Beint í efni

Hrapandi jörð

Hrapandi jörð
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Almenna bókafélagið
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Jón Yngvi Jóhannsson

Tyrkjaránið árið 1627 er einhver skelfilegasti og um leið ævintýralegasti atburður Íslandssögunnar. Flestir vita eitthvað um þessa alvarlegustu innrás sem gerð hefur verið á Íslandi, við vitum að ræningjarnir voru ekki Tyrkir heldur komu frá Alsír og þeir sem muna Íslandssöguna sína vel vita líka að um það bil 400 manneskjum var rænt og þær fluttar til Alsír í þrældóm, flestum var rænt í Vestmannaeyjum en einnig var tekið fólk á Austfjörðum og í Grindavík. En tölurnar einar segja okkur lítið. Hver þessarra einstaklinga á sér sína eigin sögu, sumar eru hörmungarsögur sem enda í þrældómi og dauða, aðrar ævintýri með farsælum endi.

Það er þess vegna ekkert undarlegt að nú sé komin út önnur skáldsagan á þremur árum sem fjallar um Tyrkjaránið og örlög Íslendinga í Barbaríinu. Fyrir tveimur árum kom út Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur og nú er komin út skáldsagan Hrapandi jörð eftir Úlfar Þormóðsson. Það er athyglisvert að lesa þessar tvær bækur saman. Steinunn einbeitir sér að þeim sem komust heim úr Tyrkjaráninu, og þá einkum örlögum frægasta fangans, Guðríðar Símonardóttur sem seinna varð eiginkona sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar. Í Hrapandi jörð er á hinn bóginn sögð saga þeirra sem urðu eftir og tókst að byrja nýtt líf í Barbaríinu. Þessi saga gefur þannig nokkuð aðra mynd af Tyrkjaráninu en við eigum að venjast. Hún fjallar um fólk sem lifir af og leitar hamingjunnar fremur en heimahaganna. Örlög þeirra í ánauðinni og eftir hana eru vissulega ólík, en nokkrum tekst að gerast fullgildir þátttakendur í nýju samfélagi og hefja nýtt líf, sem maður getur varla ályktað að sé nokkru verra en það sem beið þeirra heima á Íslandi.

Sagan er breið og ítarleg. Við kynnumst fjölda persóna, bæði meðal Íslendinganna og ræningja þeirra, og það er vart hægt að tala um neina eina aðalpersónu, þetta er hópsaga. Þetta gerir það að verkum að það verður svolítið erfitt fyrir lesandann að halda öllum þráðum í hendi sér og muna hver er hver og hvernig persónurnar tengjast. Úlfar fylgir fyrst ránsmönnunum á ferð þeirra til Íslands og á ránsferðum þeirra um landið. Þar er líka lagður grunnurinn að öðru meginplotti bókarinnar, valdabaráttu sjóræningja og valdsmanna í Barbaríinu sem nokkrir Íslendinganna flækjast í á ótrúlegan hátt. Þegar til Íslands er komið er lýst árásum ræningjanna í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. Lýsingarnar eru margar mergjaðar, þær eru skrifaðar í stíl sem litast af heimildunum, stundum eru þær eins og í annálastíl, hlutlægar og svolítið fjarlægar.

Þegar komið er á skip og seinna til Algeirsborgar og Salé breytist sjónarhornið nokkuð. Við fylgjum nokkrum persónum til skiptis, kynnumst mismunandi aðstæðum, ólíkum húsbændum. Það er áberandi hvernig ránið þurrkar út allan stéttamismun meðal fanganna, stórbændur verða að vatnssölum á meðan smalar og sjómenn sem kunna að bjarga sér og hafa jafnvel lært tungumál af erlendum sjómönnum rísa til æðstu metorða.

Hrapandi jörð er vel skrifuð og greinilegt að mikil rannsóknarvinna liggur að baki bókinni. Það er sama hvort lesandinn er staddur á Íslandi 17. aldar, á skipsfjöl með sjóræningjum eða í Alsír, allar lýsingar eru lifandi og trúverðugar. Við kynnumst fjölda fólks af margvíslegu þjóðerni og sá suðupottur ólíkra menningarheima sem Barbaríið svokallaða var verður ljóslifandi, þetta er saga af Íslendingum sem reyna að fóta sig í fjölmenningarsamfélagi löngu áður en það hugtak varð til á íslensku. Þessi mikla breidd er þó líka helsti galli sögunnar. Í raun er hér samankomið efni í margar skáldsögur. Þræðirnir eru margir og þeir sem flóknastir eru fá ekki nægilegt rými til þess að einstakar persónur verði lesandanum verulega nákomnar.

Jón Yngvi Jóhannsson, desember 2003