Beint í efni

Himnaríki og helvíti

Himnaríki og helvíti
Höfundur
Jón Kalman Stefánsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Ég verð að viðurkenna að þegar ég lauk lestri nýjustu skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar Himnaríki og helvíti var ég ekki alveg viss um hvað ég ætti að segja. Þetta er nefnilega bók sem þarfnast tíma og íhugunar – og það er ótvírætt hól. Kannski er ástæðan samt sú að ég er nýfluttur úr borginni vestur á firði eða með öðrum orðum á sögusvið þessarar skáldsögu. Orðin og veruleikinn hafa því runnið dálítið saman undanfarið og einstökum setningum og málsgreinum bókarinnar hefur skotið upp í hugann fyrirvaralaust. Bara við það eitt að líta út um gluggann eða horfa upp þegar ég stíg út um dyrnar á morgnanna: „Samkvæmt landakortum rísa fjöllin hérna níuhundruð metra upp í loftið, en einn morguninn þegar við vöknum frá næturdraumum og lítum út hafa fjöllin hækkað umtalsvert og eru minnst þrjú þúsund metrar, þau rispa himininn og hjartað í okkur skreppur saman.“ (bls. 115). En hvað sem samslætti tilveru undirritaðs og skáldsögunnar líður verður þessi áhrifamáttur einstakra setninga og málsgreina að teljast einn helsti kostur hennar. Áhrifin eru ekki síst tilkomin vegna þess að víða liggur tungumál og stíll sögunnar nær ljóðlist en prósa. Og það er fátt ánægjulegra en að lesa skáldsögu sem nær að gera hvort tveggja í senn, að segja góða sögu en um leið fanga áhrifamátt ljóðsins. Því þannig má lýsa heilu efnisgreinum þessara skáldsögu, þótt þær lýsi sér auðvitað best sjálfar:

Þegar lægir og við getum farið út án þess að deyja, eru göturnar þaktar þara, eins og hafið hafi hnerrað yfir okkur. En lognið kemur alltaf aftur, englafjaðrir svífa hingað niður, við stöndum í fjörunni og hlustum á hægar smáöldur brotna með lágu gjálpi, óróleikinn hjaðnar, það hægist á blóðinu, hafið breytist í freistandi rúm sem við þráum að leggjast í, fullviss um að sjórinn ruggi okkur í svefn, æðarfuglinn hefst og hnígur, síþvaðrandi og það verður ekki alveg eins sárt að hugsa til þeirra sem sjórinn hefur hrifsað til sín. (bls. 115-116).

Sagan gerist sem sagt á Vestfjörðum fyrir meira en hundrað árum, nánar tiltekið í Djúpinu. Fyrrihluti sögunnar gerist í verbúð fyrir opnu hafi, eða öllu heldur á sexæringi sem rær frá verbúðinni, en síðari hlutinn gerist í Plássinu í grennd við verbúðina. Sagan hverfist um ungan mann sem í upphafi sögunnar rær ásamt fimm öðrum frá verbúðinni. Þessi ungi maður þráir ekkert heitar en að fá tækifæri til að þroska huga sinn, læra tungumál og umfram allt lesa bækur. En slíkt er fjarlægur draumur, nærri kraftaverki í harðri lífsbaráttu:

[H]ann vill komast að kjarnanum hver sem hann er, hann vill komast að því hvort það er einhver kjarni til, en það er stundum erfitt að hugsa og lesa þegar maður er lerkaður eftir erfiðan róður, blautur og kaldur eftir tólf tíma úti á engjum, þá geta hugsanir verið svo þungar að hann loftar þeim varla og þá er langt í kjarnann. (bls. 17)

Að sumu leyti eru þessar andstæður leiðarstef verksins, annarsvegar þráin eftir andlegu fóðri og hinsvegar þessi harða lífsbarátta sem tekur nánast alla orku fólks og gefur engin grið til munaðar eins og lesturs. Þegar hver vökustund verður að snúast um sjálfa lífsbjörgina, að afla matar og halda lífi við þá iðju eru þeir duttlungar að liggja í bókum skammarlegir í augum margra. Til dæmis í augum Einars, eins alharðasta skipsfélaga drengsins: „Djöfull er að sjá fullorðna menn og verkfæra liggja og lesa óþarfar bækur, þvílík sóun á ljósi og tíma“ (bls. 25). En drengurinn er reyndar ekki einn við þessa iðju, besti vinur hans Bárður er einskonar lærifaðir hans og saman deila þeir bókum. Eitt bókmenntaverk er Bárði sérstaklega hugleikið en það er Paradísarmissir Miltons í þýðingu Jóns á Bægisá. Áður en þeir leggja af stað í örlagaríkan róður les Bárður eitt erindi ljóðsins hvað eftir annað til að leggja það á minnið og nesta sig andlega fyrir róðurinn. Og hann gefur lítið fyrir ákúrur Einars, því: „ljós sem nær að lýsa upp góða ljóðlínu hefur áreiðanlega náð tilgangi sínum“ (bls. 30-31). En nautnafullur lestur fagurbókmennta og hörð lífsbarátta fara ekki vel saman eins og kristallast í einni áhrifamestu setningu skáldsögunnar: „Það er lífshættulegt að lesa ljóð“ (bls. 82). Þessi setning gæti virst tilgerðarleg, einhverskonar réttlæting á innsta eðli skáldskaparins, en í samhengi sögunnar er hún einfaldlega bláköld staðreynd.

Líkt og í bókinni sem Jón Kalman sendi frá sér á undan Himnaríki og helvíti, verðlaunabókinni Sumarljós og svo kemur nóttin, er sagan sögð í 1. persónu fleirtölu. Þessi sérstæða frásagnaraðferð, sem hæfði svo einstaklega vel til að lýsa lífinu í sveitaþorpinu sem var sögusvið Sumarljóssins, hefur þróast og þroskast í Himnaríki og helvíti. Margsamsett sögumannsröddin er jafnvel enn persónulegri og tregafyllri en í fyrri bókinni og lesandinn hlýtur að finna til samúðar með henni því hljómur hennar berst frá stað sem er handan við lífið en samt í lífinu miðju. Röddin stendur lesandanum því mjög nærri en um leið er hún ein helsta ráðgáta verksins og er fjarlæg að því leyti að maður áttar sig ekki á því hvaðan ómur hennar berst. Þessi samsetta sögumannsrödd ávarpar lesandann beint og því tilheyrir hún á dularfullan hátt samtíma lesandans en um leið berst hún langt aftur úr fortíðinni. Í heimi skáldsögunnar, og vonandi raunheiminum líka, eru orð einhvers virði, þau eru kraftmikil, geta bæði drepið og lífgað, bjargað og tortímt. Sögumannsröddin sendir sín orð út til lesandans í sérstökum tilgangi:

Við ætlum að segja frá þeim sem lifðu á okkar dögum, eða fyrir meira en hundrað árum, og eru fátt annað fyrir þér en nöfn á hallandi krossum og sprungnum legsteinum. Líf og minningar sem eyddust samkvæmt vægðarlausu lögmáli tímans. Því ætlum við að breyta. Orð okkar eru einskonar björgunarsveitir í þrotlausu útkalli, þær eiga að bjarga liðnum atburðum og slokknuðum lífum undan svartholi gleymskunnar og það er alls ekki smátt hlutverk, en þær mega í leiðinni gjarnan finna einhver svör, og síðan bjarga okkur héðan áður en það verður um seinan. (bls. 7-8).

Eins og fram hefur komið lýsir sagan tilveru alþýðufólks fyrir rúmum hundrað árum sem er ekki svo ýkja langur tími í mannkynssögunni, en sú hundrað ára tilvera sem lýst er í skáldsögunni er þrátt fyrir það órafjarri því sem við þekkjum nú. Það er ekki hægt að segja annað en að björgunarleiðangur orðanna sem minnst er á í tilvitnuninni hér að framan takist vel. Ástæða þess liggur einkum í tvennu, annarsvegar í töfrandi og ljóðrænum stílnum sem minnst hefur verið á og hinsvegar í því að hve glæsilega söguheimurinn er skapaður. Stuttu áður en mér barst Himnaríki og helvíti var fyrir tilviljun gaukað að mér bók sem var gríðarlega gaman að lesa samhliða skáldsögunni. Þetta er nokkurskonar endurminningabók Árna Gíslasonar, þar sem hann lýsir sjósókn og mannlífi á Ísafirði og í verðbúðunum í Bolungarvík á sögutíma skáldsögunnar. Bókin heitir Gullkistan eins og Djúpið var gjarnan kallað sökum fisksældar. Ég mæli eindregið með því að þeir lesendur sem hafa áhuga á því lífi sem skáldsagan lýsir hafi upp á Gullkistunni, sem er vel skrifuð fróðleg og skemmtileg. Gullkistan leiddi greinilega í ljós hve vandlega Jón Kalman hefur unnið að Himnaríki og helvíti, allar lýsingar á daglegu lífi og aðferðum standa heima. Sagan er því stórkostleg samblanda af sögulegum fróðleik og listilegum skáldskap.

Ingi Björn Guðnason, desember 2007