Beint í efni

Hvar er systir mín?

Hvar er systir mín?
Höfundur
Eyrún Tryggvadóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er alltaf forvitnilegt að lesa bækur eftir nýja höfunda og ég get ekki annað en fagnað sérstaklega þeim höfundum sem sinna íslenskum afþreyingarskrifum. Það er aðallega glæpasagan sem hefur vaxið að virðingu undanfarin ár og er nú svo komið að nýjir höfundar koma reglulega fram, auk þess sem höfundar sem eru ekki endilega þekktir fyrir glæpasögur spreyta sig á forminu. Sagan Hvar er systir mín? er eftir nýjan höfund, Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur, en hún hefur áður sent frá sér skáldsöguna Annað tækifæri (2004) sem mun einnig hafa verið spennusaga. Saga Eyrúnar sver sig í ætt við sögur Birgittu H. Halldórsdóttur, sem hefur haft hægt um sig undanfarin ár, eftir að hafa meira eða minna haldið ein uppi íslenskum afþreyingarbókmenntum í tvo áratugi. Hér er sagt frá ungri konu, fjölskylduleyndarmálum úr fortíð, ástum og morðum.

Sagan hefst á því að Andrea, sem er búsett í Kaupmannahöfn, fær bréf frá tvíburasystur sinni Áslaugu, sem biður hana að koma heim og segir líf sitt í hættu. Þegar Andrea kemur til Reykjavíkur kemst hún að því að móðursystir hennar hefur verið myrt og að hún er grunuð um morðið. Andrea þykist vera Áslaug til að forðast handtöku og sem slík hefur hún að rannsaka málið, og að leita að systur sinni sem er horfin. Eins og vera ber í slíkum sögum hittir hún svo ákaflega myndarlegan mann sem hún kolfellur fyrir.

Það er löng og góð hefð fyrir spennusögum með ástarívafi blönduðu fjölskyldudrama úr fortíð. Segja má að þetta hafi hafist með gotnesku skáldsögunni enda eru spennusögur af þessu tagi stundum nefndar gotneskar. Birgitta skrifaði nokkrar slíkar sögur, en einnig má nefna sumar glæpasögur Árna Þórarinssonar, bæði sem hann skrifaði einn og í félagi við Pál Pálsson. Þetta er nokkuð óvenjulegt því spennusögur af þessu tagi þykja yfirleitt teljast frekar til kvennabókmennta (hvað sem það nú er).

Eyrún vinnur ágætlega úr þessu efni, en þó vantar vissulega nokkuð uppá að sagan sé verulega vel heppnuð. Þar kemur helst til að endirinn er of brattur og lausnin ekki nægilega vel undirbyggð. Sömuleiðis eru klassísk atriði sem hefði mátt útfæra betur, eins og til dæmis hvert hlutverk myndarlega mannsins er. Á hinn bóginn er notkunin á bréfum og dagbókum (klassískt trikk í svona bókum) vel unnin og dreifist vel yfir söguna. Það er líka ýmislegt í sambandi þeirra systra sem er vel unnið og skapar skemmtilega (andstyggilega) freudíska undirtóna og fellur vel að femínískum kenningum um sjálfsmyndun kvenna.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008