Beint í efni

Hlustaðu á ljósið og Hver ert þú?

Hlustaðu á ljósið og Hver ert þú?
Höfundur
Njörður P. Njarðvík
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Hlustaðu á ljósið og Hver ert þú?
Höfundur
Njörður P. Njarðvík
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Hlustaðu á ljósið er aðeins fjórða ljóðabók Njarðar P. Njarðvík, en hann er afkastamikill rithöfundur og þýðandi sem kunnugt er. Þær fyrri eru Lestin til Lundar (1973), Leitin að fjarskanum (1990) og Aftur til steinsins (2005). Bókin skiptist í fjóra hluta: Sumarljóð við sjóinn, Landið handan vatnsins, Þú hittir sjálfan þig fyrir og Í spegli vatnsins. Auk þess eru eitt sjálfstætt ljóð í upphafi og tvö í lokin. Hvert ljóð innan hvers hluta er nafnlaust enda ber að líta á hvern hluta bókarinnar sem sjálfstæða heild. Ef þessi ljóðabók er borin saman við hinar fyrri má segja, að hér hafa snarbrött fjöll, brimsorfnir klettar og harka steinsins vikið fyrir dýpt vatnsins og mildi ljóssins.

Í Sumarljóðum birtist rómantísk og einlæg sýn skáldsins, sem fagnar komu sumarins og kveður það síðan með söknaði. Gróðurinn vaknar til lífsins og fuglarnir boða komu sína í upphafi, en fyrr en varir kveðja fuglarnir, brúnin þyngist á fjallinu og dagurinn fyllist drunga. Haust í nánd. Hér beitir Njörður stuðlum í ríkum mæli, sem rímar ágætlega við náttúrulýsingarnar.   

Fjall sól og haf
og friður bjartrar nætur

Njörður P. Njarðvík er forseti alþjóðasamtakanna SPES, sem hefur það að hugsjónastarfi að aðstoða munaðarlaus börn í Afríku. Félagið hefur í því skyni reist barnaþorp í Tógó. Kynni Njarðar af samfélaginu þar er yrkisefni ljóðanna í  Landinu handan vatnsins. En hann er ekki aðeins að lýsa bágum kjörum fólks, umkomuleysi þess, vonum og væntingum. Þrátt fyrir fjarlægðina og ólík lífsgæði eigum við ýmsilegt sameiginlegt, einhvern sameiginlegan tón.

 Landið handan vatnsins
 virðist í órafjarlægð
 en það er mannlegur misskilningur
 því öll horfumst við í augu 
 á einhvern hátt

Þannig hefst þessi ljóðaflokkur, en honum lýkur á þessum línum, sem vert er að gaumgæfa.

 Börn fæðast ekki til þjóðernis
 Við eigum þau ekki
 en þó eru þau öll okkar börn

Í seinni tveim hlutunum íhugar skáldið lífið og tilveruna, til hvers lifum við, hvað er það sem skiptir máli í lífinu, hver eru hin raunverulegu lífsgæði. Leyndardómur lífsorkunnar er svo augljós að við skynjun hann trauðla. Okkur er farið líkt og fiskinum sem leitar vatnsins og finnur ekki. En það sem máli skiptir er auðvitað að njóta lífsins, njóta andartaksins, að „fagna lífinu einsog það er / í allri sinni nekt”. Tökum dæmi af einföldu ljóði, sem geymir engu að síður djúpa og sanna lífsspeki.

 Hlustaðu á ljósið
 sem logar kyrrlátt í brjóstinu
 hvernig sem viðrar

 Rödd þess er mjúklega björt
 og bylgjast um þig
 í mildri þögn
 og því verður að hlusta vandlega

 Einungis þögn nemur þögn
 
 Og þá fyrst andar ljósið
 lifandi birtu

Ljóð Narðar eru trúarljóð, ljóð sem eru gjörð af tilfinningu fyrir því sem máli skiptir, trú á manneskjuna og samhengið í tilverunni. Þetta eru alls ekki trúarljóð í þeirri merkingu, að þau séu lof eða bæn til himnafeðga eða heilagra karla eða kvenna.  Fjarri því.  Hér kemur fram ekki ósvipaður skilningur á tengsl manneskjunnar við náttúruna og órofa samhengi alls þess sem lífsanda dregur, er birtist í ljóðum Snorra Hjartarsonar og Páll Valsson nefndi lífheildarhyggju. Hið smáa í lífinu er jafn mikilvægt og hið stóra. Hafið speglar sig í dropanum einsog víðáttan í nálægðinni.

 í hverjum daggardropa
 speglast óravídd
 alheimsins

 Þar býr sannleikurinn
 um samhengi

Síðasta ljóðið, „Þitt land“, vísar í tvö þekkt kvæði eftir Guðmund Böðvarðsson, „Fylgd“, sem birtist í Kristalnum í hylnum (1952) og „Völuvísu“, sem er að finna í Landsvísum (1963).  Sigurður Rúnar Jónsson samdi lög við þessi kvæði, ásamt Auði Haraldsdóttur, þ.e. hið síðarnefnda, sem gert hefa þau nánast ódauðleg meðal allra friðarsinna og ættjarðarvina. Kvæði Guðmundar eru innblásin af rómantík og ættjarðarást enda hið fyrra samið skömmu eftir amerískir hermenn hreiðruðu um sig á Miðnesheiði. Í „Fylgd“ brýnir faðirinn fyrir syni sínum, að þetta sé landið hans. „Þetta er landið þitt.”  Hjá Nirði er þetta ekki svona klárt og kvitt. Í eyrum hans hljómar þessi einfalda spurn: „Hvert er þitt land?” Skiptir ættjarðarástin og þjóðernisvitundin ekki jafn miklu máli og fyrrum? Mótast afstaða okkar til þjóðfélagsins í dag af því, að við lifum í fjölmenningarsamfélagi? Það má velta þvílíkum spurningum fyrir sér, en svörin kunna að vera jafn margvísleg og einstaklingarnir.

Ljóðabók Njarðar, Hlustaðu á ljósið, geymir mörg afar falleg ljóð, sem birta okkur einföld og sönn lífsgildi, gildi sem eru sjálfsögð og augljós. Engu að síður er nauðsynlegt minna okkur á þau, svo við missum ekki sjónar af þeim í hraða og amstri hversdagsins.

Hvaða áhrif hafði Jesú á samtíðarfólk?

Smásagnasafn Njarðar, Hver ert þú?, byggir á köflum úr hinum hefðbundnu guðspjöllum og Tómasarguðspjalli, auk annarra trúarrita og rita um trú. Þetta eru tíu  smásögur, sem segja frá því hvernig Jesú kom ýmsum persónum Biblíunnar fyrir sjónir. Flest er þetta óbreytt alþýðufólk, nafnlaus múgur, en einnig þekktar manneskjur einsog Símon Pétur og Pílatus. Þetta er 1. persónu frásögn fólks, sem kynnist Jesú, sumt náið, annað rétt í svip. Kjarni málsins er sá hvaða áhrif kynni þeirra af Jesú hafa haft á þetta samtíðarfólk. Jesú kemur þeim náttúrlega kynlega fyrir sjónir og flest botna þau lítið í tilsvörum hans. Gegnumgangandi spurning þessara einstaklinga er: „Hvert ert þú?“ Auðvitað fæst ekki svar við mörgum þessara knýjandi spurninga enda lesandanum látið það eftir að svara þeim sjálfur ef hann kýs.

Þeir kaflar Biblíunnar, sem gripið er niðrí í þessum tengdu smásögum, eru okkur flestum kunn. Við þekkjum söguna af hórkonunni, sem var leidd fyrir Jesú og hann svaraði, að sá yðar, sem syndlaus væri, kasti fyrsta steininu. Þrjár smásögur gerast föstudaginn langa, en þar er mælandinn Símon Pétur, Pílatus og Símon frá Kýreneu, sá sem fenginn var til að bera krossinn fyrir Krist á Golgatahæð. Frá sjónarhorni Pílatusar átti hann ekki annarra kosta völ en dæma þennan uppreisnarsegg og byltingarleiðtoga til dauða. Frásögn Símonar Péturs, sem afneitaði leiðtoga sínum, er áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Símon á í mikilli innri baráttu. „Ég hefi yfirgefið allt, og nú hefur hann yfirgefið mig,” segir hann við sjálfan sig. Að lokum laumast Símon burt, einn og yfirgefinn, útí óvissuna, með þann nístandi efa, að þrátt fyrir allt þekkir maður ekki þann, sem stendur manni næst.

Jesú er oftar en ekki sýndur sem nánast ósnertanleg persóna, sá sem valdið hefur. Þó eru undantekningar frá þessu. Sagan „Jakobsbrunnur“ er ein þeirra. Ónefnd alþýðukona kemur að Jesú þar sem hann situr við brunninn, sem hún er að fara að sækja vatn í. Hann er þar fjarska umkomulaus manneskja, þreyttur og þjáður. Í sögunni um Símon frá Kýrene er hann píndur og þjakaður, með óráði og ófær um að bera krossinn. Einmitt þess vegna verða þessar sögur eftirminnilegar.

Sigurður Jón Ólafsson, nóvember 2010.