Beint í efni

Höggið

Höggið
Höfundur
Unnur Lilja Aradóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Minnisleysi er átakanlegt og erfitt að eiga við í raunveruleikanum – en æði frjósamt og spennandi viðfangsefni í skáldskap. Það gefur til dæmis færi á að skapa frásögn þar sem óvissa og eftirvænting eru í fyrirrúmi, þar sem höfundar nota minni og minningar eins og púsl í púsluspili sem hægt og rólega, eftir því sem líður á frásögnina, tekur mynd og svarar spurningum óþreyjufullra lesenda. Hvað gerðist og af hverju? Þá ber minnisleysi með sér mikinn óhugnað, það er óþægilegt að geta ekki rifjað eitthvað upp, að muna ekki og að tapa minninu er líkt og að tapa sjálfum sér; að vita ekki hver maður er og hvað maður hefur gert - hvað er óhugnanlegara en það?

Unnur Lilja Aradóttir leikur sér með þessi stef í spennusögunni Höggið sem er hennar fyrsta bók en hún hlaut glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir verkið. Verðlaunin eru ætluð höfundum sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum en reynsluboltarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson standa að þeim ásamt bókaútgáfunni Veröld. Sagan segir frá Elínborgu sem vaknar upp minnislaus á sjúkrahúsi eftir slys sem hún lenti í ásamt barnungum syni. Hún veit ekki hver hún er eða hvað gerðist nákvæmlega en við lesendur fylgjumst með henni í leit hennar að fortíðinni og að sjálfri sér. Elínborg býr með eiginmanni sem er hennar helsta stoð og stytta í leitinni, en er honum og öðrum yfirleitt treystandi? Frásögnin fer hægt af stað en eftir nokkrar síður grípur hún lesandann sem er spenntur að vita meira um líf þessarar óræðu sögupersónu.

Sagan er vel upp byggð, að minnsta kosti framan af, en mér þótti hún sirka fimmtíu síðum of löng og óþarfa miklu púðri (og blaðsíðum) vera eytt í smáatriði og eftirmál eftir að atburðarásin nær hápunkti og við lesendur fáum að vita hvað raunverulega gerðist. Fram að því nær höfundur að halda lesendum á tánum með spennu og óræðum óhugnaði í hægri en stefnufastri afhjúpun á hræðilegum og tragískum leyndarmálum. Spennusögur þurfa að fylgja formúlu til að geta kallast spennusögur og það er mikil nautn fólgin í því að lesa frásögn sem hefur að geyma vel fléttaða atburðarás. Það er ekki síst þar sem aðdráttarafl glæpasögunnar liggur og þeir höfundar sem hafa náð góðum tökum á formúlunni eru þeir farsælustu, til dæmis þau sem standa að verðlaunum ofangreindu. Höggið fylgir haganlega smíðaðri formúlu og því er undirstaða spennusögunnar til staðar og gott betur.

Í Högginu eru afar þungbær og flókin mál undir en auk þess að ræða minnisleysi fjallar sagan einnig um geðsjúkdóma, barnadauða og persónur í sorgarferli. Þessi mál eru afgreidd á helst til léttúðugan og einfaldan máta, en dýpri rannsóknarvinna á til dæmis minnisleysi, sem virðist vera óþrjótandi uppspretta í bókmenntum, hefði skilað höfundi (og lesendum) enn safaríkari og sannfærandi sögu. Hér myndu sumir ef til vill kenna formi glæpasögunnar um en ég er alls ekki sammála því. Gæðaglæpasögur takast á við erfið mál af dýpt og innsæi, þrátt fyrir að öllum spurningunum sem þær velta upp sé ekki endilega svarað. Í mínum huga er það fráleitt að halda því fram að eitt bókmenntaform sé betur til þess fallið að takast á við allan þann sársauka og erfiðleika sem einkenna mannlegt líf. Það er spurning um gæði textans og að höfundar vandi sig; hafi góða tilfinningu fyrir því sem þeir eru að skrifa um og sýni samkennd með sögupersónum sínum og aðstæðum þeirra. Í ritferlinu mættu þeir minna sig á að þeir líkja eftir því sem raunverulega gæti gerst, og oftar en ekki, hefur gerst.

Stíll sögunnar er einfaldur, látlaus og á köflum helst til flatur. Hér er lítið um skáldleg tilþrif, heldur einbeitir höfundur sér fyrst og fremst að því að koma skilaboðum á framfæri. Einkenni á formúlubókmenntum myndu sumir segja – en aftur er ég ekki sammála og vísa eins og áður í spurninguna um gæðin og mikilvægi þess að höfundar spennusagna leggi jafnmikla rækt við tungumálið og textann og þeir gera við atburðarásina eða formúluna; gefi sér tíma til að skrifa myndlíkingar og myndrænar lýsingar. Að beita ritmáli á skapandi hátt, í stað þess að nota það aðeins sem verkfæri til að koma skilaboðum á framfæri, eykur aðeins á lestrarnautnina og aðdráttarafl sögunnar.

Að því sögðu og skrifuðu er Höggið prýðileg glæpasaga og ágætis byrjun höfundar sem er að taka sín fyrstu skref. Sagan og höfundur hennar tikka í flest nauðsynleg glæpasögubox því hér er til staðar spennandi atburðarás, óhugnaður, tragísk leyndarmál og óvissa sem hægt og rólega er greitt úr. Þá tekst höfundi að koma lesendum á óvart sem eitt og sér er vel af sér vikið.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2021