Beint í efni

Hin hversdagslega grimmd lífsins

Hin hversdagslega grimmd lífsins
Höfundur
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Bergþóra Snæbjörnsdóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt bókmenntalíf árið 2017 með annarri ljóðabók sinni, Flórída, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Maístjörnunnar. Bókin vakti meðal annars athygli fyrir frumleg efnistök og frásagnaraðferð sem minnti um margt á skáldsögu. Nýjasta bók Bergþóru, Allt sem rennur, sem kom út haustið 2022 og hlaut nýlega ljóðaverðlaunin Maístjörnuna, er svipuð að forminu til og Flórída en bókin sver sig þó meira í ætt við skáldsögu hennar Svínshöfuð sem kom út 2019.

Líkt og Svínshöfuð skiptist Allt sem rennur í þrjá meginhluta sem hver um sig fjallar um ákveðna sögupersónu. Fyrsti hlutinn, „Fjara“, fjallar um tveggja barna móður sem vinnur á sambýli. Annar hlutinn, „Fyrirlitleg“, fjallar að mestu um kærasta Fjöru, Vöðvastrákinn, ungan mann sem stundar vaxtarækt og leiðist út í glæpi, þótt kaflinn heiti eftir móður hans sem er uppnefnd Fyrirlitleg. Þriðji hlutinn, „Stelpan sem breytti sér í fjall“, fjallar svo um Stelpuna, eldri konu sem býr á sambýlinu og þjáist af geðsjúkdómum og offitu. Persónurnar tengjast innbyrðis og í fjórða og síðasta hluta bókarinnar (sem er framhald af fyrsta hlutanum) kemur í ljós hvað sameinar þær allar á harmrænan hátt.

Prósakenndur skáldskapur

Frásagnarljóð hafa ekki verið ýkja algeng í íslenskum nútímakveðskap þó svo að formið þekkist víða um heim. Undanfarin ár hefur þó borið æ meira á svokölluðum ljóðsögum þar sem höfundar nýta sér frásagnartækni skáldsögunnar í ljóðum sem segja eina samfellda sögu. Bergþóra Snæbjörnsdóttir er leiðandi skáld í þessari ljóðagrein hér á landi en af öðrum nýlegum verkum mætti nefna bækurnar Sonur grafarans eftir Brynjólf Þorsteinsson, Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur og Skurn eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur.

Í Allt sem rennur tekst höfundi, í 158 blaðsíðna ljóðabók, að segja sögu sem tæki skáldsagnahöfund eflaust mörghundruð síður að koma til skila. Í viðtali við undirritaðan sem birtist í Fréttablaðinu í nóvember 2022 sagði Bergþóra, spurð um það af hverju hún hefði hreinlega ekki skrifað skáldsögu:

„Mér fannst ég geta komið þessari sögu til skila í færri orðum. Hún þurfti ekki fleiri orð og ég er ekkert viss um að hún hefði verið sterkari við það.“

Þetta er líka alveg hárrétt hjá Bergþóru, bókin þarf alls ekki fleiri orð. Allt sem rennur er ljóðabók sem segir stóra sögu í fáum orðum; hrá og jafnvel svolítið harðsoðin ljóðsaga. En hún er einnig næm og blátt áfram á hátt sem fæstir prósahöfundar myndu leyfa sér. Sem dæmi má nefna eftirfarandi ljóðbrot sem birtist einnig á baksíðu bókarinnar:

á hverju ári sendir hún
fyrrverandi eiginmanni sínum skilaboð
ég lifi

á hverju ári svarar hann
ég veit

Í þessum örfáu línum tekst höfundi að draga upp skýra og ljóðræna mynd af sambandi tveggja persóna sem annars er lítið sem ekkert fjallað um, enda stígur fyrrverandi eiginmaður Fjöru aldrei fram sem persóna í bókinni.

Átakanleg og ægifögur

Persónugallerí Bergþóru Snæbjörnsdóttur í áðurnefndum bókum hennar, Flórída og Svínshöfuð, samanstendur gjarnan af fólki sem er á einhvern hátt jaðarsett, hvort sem það er vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna, fátæktar, fíknar, geðsjúkdóma eða fötlunar. Allt sem rennur er þar engin undantekning en aðalkarakterarnir þrír; Fjara, Vöðvastrákurinn og Stelpan, eru allt fólk sem á í fullu fangi með líf sitt, sum meira en önnur. Bergþóra dvelur þó ekki í áföllum þessara persóna heldur grundvallar bókina í glímu þeirra við hversdagsleikann og lýsir harminum aðeins lauslega:

hún var alin upp í þöglu húsi
einkabarn aldraðra foreldra
sem skömmuðu hana aldrei

ef lófar þeirra sneru upp
voru þau ánægð

ef lófar þeirra sneru niður
voru þau óánægð

ef þau krepptu lófa eða trommuðu með fingrum
átti hún að biðjast afsökunar

hún vandist því að horfa á hendur fólks
til að lesa í hugsanir þess

Þá öðlast lesendur stundum nýtt sjónarhorn á persónurnar í gegnum hina karakterana eins og þegar í ljós kemur að kærasta Vöðvastráksins er Fjara, aðalpersónan úr fyrsta kafla:

kærastan er eldri en vöðvastrákurinn

tveggja barna móðir með bleikt hár
lærði sálfræði í háskóla
heldur aldrei jafnað sig á því
að hafa fengið barnakrabbamein í heilann
líf hennar er meira kraftaverk
en gengur og gerist og

það versta sem gæti gerst gerðist
þess vegna þarf hún að hafa stjórn á öllu

Allt sem rennur er átakanleg bók og síður en svo auðveld lesning. Bergþóra er algjör snillingur í að skrifa um hina hversdagslegu grimmd lífsins og þá hörðu lífsbaráttu sem persónur hennar heyja, bæði við sjálfa sig og við samfélagið, sem reynist þeim í besta falli skeytingarlaust og í versta falli fjandsamlegt. En þótt líf aðalpersónanna þriggja sé ekki ljúft þá er Allt sem rennur engu að síður falleg bók, kannski væri réttast að segja ægifögur, því texti Bergþóru hreinlega ljómar í tærleika sínum. Þessi fegurð ljótleikans birtist einna skýrast í þriðja hlutanum, „Stelpan sem breytti sér í fjall“, sem mætti segja að sé ljóðrænasti hluti bókarinnar enda er hann sagður út frá sjónarhorni Stelpunnar sem er andlega veik og dvelur að mestu í sínum eigin huga:

hægt og örugglega hefur stelpan breytt sér
hlaðið vegg úr holdi til að sjá ekki
grafið sig inni, sést ekki en er samt hér enn
berskjölduð eins og hvítmálaður veggur svo
hún hleður og hleður, gefst ekki upp
heldur áfram að hlaða

andlitið kjötgríma, dauð og frosin en
undir grímunni iðar hún af lífi


Stöðugt flæði lífsins

Eitt af höfundaeinkennum Bergþóru Snæbjörnsdóttur er hversu myndrænn texti hennar er. Áferðin er slík að manni finnst nánast eins og hægt væri að snerta textann, eins og hann eigi jafnvel meira skylt við myndlist en bókmenntir. Að þessu leyti minnir hún um margt á Kristínu Eiríksdóttir sem er einn af okkar albestu höfundum þegar kemur að því að draga upp myndrænar lýsingar og holdgera bókmenntatexta. Þá dregur Bergþóra upp skýra sviðsmynd í ljóðunum með því einu að minnast á hversdagslega eins hluti og bjórflöskur, sígarettur eða Pringles-snakk. Í fyrsta hluta bókarinnar er atviki í afdrifaríkri djammferð Fjöru til Spánar lýst á eftirfarandi hátt:

breskur læknir skrifaði upp á sterakrem
skipaði henni að forðast sólina
hún var með bókað reykherbergi
horfði allan daginn á spænska MTV
drakk til að deyfa kláðann
í úthverfri húðinni
ferskur reykurinn rispaði að innan
eftir að öskubakkinn fylltist
askaði hún í bjórflösku

Annað dæmi um það hvernig Bergþóra skapar áferð í textanum er titill verksins Allt sem rennur. Þetta er titill sem virðist látlaus við fyrstu sýn en ber með sér lúmska ljóðrænu ef nánar er að gáð því hann vísar í ýmsa ólíka hluti svo sem mjólk, áfengi og líkamsvessa. Frasinn er endurtekinn þrisvar sinnum í gegnum bókina, í hvert skipti í lok ljóða. Í fyrsta skiptið vísar hann til mjólkur sem „rennur fram af borðinu / í mjórri bunu / allt sem rennur“ á kaffihúsi þar sem Fjara vinnur. Í annað skiptið vísar hann til óra Vöðvastráksins sem sér sjálfan sig sem slátrara sem sker dýr á háls er hann lætur konurnar á sambýlinu taka inn lyfin sín „blóðið flæðir hægt yfir hendur hans / allt sem rennur“. Í þriðja og síðasta skiptið, í blálok bókarinnar, vísar frasinn til hringrásar lífsins sem rennur saman í eilífu flæði fæðingar, dauða og endurnýjunar „þau sem höfðu eitt sinn líkama en runnu / þar til þau sukku / samanhnipraður vefur í blárri skel“. Allt sem rennur minnir okkur þannig á stöðugt flæði lífsins og það hvernig maðurinn er í raun bara hylki fyrir ólíka vessa, vatnið sem flæðir í gegnum okkur og heldur í okkur lífi er jú sama vatnið og hefur flætt hér á jörðu í milljónir ára.

Harmur þess að eiga og vera barn

Annað þema sem er gegnumgangandi í Allt sem rennur er móðurhlutverkið og hinar dökku hliðar þess. Allar persónur bókarinnar eru í rauninni að glíma við harm sem tengist því að eiga barn eða vera barn einhvers. Fjara glímir við áfall þess að hafa alist upp hjá sinnulausum fósturforeldrum sem vanræktu hana tilfinningalega og þjáist af stöðugum kvíðahugsunum um að bregðast sínum eigin börnum:

aftur og aftur
og aftur
finnur hún son sinn
líflausan á botni sundlaugar

Vöðvastrákurinn glímir við það að vera sonur konu sem notar dóttur sína sem útrás fyrir eigin annarlegu hvatir og klæðir t.d. barnið upp sem nítjándu aldar nýlenduþræl á öskudaginn „makað út í skósvertu / með hjólalása um svarta kámuga ökklana“. Þó er það sennilega Stelpan sem þjáist hvað mest vegna móðurhlutverksins af öllum þessum persónum. Hún eignast barn ung í ofbeldissambandi sem er svo tekið af henni af yfirvöldum og verður áfallið upphafið að því að Stelpan missir algjörlega tökin á veruleikanum:

Stelpan gat ekki sofið í meira en klukkutíma eða tvo í senn, sama hvað hún gleypti eða drakk. Ef hún sofnaði hrökk hún upp með hjartslátt og andlitið blautt, fálmandi um í rúminu eftir því sem var horfið. Á næturnar ráfaði hún svefnvana á milli herbergja. Stikaði í hringi og lamdi höfðinu í veggi og reyndi að klóra utan af sér húðina.

Það er oft sagt að enginn velji sér sína fjölskyldu en hvort sem okkur líkar það betur eða verr hefur fjölskyldan gríðarleg áhrif á það hvernig maður kemur út sem manneskja, jafnvel þótt fólk alist ekki upp hjá blóðforeldrum sínum. Allt sem rennur er kynngimögnuð ljóðsaga um hinar harmrænu hliðar lífsins, fjölskylduböndin sem umvefja okkur fyrir lífstíð „eins og mjúkur leir um skordýr“, og geta í senn verið það fallegasta og það erfiðasta í tilverunni. Allt sem rennur er bók sem er hægt að lesa oft og mörgum sinnum og situr lengi í lesandanum eftir hvert skipti.


Þorvaldur S. Helgason, júní 2023

 

Heimild: Þorvaldur S. Helgason, „Ég les ekki til að verða hamingjusöm“, Fréttablaðið, bls. 17, 253. tölublað 22. árgangur, birt 18.11.2022, sótt 12.6.2023: https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/221118.pdf