetta er viðhorf sem listafólk sem sinnir myndlýsingum í barnabókum hefur reynt að berjast gegn, með misgóðum árangri, þó vissulega hafi þokast í rétta átt, eins og Dimmalimm verðlaunin eru gott dæmi um. Viðurkenningar fyrir myndmál í barnabókum auka vonandi skilning á mikilvægi myndanna, auk þess að benda á þá einföldu hugmynd að ‘lestur’ felur ekki bara í sér lestur á rituðu máli, heldur býr í orðinu læsi mun víðari heimur skynjunar og túlkunar á allt frá bókstöfum til lita, borgarkorta til fatastíls.

Vissulega hafa nokkrir listamenn náð því að hefja myndlýsingar bókmennta á nokkuð virðulegt og viðurkennt plan, en það eru, allavega svona við fyrstu sýn, aðallega myndir við ‘fullorðinsbækur’ (Audrey Beardsley er augljóst dæmi). Fyrir barnabókahöfunda er róðurinn þyngri, en þar bætist veik menningarleg staða barnabóka við veika menningarlega stöðu myndskreytinga. Hvorttveggja líður fyrir skort á því sem franski fræðimaðurinn Pierre Bourdieu kallaði menningarauð og vísar til stöðu tiltekinna fyrirbæra innan menningarkerfisins.

Einu sinni var mér sagt að vandi myndskreytinga lægi líka í viðhorfum listamanna, að myndlist sem segði sögu þætti ekki merkileg. Ef þetta er rétt þá felur slíkt ekki aðeins í sér furðulega fordóma, heldur gengur hugmyndin einfaldlega ekki upp; í öllu myndefni felst einhver saga, þó hún geti vissulega verið örstutt.

Saga á mynd er einmitt sérsvið þeirra sem myndskreyta barnabækur, myndin dregur fram þræði úr sögunni, segir söguna á einhvern nýjan og stundum óvæntan hátt, auk þess sem myndir geta hreinlega verið uppspretta sagna og innblástur fyrir þær. Þannig er því farið með bók bandaríska barnabókahöfundarins Bruce McMillan, hann fékk hugmyndir að sögum þegar hann sá málverk eftir íslensku listakonuna Gunnellu. Árið 2005 sendu þau frá sér bókina Hænur eru hermikrákur og nú á síðasta ári kom út annað samstarfsverkefni þeirra, Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn (Eplaeyja útgáfa, 2007). Þar segir frá konum í þorpi nokkru sem eru orðnar leiðar á eilífu roki og ákveða að gróðursetja tré til að draga úr blæstri. En kindurnar eru andsnúnar verkefninu, þó ekki í sjálfu sér, heldur eru þær einfaldlega svo gráðugar að þær éta nýgræðinginn og ekkert nær að vaxa. Konurnar fá þá kýrnar með sér í lið og þannig tekst að rækta nokkurn skóg og stuðla að logni. Hér er sögð lítil dæmisaga um gróður og veðurfar, hænurnar leika lykilhlutverk því þær leggja til áburð og kýrnar verða fúlar útí kindurnar því þær éta of mikið gras, en með samstilltu átaki fer allt á besta veg. Myndir Gunnellu eru litríkar og lifandi og auðvelt að sjá hvernig McMillan fann sig knúinn til að spinna sögur útfrá þeim; hér birtist dálítið gamaldags heimur, gróðursæll og grænn, og með hjálp hænanna er allt á ferð og flugi. Það er líka gaman hvernig hið kvenlega er ráðandi, allt frá konunum og hænunum, til kinda, kúa og svo ungmeyja, sem einnig leika lykilhlutverk í baráttunni við veður vond.

Vægi málverka Gunnellu kalla líka á spurningar um landamærin milli barnabóka og fullorðinsbóka, en bókin stendur fyllilega fyrir sínu sem svokölluð ‘kaffiborðsbók’, listaverkabók sem er gaman að hafa liggjandi á borði á áberandi stað, til sýnis fyrir glaða gesti. Það sama á við um munnmælasagnabókina Vel trúi ég þessu (Æskan og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2007). Sú bók er gefin út í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en þar er geymt mikið og mikilvægt safn munnmælasagna, varðveitt í lifandi frásögnum fólks. Það voru myndskreytar** sem höfðu samband við stofnunina í leit að viðfangsefnum, með það að markmiði að halda sýningu á myndlýsingum. Efnið var síðan gefið út á bók, en henni fylgir svo geisladiskur með röddum sagnafólksins, sem gerir gripinn enn eigulegri. Listafólkinu var úthlutað sögum sem þau síðan myndskreyttu með afbragðs góðum árangri, en hér er að finna bæði kunnuglegar sögur og minna þekktar, sem allar öðlast nýtt líf í myndrænum útgáfum. Ragnheiður Gestsdóttir dregur upp barnslega mynd af fátækum börnum sem illvætturinn Dingulfótur ætlar sér að hrella, en sakleysislegu yfirbragði myndarinnar er ógnað af hinum gráa fæti sem hangir fyrir utan gluggann og kallast á við svartan græneygðan köttinn hinum megin á síðunni. Myrkrið ríkir næsta algerlega í sögunni af karlinum sem heimtaði barn af kellu sinni og fékk reifum vafinn hrafn í staðinn, en telur sig engu að síður sjá líkindi milli sín og afkvæmisins. Langt nef karlsins kallast á við gogg hrafnsins og lýsingin á auga og nef í annars dimmri mynd dregur titil sögunnar vel fram: “Mitt er auga og mitt er nef”. Og þannig mætti halda áfram, Freydís Kristjánsdóttir sýnir okkur álfaheiminn sem bjartan og bláan, eins og hefðin segir fyrir um, hinn mennski maður er hins vegar brúnklæddur og útitekinn, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir töfrar fram tröllaandlit úr landslagi og náttúruöflum og Sigrún Eldjárn sýnir verulega hrollvekjandi takta í þó glaðlegri mynd af Þorgeirsbola og félögum hans Skottu og Lalla, sem leika sér að því að nota húð hans sem sleða.

Þrátt fyrir að teiknararnir nálgist viðfangsefnið á ólíkan hátt eiga þeir það sameiginlegt að vera að skapa myndrænt umhverfi þjóðsagnaarfsins - arfs sem má segja að sé hér kominn í ákveðinn hring, því sögurnar í bókinni eiga upphaf sitt í sýnum, draumum eða myndum sem fólk sá og sagði frá.

Úlfhildur Dagsdóttir, febrúar 2008

** Myndskreytar eru Ragnheiður Gestsdóttir, Gunnar Karlsson, Freydís Kristjánsdóttir, Þórarinn Böðvar Leifsson, Brian Pilkington, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir, Margrét E. Laxness, Áslaug Jónsdóttir, Sigrún Eldjárn, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Halldór Baldursson og Anna Cynthia Leplar.