Beint í efni

Hilduleikur

Hilduleikur
Höfundur
Hlín Agnarsdóttir
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Védís Huldudóttir

Hlín Agnarsdóttir er leikskáld, rithöfundur og leikstjóri. Hilduleikur er þriðja skáldsaga hennar, en áður hafa komið út Hátt uppi við Norðurbrún (2001) og Blómin frá Maó (2009). Hilduleikur fjallar um konu á efri árum að takast á við samfélag sem nennir ekki að hugsa um eldri borgara. Sagan á sér stað í hliðstæðum veruleika við okkar eigin, þar sem búið er að einkavæða umönnun eldri borgara — hún er komin í hendur fyrirtækisins Futura Eterna, eða Eilífrar Framtíðar. Hilduleikur er samfélagsleg ádeila sem gagnrýnir vanrækslu nútímasamfélags á eldri borgurum.

Sögumaður bókarinnar, Bragi Austan, er sjálfur aukapersóna í bókinni, en hann vinnur við að þrífa heimili Hildu tvisvar í viku. Hann segir frá í þátíð eins og atburðir bókarinnar séu löngu liðnir, og hefur innsýn inn í atburði sem hann ætti alls ekki að hafa neina vitneskju um. Það kemur þónokkuð á óvart þegar sögumaðurinn hringir allt í einu dyrabjöllunni í fyrstu persónu eftir næstum heilan kafla í þeirri þriðju. Bragi er í ónefndu ljóðatengdu námi í Háskólanum og var einungis ráðinn vegna áhuga síns á ljóðum og bókmenntum. Það er að sjálfsögðu engin tilviljun að sögumaður skuli heita Bragi eins og skáldaguðinn, enda ljóð mikið lykilatriði í Hilduleik. Ljóðrænn symbólismi er hér á hverju strái og stundum greinir Bragi sjálfur táknin í bókinni áður en lesandi nær að gera það.

Í sögunni ríkir einhvers konar draumkennt töfraraunsæi. Mörkin milli draums og raunveruleika, sannleika og ímyndunar eru aldrei alveg skýr. Látinn eiginmaður Hildu kemur stundum að heimsækja hana, og það er óljóst hvort það sé draumur eða vaka. Á sama tíma býr Hilduleikur yfir ákveðnum eiginleikum vísindaskáldskapar — því í sögunni birtist alls kyns tækni sem við búum enn ekki yfir. Það er auðvitað besta mál, enda er vísindaskáldskapur gjarnan notaður til þess að varpa ljósi á óréttlæti sem höfundur upplifir í samtíma sínum. Vandi Hilduleiks liggur í því að þessi tvö öfl — töfraraunsæið og vísindaskáldskapurinn — passa ekki alveg saman, heldur takast á og gera það að verkum að lesandinn nær aldrei almennilega að festa hendur á raunveruleika sögunnar. Yfir bókinni allri hangir svo einhver drungi sem ómögulegt er að negla niður og sem rennur úr greipum lesandans jafnóðum, eins og sandur.

Hvíti liturinn er alls staðar í Hilduleik. Strax fyrstu málsgrein bókarinnar dreymir Hildu um snjó.

Tandurhrein lyktin af nýfallinni mjöll fyllti vitin. Þessi ómótstæðilega lykt sem ekkert ilmvatn gat líkt eftir. (7)

Hugmyndin sem hér kemur fram, að ekkert ilmvatn geti líkt eftir ilminum af alvöru snjó, er vandlega athuguð. Hér eru drögin lögð að togstreitu milli hins raunverulega og þess sem er fjöldaframleitt. Þessi átök stinga upp höfðinu víða í bókinni. Þó hvítur litur tákni hreinleika og nýtt upphaf í vestrænni menningu er hann líka víða tákn fyrir dauða og sorg. Hvítt hár kemur víða við sögu í Hilduleik, skýrt tákn fyrir elli.

Hilda er, eins og stendur á bókarkápunni, „komin á Aflifunaraldur“, — sem er ekki bara gamansamur orðaleikur hennar sjálfrar heldur formleg flokkun Futura Eterna á eldri borgurum. Þegar fólk er komið á ákveðinn aldur í heimi Hilduleiks er ýjað sterklega að því að það sé einfaldlega tekið af lífi, nema það fái „Undina“ — eða undantekningu — en þeim gamalmennum sem hana hljóta er í staðinn komið fyrir í pínulitlu húsnæði og þaðan þurfa þau svo að sækja ítrekað um undanþágu frá dauðanum. Gamalt fólk í heimi Hildu er aðeins byrði á fjölskyldu sinni og þvælist fyrir. Þessi afstaða er ekki óalgeng í okkar eigin heimi og í raun er hér einungis ýtt undir og gert meira úr raunverulegum átökum eldri borgara við kerfi sem nennir ekki að hugsa um það.

Fyrirtækið Futura Eterna er helsti andstæðingur Hildu í sögunni. FE er stofnað og rekið af Oddi Oddssyni — nafn sem vekur upp í hugann myndir af spjótum og hnífum. Fyrir utan forstjórann ríkir nafnleysi yfir Futura Eterna. Hilda fær nokkur bréf frá fyrirtækinu og það er aldrei skrifað undir með sama nafni tvisvar.

Hér segjum við ekki til nafns. Kjörorð fyrirtækisins er nafnleysi. Það sem skiptir mestu máli er að gera úttektina sem hraðast og og best fyrir viðskiptavininn, svaraði konan óaðfinnanlega. (33-34)

Svona svarar móttökuritari Futura Eterna þegar Hilda spyr hana um nafn. Hún er raunar svo æfð og vélræn að Hilda grunar hana um að vera „tölvubrúðu“ — eitthvað sem lesandinn heldur ef til vill að séu ýkjur en Hilda hittir svo í raun og veru slíka brúðu síðar í bókinni. Oddur Oddsson birtist lesanda aðallega í gegnum viðtöl við hann sem Hilda les, og myndin sem birtist þar af honum er ekki fögur. Helsta áhugamál Odds er að ferðast til fátækra landa og taka þar myndir af börnum í neyð. Svo heldur hann dýrindis ljósmyndasýningar af þeim.

[F]oreldralausum börnum, heimilislausum, sjúkum og fátækum. Innan um þessi börn glittir alltaf í perlur og gimsteina, þau sem munu lifa af hörmungar ef þau vilja og það sést strax í augum þeirra, hvernig þau horfa á mann, hvort viljinn til að lifa er fyrir hendi. (43)

Hér birtast lesandanum skýr tengsl á milli þess hvernig komið er fram við annars vegar eldri borgara, og hins vegar börn í fátækum löndum. Börnin á myndum Odds Oddssonar eru langt í burtu frá íslenskum veruleika og Oddur hefur engan áhuga á að hjálpa þeim, frekar en gamalmennunum sem hann á að þjónusta. Meðalmanneskja finnur ef til vill til ákveðinnar samfélagslegrar ábyrgðar í garð eldri borgara og gagnvart börnum sem þjást, en Oddur Oddsson hefur engan áhuga á að lifa í núinu eða að gera það betra. Hann hefur einungis metnað fyrir því að skjalfesta það svo það geti verið til að eilífu, í hinni eilífu framtíð. Sjálf hefur Hilda meiri áhuga á núvitundinni, að vera til í augnablikinu. Umhverfis hana eru hins vegar allir alltaf að undirbúa framtíðina: dauða hennar sjálfrar.

Læknirinn lagði síðan til að Hilda tæki minnispróf og nokkra tíma í Camera Memorie eða minningaherberginu, því ef það væri eitthvað sem gæti komið í veg fyrir Undina, væri það ekki eingöngu minnisleysi heldur minningaleysi. Ef manneskja hefði engar minningar væri hún varla til. (40)

Aðstandendur Hildu hafa lítinn sem engan áhuga á að halda henni sjálfri á lífi, einungis minningum hennar og minningum um hana. Í minningaherberginu rifjar Hilda upp hvernig hún og Ragnar eiginmaður hennar heitinn kynntust, þegar hún vann í Fujibúðinni — verslun og framköllunarstofu — og hann kom með filmu í framköllun til hennar. Hilda útskýrir fyrir honum að filman sé tóm, að hann hafi ekki tekið neinar myndir, og kennir honum hvernig á að beita myndavélinni. Tilraun hans til þess að varðveita stúdentsferðina misheppnaðist, en í staðinn tóku þau ótal myndir hvort af öðru. Hilda kynntist eiginmanni sínum og barnsföður, sem hún deilir ótal minningum með, í misheppnaðri tilraun hans sjálfs til þess að varðveita eigin minningar til framtíðar. Lesandinn fær aldrei að frétta neitt af þessari stúdentsferð Ragnars, enda er hún ekki partur af minningum Hildu. Þó eru minningar Hildu af Ragnari oft tengdar við ljósmyndir sem hún hefur tekið af honum við margvísleg tilefni. Ljósmyndirnar eru aldrei öll sagan, heldur kveikja þau á minningum Hildu sjálfrar. Það er ópersónulega ljósritið sem Futura Eterna vill gera af upplifunum Hildu sem kemur illa við lesandann.

Ég átti í stökustu vandræðum með það að negla niður hvað mér fannst um Hilduleik meðan ég las bókina, og ég er ekki viss um að það hafi orðið auðveldara eftir að ég lauk við hana. Ef til vill er það nákvæmlega þannig sem höfundur vill hafa það, en þó finnst mér eins og sagan viti ekki sjálf hvers konar saga hún er. Ég er ekki alveg sátt við endi bókarinnar — eða mögulega skildi ég hann ekki. Þó ég hafi átt í erfiðleikum með að festa hendur í hári sögunnar hafði ég gaman af lestrinum, auk þess sem hún fékk mig til að hugsa — sem er alltaf velkomið. Ég mæli með Hilduleik fyrir bókmenntafræðinga og aðra nörda sem finnst gaman að taka glósur meðan þeir lesa. Ég held ég þurfi að lesa hana aftur við tækifæri.
 

Védís Huldudóttir, nóvember 2020