Beint í efni

Heimsendir

Heimsendir
Höfundur
Guðmundur Steingrímsson
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

Leifur hét ungur maður, og var Eiríksson. Hann bjó í bakhúsi í Þingholtunum og sýslaði með alþjóðleg verðbréf af takmarkaðri færni. Fjárins hafði Leifur upphaflega aflað með því að skrifa ævisögu vestfirskrar útgerðardrottningar sem seldist vel ein jólin í upphafi 21. aldarinnar. Þegar markaðir tóku dýfu einn daginn þurrkaðist megnið af höfuðstólnum út. Úr því svo var komið ákvað Leifur að rétt væri að sólunda afgangnum með stæl. Halda til Ameríku og lifa þar í vellystingum neyslu og nautna meðan enn væri aur í buddunni.

Unnur hét unnusta Leifs. Vel gerð stúlka í alla staði, glæsileg með afbrigðum, skapgóð og skemmtanaglöð líkt og hann, enda parið samstíga í lífinu. Þar til reyndar Leifur verður vitni að hliðarspori Unnar með kunningjanum Sæma. Hvort þessi svik Unnar eru orsök þess að hann tekur hana hálstaki á BDSM-klúbbi í New York eftir nokkrar villtar vikur í vestrinu er ekki alveg ljóst af frásögninni, né heldur hvort hún er lífs, en þar skilja leiðir með þeim. Unnur hverfur úr sögunni og við fylgjum Leifi eftir á hans hröðu niðurleið. Stjörnunum fækkar á hótelunum, kókaín víkur fyrir bjór, afsláttarbúðir taka við af verslunarferðum í lúxushverfunum. Er hægt að sökkva dýpra? Svo sannarlega. Það ferðalag, og sú upplifun Leifs að líklega sé heimurinn að veita honum maklega ráðningu fyrir framkomuna við Unni, er meginefni Heimsendis.

Guðmundur Steingrímsson stýrir léttum og liprum penna og kómískum á köflum. Afstaða hans til söguhetju sinnar er viss írónísk fjarlægð, honum lætur vel að láta Leif rata í raunir sem margar hverjar eru heldur óvenjulegar fyrir íslenskar skáldsagnapersónur. Ætli þessi nafni landafundahetjunnar sé ekki sú fyrsta sem hefur eytt heitum degi í biðröð í Los Angeles, bíðandi eftir að röðin komi að honum í tilraun til að setja heimsmet í raðkynlífi, og drepið tímann með heldur stefnulausum pólitískum rökræðum við tilvonandi kviðmága sína?

Hinn óbærilegi léttleiki nútímans er heimavöllur Leifs. Vangaveltur hans um stöðu sina, heimsmynd og heimspekilegan grundvöll fá töluvert pláss en eru sjaldnast djúpristar. Bæði vegna þess að Guðmundr kýs að rista ekki djúpt, en ekki síður vegna þess að heimssýn Leifs er grunn og kæruleysislega formuð, að hætti nútímans. Verra fyrir áhrifamátt sögunnar er hitt, að hugmyndirnar og pælingarnar hafa heldur ekki veruleg eða sýnileg áhrif á gang mála eða viðbrögð Leifs við aðstæðum sínum. Viðhorfin þróast heldur ekki að ráði í glímu Leifs við stigvaxandi raunirnar. Engu að síður má finna í textanum ágætis sýnishorn af kunnuglegri heimsmynd:

„Hér er komin enn ein þversögnin í hugsanamynstri mínu. Ég er vinstrisinnaður í skoðunum en hægrisinnaður í háttum. Saga mín sýndi svo ekki varð um villst að ég hafði tröllatrú á kapítalisma. [...] Ég vildi vildi njóta góðs af hagnaði hinnar vestrænu gróðahyggju en á sama tíma gerði vinstrimennskan ráð fyrir að setja yrði siðferðisleg mörk á ásókn fyrirtækjanna í náttúruauðlindir og ódýrt vinnuafl“ (bls. 63).

Ætli það geti ekki ansi margir skrifað undir þetta? Ekki síst fólk á rófi frjálslyndu vinstri miðjunnar þar sem Björt framtíð, stjórnmálaflokkurinn sem Guðmundur tók þátt í að stofna, haslaði sér völl. Hitt er viss ljóður á bókinni að erindi Guðmundar virðist hvorki vera uppgjör við eða rannsókn á þessum hugmyndum, né heldur athugun á þeim undirheimum sem Leifur á leið um eða áhrifum þeirra á hann.

Sumir hlutar ferðalagsins eru á hinn bóginn bráðskemmtilegir og bitastæðir sem slíkir. Jafnvel finnst mér stundum meira fóður í boði en Guðmundur matreiðir í textanum. Það á sérstaklega við um vist hans á kalifornísku lúxushóteli í boði dularfulls klámkóngs sem aldrei lætur sjá sig en borgar reikningana án þess að kalla eftir neinu framlagi frá Íslendingnum. Þarna býr og borðar Leifur frítt, en er að öðru leyti nánast eins og fangi aura- og stefnuleysis. Það er áhugaverður og frumlegur fáránleikablær yfir þessum söguhluta, sérstaklega þegar Leif fer að að renna í grun að sumir, jafnvel flestir, gestir hótelsins séu fólk í sömu stöðu, í einhverskonar lúxus-limbói á vegum kynlífsiðnaðarins. Þarna er lopi sem vel hefði mátt teygja. Hugsanlega hefði hann dugað í heila bók.

Sama mætti segja um þann hluta sem tekur við eftir að Leifi er fleygt út af hótelinu þegar markaðsdýfa kippir, að því er virðist, fótunum undan styrktaraðilum hans. Í ljós kemur að þrátt fyrir persónutöfra og sæmilegt vit í kolli skortir Leif nokkurn veginn allt sem þarf til að komast af í hinum grimma og öryggisnetslausa heimi markaðstorgsins. Þær tilraunir og samskipti hans við hina úrræðagóðu en skapbráðu Natösju, sem einnig hafði lifað á brauðmolum klámbransans, eru frjótt en mögulega vannýtt viðfangsefni. Lokahlutinn, þar sem við sögu kemur frekar klisjulegur trúarsöfnuður, og dálítið ófullnægjandi endir er hnýttur á hið dularfulla hvarf Unnar, jafnast ekki á við þessa tvo bitastæðustu kafla.

Heimsendir Guðmundar Steingrímssonar er skemmtileg aflestrar. Hún gengur ekki langt í að skapa óhugnað sem vel hefði verið möguleiki út frá innihaldinu. Hún skautar á yfirborðinu þegar kemur að nautnalífinu og þó Leifur sé manngerð sem liggur vel við höggi greiningar og afhjúpunar gengur höfundur hvergi mjög nærri sínum manni með krufningartækin. Hún er sjaldan beinlínis spennandi en heldur lesandanum engu að síður við efnið með því að kynna ný og ný sögusvið sem sum, jafnvel mörg, eru athyglinnar virði og hefðu jafnvel þolað lengri heimsóknir.

 

Þorgeir Tryggvason, 2018