Beint í efni

Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans

Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans
Höfundur
Haruki Murakami
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Eftirfarandi skrifaði ég á fjasbókina í október, eftir að hafa lesið söguna um hinn litlausa Tsukuru Tazaki eftir Haruki Murakami:

alltaf tekst murakami að henda mér inn í einhverja þeytivindu sem afskaplega einfaldlega virkar eins og galdur. eftir hverja bók finnst mér að ég rísi upp sem ný manneskja. sumar setningar les ég aftur og aftur en yfirleitt anda ég síðunum að mér á örskotsstundu og finn hvernig þær leggjast eins og ný húð yfir hugsun mína og tilfinningar.

Svo mörg voru þau orð og í raun hef ég litlu við að bæta, það að lesa bækur Murakami er óvissuferð af sérstæðri gerð, eiginlega líkamleg skynjun á bókmenntum. Þó er það ekki endilega viðfangsefnið, þó vissulega sé söguþráður þessarar bókar óvenju markviss, heldur frekar það hvernig höfundurinn smíðar verkið, og byggir inn í það endalaus skúmaskot, krúsidúllur og afvegi. Táknmálið er einfalt og sterkt: helsta ástríða hins litlausa Tsukuru Tazaki eru lestarstöðvar, hönnun lestarstöðva. Þar situr hann lon og don og fylgist með lestum – ekki beint ‚trainspotting‘ en þó, honum líður vel að vita af stundvísum lestum. Aðalatriðið er þó stöðin sjálf og sú tilfinning fyrir ferðum hingað og þangað, héðan og þaðan sem hún gefur. Og já, þetta má vel yfirfæra á bókina sjálfa, og bækur Murakamis yfirleitt: þær eru einmitt einskonar vel smíðaðar lestarstöðvar, stökkpallur yfir í óvæntar ferðir hingað og þangað, jafnvel ferðir sem aldrei verða farnar.

Þið afsakið mig, en ég verð alltaf dálítið dramatísk yfir bókum Murakamis. Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans kom upphaflega út árið 2013 og er, eftir því sem mér telst til, fimmta bók hans sem þýdd er á íslensku. Það er Ingunn Snædal sem þýðir þessa bók og gerir það vel – þó að ég geti aðeins miðað við ensku útgáfuna (sem höfundurinn hefur iðulega puttana í, en hann leggur sjálfur stund á þýðingar úr ensku).

Bókin hefst á því að lýsa lífsleiða aðalsöguhetjunnar, Tsukuru Tazaki, sem er 36 ára gamall og býr einn í lítilli íbúð í Tókýó. Ástæða þessa hugarástands er sú að á öðru ári í háskóla hættu vinir hans skyndilega að hafa samskipti við hann. Og þó Tazaki hafi náð sér upp úr þunglyndinu að mestu setur þessi reynsla mark sitt á allt líf hans og samskipti við fólk. Í nútíma sögunnar hefur hann kynnst konu og opnar sig meira fyrir henni en nokkru sinni áður, og það er hún sem hvetur hann til að gera upp þetta gamla mál, róta í sárinu og heimsækja hina fyrrum vini.

Það er einmitt frá þessum vinum sem titillinn ‚litlaus‘ kemur, því Tazaki er sá eini úr þessum fimm manna vinahópi sem bar nafn án tilvísun til litar. Sem auðvitað reynist táknrænt þegar þau ákveða að henda honum út úr hópnum með þeim afleiðingum að hann íhugar að farga sjálfum sér – án þess þó að hafa sig beint í það, mest vegna þess algers skorts á aðgerðaleysi sem heltekur tilveru hans.

Á háskólaárum sínum eignast Tazaki að vini ungan mann, Haida. Sá er aðeins yngri, utan að landi og fremur illa staddur fjárhagslega. Tazaki tekur hann eiginlega að sér en í staðinn sér vinurinn um að elda mat. Þessi vinur hverfur svo með dularfullum hætti, í einskonar endurtekningu af sniðgöngu vinanna og Tazaki situr eftir með sárt ennið – og röð af innihaldslausum samskiptum við konur.

Hér er dálítil breyting frá fyrri verkum Murakami, en margar sagna hans innihalda horfnar stúlkur. Vissulega eru þarna tvær horfnar stúlkur, vinkonur hans, en þó er eins og Haida virki hér á svipaðan hátt og allar þessar horfnu kærustur, með tilheyrandi hómóerótískum undirtónum. Eða meira en það, draumalíf Tazaki er auðugt og hann dreymir eitt sinn kynlíf með Haida – eða dreymdi hann það? Óljós mörk drauma og veruleika eru eitt af þemum verksins, og klassískt stef hjá Murakami (og í bókmenntum almennt, sé út í það farið).

Það er athyglisvert að sjá hér tilvísun til samkynhneigðar, en almennt hefur slíkt ekki verið áberandi í verkum Murakami (þó vissulega dáist karlkyns aðalsöguhetjur hans oft að fögrum karlmönnum, eins og til dæmis í kindabókinni, A Wild Sheep Chase). Reyndar er samkynhneigð almennt ekki áberandi fyrirbæri í japönsku samfélagi sem er frekar íhaldsamt að þessu leyti. Þó blómstra samkynhneigðar ástir karla á síðum myndasagna sem njóta mikilla almennra vinsælda í japan, en sérstakur flokkur þeirra helgar sig ástarsögum homma, misblautum. Þessar sögur eru aðallega skrifaðar af konum, og ætlaðar konum. Það var reyndar fleira sem minnti mig á myndasöguhefð japana í bók Murakamis, meðal annars þessi notkun á einföldum og hreinum táknum.

Eitt þeirra er dauðinn, sem Haida stendur að einhverju leyti fyrir, en hann segir Tazaki sögu af föður sínum og einkennilegum fundi hans við einskonar handhafa dauðans. Enn á ný eru skilaboðin skýr: tilvera hins litlausa Tazaki er einskonar dauði, eins og kemur einnig fram í setum hans á lestarstöðum, hann er fastur í limbói lífs og dauða sem hann getur ekki rofið sig úr nema að gera upp fortíðina. Einfalt, ekki satt?

Og að mörgu leyti er þetta afskaplega einföld og látlaus bók, eins og ýmsar fyrri úr höfundarverki Murakami, til dæmis Norwegian Wood og Sunnan við mærin, vestur af sól. Þetta er saga af erfiðri reynslu sem skiptir sköpum fyrir tilveru ungs manns, reynslu sem hann verður að gera upp ef hann ætlar sér að ná tökum á tilverunni.

Þó er fátt sem sýnist þegar kemur að Murakami, en bókin er full af táknum og teiknum sem eru langt því frá að vera skýr. Hvert er hlutverk Haida, til dæmis? Er hann fulltrúi dauðans eða átaka við kynhneigð? Enn dularfyllri er þó kærastan sem setur Tazaki af stað í sína pílagrímsferð, en framganga hennar er með ólíkindum, svo að hún virkar eiginlega sem einskonar örlaganorn. Hvað hún vill með þennan kolruglaða gaur er algerlega óljóst.

Sömuleiðis er margt óljóst með vinahópinn og það sem þar gerðist, og ekki skýrast málin þegar Tazaki fer til Finnlands að hitta aðra af stúlkunum, þá sem getur hvað best útskýrt fyrir honum hvað gerðist (án þess að í raun skýra neitt). Finnland er framandi fyrir Japanann, sem undrast mjög hvað Finnar eru gjarnir á að gefa út djúphugsaðar yfirlýsingar um lífið og tilveruna. Kannski er það einmitt þarna, í þessu bili milli hins hógværa og látlausa stíls Murakami – sem fellur fyllilega að hinum litlausa manni sem elskar lestarstöðvar – og íhugulla yfirlýsinga Finnanna – en þær virka allar átakalausar og óúthugsaðar – sem sagan gerist. Og við sitjum á lestarstöðinni með Murakami, þaðan sem lestar fara út um hvippinn og hvappinn, allt er að gerast í kringum okkur en samt eru rólegheitin ríkjandi, við erum ekkert endilega að fara neitt, heldur bara að njóta þess að vera, hér.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2014