Beint í efni

Hjartsláttur

Hjartsláttur
Höfundur
Ragnheiður Gestsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Hjartsláttur er fjórða unglingabók Ragnheiðar, sú fyrsta Leikur á borði kom út árið 2000. Fyrir aðra bók sína, 40 vikur (2001),  hlaut hún Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur og fyrir þá þriðju, Sverðberann (2004) fékk hún Norrænu barnabókaverðlaunin.  Þessi nýja bók gerist síðastliðinn vetur og ólgan í samfélaginu er bakgrunnur sögunnar þótt að hún snerti aðalpersónurnar, þau Tristan og Írisi Sól,  aðeins óbeint.  Íris er í tíunda bekk og í upphafi sögunnar kemur nýr strákur, Tristan, í bekkinn.  Íris býr hjá foreldrum sínum og tveimur yngri systkinum, hún er dugleg og ábyrg, dæmigerð elsta systir í hópnum. Tristan býr hins vegar með mömmu sinni, en á í góðu sambandi viði afa sinn og ömmu. Hann hefur aldrei hitt pabba sinn og veit ekki hver hann er.  Unglingarnir verða ástfangnir en Íris er ekki tilbúin til að segja foreldrum sínum frá því að hún eigi kærasta. Þegar á líður finnst þeim spennandi að halda sambandinu leyndu fyrir bekkjarfélögunum og fjölskyldum sínum, þau láta á engu bera í skólanum og Íris heimsækir Tristan aðeins þegar hann er einn heima.

Ragnheiður vísar til  Tristranskvæðis og riddarasögunnar  um Tristran og Ísold, sem ekki var „skapað nema að skilja“.  Tristan þekkir kvæðið og örlög elskandanna sem þar er sagt frá. Það er kveikja þess að hann tekur strax eftir Írisi Sól. Nafn hennar er nær það sama og á ástkonu nafna hans í sögunni gömlu og auk þess finnst honum útlit hennar passa við lýsinguna á Ísold í sögunni, björt og fögur. Þegar þau eru orðin par kynnir hann söguna fyrir Írisi sem óttast að örlög þeirra verði þau sömu og elskendanna forðum.  Tristan er hins vegar ákveðinn í því að skapa sér sjálfur sín örlög og tekur því ekki þegjandi þegar mamma hans fær vinnu í Kanada og ákveður að þau flytji vestur um haf.

Sagan er fyrstu persónu frásögn þar sem sögurhetjurnar skiptast á að segja frá. Þannig nær höfundur að koma sjónarmiðum margra persóna til skila og stundum er sagt frá sama atburðinum oftar en einu sinni, eftir því hvaða persóna á í hlut. Frá fyrstu kynnum Írisar og Tristans er t.d. sagt tvisvar, fyrst eins og hún upplifði þau og síðan með hans orðum. Þessi frásagnarmáti heppnast vel hjá Ragnheiði og verður til þess að lesendur fá að kynnast sjónarmiðum þeirra fullorðnu jafnt sem unglinganna. Hann gerir það líka að verkum að sagan ætti að höfða jafnt til beggja kynja því það er staðreynd að stelpur vilja frekar lesa um stelpur og strákar um stráka.

Ég er hrifin af tilvísuninni í söguna af Tristan og Ísold, sögu sem ég las þegar ég var unglingur og lifði mig inn í harmræn örlög elskendanna. Trúlega hefur það verið Sagan af Trístan og Ísól eftir Joseph Bédier og út kom í þýðingu Einars Ólafs Sveinssonar sem ég las á sínum tíma.  Bók Ragnheiðar varð til þess að nú langar mig til að rifja upp þá sögu og vonandi verður svo um fleiri.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2009