Beint í efni

Himinninn yfir Þingvöllum

Himinninn yfir Þingvöllum
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Unnar Valsson

Himinninn yfir Þingvöllum samanstendur af þremur liðlega hundrað síðna sögum: Rafflesíublóminu, Dögum þagnar og Svarta hlutnum. Í Rafflesíublóminu segir frá Emil, ungum manni sem er nýfluttur á Ljósvallagötuna til þess að ganga frá dánarbúi afa síns og skrifa ritgerð um dauðann í verkum Halldórs Laxness. Þegar sagan hefst ganga skrifin illa. Fyrir utan einstaka kaffisopa með Martin, ormatínslumanni í kirkjugarðinum, hefur Emil einangrað sig algerlega frá mannlegu samfélagi og þessi einangrun er farin að segja til sín. Eina nóttina fær hann heimsókn frá ungri konu sem bankar upp á hjá honum dauðadrukkin í leit að skjóli. Hún neitar að segja til nafns, drepst í sófanum, þiggur kaffisopa í þynnkunni og kveður. Þessi heimsókn margendurtekur sig og verður brátt fastur liður í tilverunni. Þegar stúlkan hættir fyrirvaralaust að láta sjá sig fer Emil að leita að henni, og kemst að því að hún hefur framið sjálfsmorð.

Þegar hér er komið sögu er nóg um einsemd og dauða en martröðin er rétt að byrja. Þráhyggjan stigmagnast, leitin að stúlkunni dregur Emil að lokum í gröfina og þar má segja að hann skilji endanlega við mannlegt samfélag. Hinar sögurnar tvær fylgja þessari línu hvor á sinn hátt: Í Dögum þagnar segir frá parinu Davíð og Önnu sem flytja í frönsku Alpana að sumri til. Anna vinnur á hóteli og Davíð vinnur í skáldsögu, þarna hafa þau einangrað sig frá gamla lífinu á Íslandi til þess að bæta samband sitt. En skrifin ganga illa. Davíð drekkur sífellt meira og lendir í vægast sagt slæmum félagsskap. Stanslaus drykkja og djöfulgangur leiða til þess að einhver óræður hryllingur stíar Davíð og Önnu í sundur, en þögnin og illskan sem fylgja í kjölfarið keyra líf þeirra endanlega í kaf.

Í Svarta hlutnum segir frá Benna og Ellu. Þau búa á olíuborpalli skammt undan ströndum ónefndrar stórborgar. Þegar sagan hefst er sjórinn í kringum þau horfinn og allt fólkið með. Einn daginn birtist maður sem vill nota rörin neðan úr borpallinum til að leita að "svarta hlutnum" djúpt ofan í jörðinni. Á yfirborðinu er ögn léttara yfir Svarta hlutnum en fyrri sögunum, þar sem lesandinn fylgir Benna en ekki Ellu. Benni er einfeldningur sem virðist ekki hafa vitræna burði til þess að líta í kringum sig og örvænta, en hinsvegar skynjar hann breytinguna í Ellu, hvernig hún einangrast og verður þögninni að bráð líkt og Emil og Davíð.

Allar sögurnar segja frá fólki sem dettur úr sambandi við umheiminn, sturlast og/eða deyr; frá aðstæðum sem virðast vonlausar og versna síðan snarlega; og frá því hversu hættulegt er að koma nálægt bókum. Himinninn yfir Þingvöllum kallast þannig að einhverju leyti á við Konur, en þær eiga það sameiginlegt að fjalla um einangrun, ölvun, grimmd, eymd, dóp, grótesku og dauða. En hnignunin í bókunum er af ólíkum toga. Í Konum er þeirri hugsun fleygt fram að ef Eva stæði nógu fast á sínu yrði henni sleppt, þess vegna hafi hún ekki við annan að sakast en sjálfa sig. En um leið kemur í ljós að aðstæður hennar hafa verið fyrirfram ákveðnar og hegðun hennar stýrt til þess að leiða hana að ákveðinni niðurstöðu. Í Himninum er hins vegar ekkert baktjaldamakk og ekkert stærra samhengi sem persónum sagnanna yfirsést. Mennirnir standa sjálfir að baki sinni eigin eyðileggingu og veröldinni stendur á sama.

Styrkur sagnanna felst ekki síst í því hversu blátt áfram þær eru í svartsýni sinni: Í tómhyggjunni felst hvorki kaldhæðni né gálgahúmor, frekar skapast tilfinning fyrir ómannlegum hryllingi sem verður sífellt áþreifanlegri eftir því sem líður á bókina. Steinar hefur mátulega gaman af að lýsa því hvernig hlutirnir brotna og merjast í jörð og hann hefur gott vald á sögunni. Hann skapar í fáum dráttum þessa myrku stemmningu sem er hvort í senn ónotaleg og grípandi, og tónninn í frásögninni rennur hnökralaust úr hversdagslegri depurð yfir í óhugnað. Sterkasta stefið í þessari niðurleið eru sögur sem persónur bókarinnar segja hvor annarri og þar fer bókin oft mikinn.

Boppi, sögumaðurinn frá Helvíti og drykkjufélagi Davíðs í Dögum þagnar, er óþreytandi uppspretta þesskonar sagna og sögukorna en Anna hefur á orði að sögurnar skorti endi. Hann svarar á þá leið að halda verði í það dularfulla og ýjar að því að það myndi ræna sögurnar áhrifum sínum að festa þeim einhverja merkingu - með því til dæmis að segja söguna til enda. En helsti galli Himinsins yfir Þingvöllum eru einmitt endarnir á sögunum. Allar þrjár enda sögurnar á draumkenndri, silalegri senu þar sem persónurnar renna á einhvern hátt saman við umhverfið og stöðvast. Þetta er frekar einsleitt og minnir aftur á Konur, en þar bætti endirinn þó einhverju við heildarmyndina, sem ekki má sjá á Dögum þagnar og Svarta hlutnum. Í lok Rafflesíublómsins tekur sögumaðurinn sig til, sem áður hefur verið hlutlaus og síður en svo áberandi, og varpar fram stuttri staðhæfingu um Guð. Þetta á e.t.v. að kasta nýju ljósi á eitthvað sem undan er gengið, eða þá að opna heim sögunnar enn frekar á síðustu metrunum en gerir hvorugt.

Höfum það samt alveg á hreinu að þetta eru tiltölulega litlir (en hörmulega illa staðsettir) hnökrar á annars sterkum sögum. Lýsingarnar á ,,sambýliskonu” Emils, steingervingunum í hreiðrinu og myrkrinu neðanjarðar eru glæsilegar, og hér og þar má finna kostuleg smáatriði á borð við það hvaðan titill bókarinnar kemur. Á meðan berjast bikasvört heimssýn og illkvitnar hugmyndir á banaspjótum, og Steinar stendur brattur með heimsendi.

Björn Unnar Valsson, nóvember 2009