Beint í efni

Harmur englanna

Harmur englanna
Höfundur
Jón Kalman Stefánsson
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Líklega er hollt nú á tímum að Íslendingar séu minntir á hve stutt er síðan þeir voru á pari við svokölluð þróunarlönd hvað lífsgæði og afkomu almennings varðar. Fátt er betur til þess fallið en skáldskapur. Því þótt tölulegar upplýsingar og sagnfræðirit séu ágæt til síns brúks þurfa þessi skilaboð að ná inn að beini, eða öllu heldur inn að hjartarótum. Harmur englanna er skáldsaga sem nær þessu þótt hér sé ekki beinlínis ætlunin að halda því fram að slíkt sé í forgrunni frásagnarinnar.

Harmur englanna kemur í framhaldi af skáldsögunni Himnaríki og helvíti sem kom út árið 2007 og mun vera önnur í röð þriggja skáldsagna. Á bókarkápu er hún reyndar kynnt sem sjálfstætt framhald Himnaríkis og helvítis, en mér finnst full ástæða til að vara við því að slíkt sé tekið of bókstaflega og mæli eindregið með að lesendur byrji á byrjuninni og lesi þá fyrri áður en þeir vinda sér í þessa. Enda er hætt við að mikilvægt samhengi skorti, sé hlaupið yfir fyrri bókina. Fyrir utan þá einföldu staðreynd að Himnaríki og helvíti er stórgóð bók og því engin ástæða að láta hana liggja ólesna.

Líkt og í fyrri bókinni leiðir sögumannsrödd, í fyrstu persónu fleirtölu, lesendur um 100 ára gamla tilveru við sjávarsíðuna vestur á fjörðum. Ungi maðurinn, sem aldrei er kallaður annað en strákurinn, er sem fyrr í forgrunni, nema nú er hann kominn af sjónum, laus undan því hlutskipti að róa á „líkkistu“ um Djúpið til að draga lífsbjörgina úr sjó. Það grillir reyndar í betri tíð hjá stráknum því hann fær skjól hjá kjarnakonunni Geirþrúði sem rekur greiðasölu í Plássinu í trássi við valdamenn þess. Örlögin haga því samt þannig að hann þarf að takast erfiða för á hendur og fylgja landpóstinum Jens yfir í afskekktustu byggðir þessa harðbýla landsvæðis. Megnið af frásögninni snýst svo um hrakningar og erfiðleika þeirra félaga.

Í Himnaríki og helvíti fengu lesendur að skyggnast inn í líf fjölda persóna, þótt strákurinn hafi verið í forgrunni. Hið sama er upp á teningnum hér og margar persónur sem komu við sögu þar skjóta upp kollinum aftur og lesendur kynnast þeim betur. Fyrirferðarmesta persónan, fyrir utan drenginn, er samt Jens landpóstur ekki ósvipað og Bárður var í Himnaríki og helvíti. Þessi ferðalangur og strákurinn eru algjörar andstæður, hvort sem litið er til líkamsburða, persónuleika, skapgerðar eða áhugamála. Strákurinn er ræðinn og einhvernvegin allur á andlega og vitsmunalega sviðinu, sem auðvitað reynist erfitt við þær óblíðu aðstæður sem þeir glíma við. Jens er aftur á móti þögull og nánast eins og hluti af náttúrunni sjálfri og ber harm sinn í hljóði eftir fremsta megni.

Þeir sem þekkja til verka Jóns Kalmans verða örugglega ekki fyrir vonbrigðum með Harm englanna og allra síst þeir sem hrifust af Himnaríki og helvíti. Hér er ýmislegt kunnuglegt á ferðinni, þræðir sem Jón Kalman hefur áður spunnið. Í einni af fyrstu skáldsögum hans, Birtunni á fjöllunum, fæst ein persónan, Starkaður Jónasson, við það verkefni að skrásetja héraðslýsingu sinnar sveitar. Formáli héraðslýsingarinnar birtist lesendum skáldsögunnar, þar segir: 

Sá sem hefur stjörnur yfir sér villist síður og skin þeirra minnir á, að hann er aldrei einn. Þessvegna þurfum við héraðslýsingu. Hún á að koma orðum yfir okkur, hún á að skila lífi og störfum til niðja; og líf okkar verða stjörnur á himni þeirra. Þessvegna þurfum við héraðslýsinguna. Svo við gleymumst ekki. Svo þeir villist ekki. (Birtan á fjöllunum, bls. 182)

Þetta viðhorf Starkaðar rímar vel við ýmislegt sem fjallað er um í Harmi englanna og raunar í Himnaríki og helvíti líka. Kannski er ekki fjarri lagi að segja að flestar skáldsögur Jóns Kalmans fáist einmitt við það sem Starkaður lýsir í formála héraðslýsingarinnar þegar hann segir að hún eigi „að koma orðum yfir okkur“ og „skila lífi og störfum til niðja.“ Ekki svo að skilja að verk Jóns Kalmans séu einhverskonar þjóðháttalýsingar, þótt slíkt sé ekki meint sem hnjóðsyrði, því þau lúta fyrst og fremst lögmálum skáldskaparins.

En umfjöllun um samband orðanna við lífið er fyrirferðarmikil í Harmi englanna og strákurinn er mjög upptekinn af þessu. Hann stendur nefnilega á þröskuldi nýrrar reynslu, því í húsi Geirþrúðar gefst honum tækifæri til að lesa og skrifa. Nokkuð sem var honum fjarlægur draumur áður, jafnvel draumórar þegar litið er til þess úr hvaða stétt og aðstæðum hann er sprottinn. Smátt og smátt kemst hann að raun um áhrifamátt orðanna og lesendur fá að fylgjast með þeirri glímu. Hann tekur t.d. upp á því að skrifa Andreu, matseljunni í verbúðinni sem hann dvaldi í áður en örlögin höguðu því svo að hann lenti hjá Geirþrúði: „Strákurinn lítur aftur niður á bréfið, orðin eru það eina sem tíminn virðist ekki geta stigið léttilega yfir [...] En sum orð virðast þola eyðingarmátt tímans, það er svo skrýtið, þau veðrast vissulega, verða hugsanlega svolítið mött, en standa og geyma í sér löngu horfin líf, geyma horfinn hjartslátt, horfna barnsrödd, þau geyma forna kossa“ (bls. 73).

Þessi glíma við orðin, minningarnar og lífið sjálft, sem ekki verður skilið frá orðunum, er eins og rauður þráður í gegnum bókina. Hugrenningar stráksins á ferð sinni í gegnum hríðarkófið með Jens, þeim fáorða manni, snúast að stórum hluta um þetta. Og það er líklega einmitt það sem gerir að verkum að þessi bók nær talsverðum hæðum. Það er að segja hugleiðingar stráksins um orðin og tilgang þeirra andspænis baráttu við náttúruöflin þar sem orð virðast í fljótu bragði ekki hafa nokkurn tilgang annan en að eyða dýrmætri orku úr líkamanum, enda gleypir hríðin þau miskunnarlaust og feykir þeim út í buskann. Þessar andstæður birtast svo í mönnunum tveimur, eins og áður segir, en jafnframt eru dregin fram líkindi á milli þeirra sem sýna glögglega að þrátt fyrir allt eru þeir ekki svo ólíkir.

Það er ákveðnum vandkvæðum bundið að fjalla um verk á borð við Harm englanna, vitandi að þriðji og síðasti búturinn af heildarmyndinni er ókominn. Maður bíður eiginlega með öndina í hálsinum. Ekki síst vegna þess að bókin endar þannig að maður á erfitt með að bíða í ár – hvað þá lengur! En heildarmyndin er sem sagt ekki enn til staðar. Af þeim sökum er sá möguleiki fyrir hendi að aðfinnslur eigi ekki við þegar öll kurl eru komin til grafar. Líti maður á björtu hliðarnar má samt segja að maður geti látið sig hlakka til að lesa þennan þríleik í beit þegar þar að kemur og velta vöngum yfir honum í heild sinni.

Að þessu sögðu verður samt ekki hjá því vikist að nefna að sá lesandi sem þessi orð skrifar saknaði þeirrar skýru nærveru sem fyrstu persónu fleirtölu röddin hafði í Himnaríki og helvíti. Þar hélt þessi rödd betur utan um frásögnina, en stundum er eins og hún hverfi í Harmi englanna. Kannski inn í hríðarkófið? Í öllu falli er á köflum eins og þriðju persónu frásögn taki völdin og maður missir sambandið við þessa óvenjulegu rödd, sem berst aftan úr fortíðinni en er samt svo nálæg manns eigin tíma. Þetta er einmitt helsti kostur þessarar sögumannsraddar, sem vissulega er til staðar hér, hún er nokkurskonar tenging á milli tíma lesandans og þeirra tíma sem sagan gerist á og virkar því sem lím í frásögninni, jafnframt því að vera ákveðin ráðgáta. Kannski kemur hún betur fram aftur þegar hríðinni slotar, ég vona það að minnsta kosti.

Hér hef ég ekki gefið mér tíma eða pláss til að ræða ýmislegt sem vert væri að nefna í sambandi við þessa skáldsögu. Stíllinn sem einkennir Himnaríki og helvíti, og nálgast á köflum að liggja nær ljóði en prósa, er engu síðri í Harmi englanna og verð ég að leyfa mér að vísa í dóm minn hér á vefnum um fyrrnefndu bókina í því samhengi. Það sem þar kemur fram um þau efni á fullt eins við um þessa. Sá hæfileiki Jóns Kalmans að halda ákveðinni stefnu í frásögninni, um leið og lesandinn er leiddur fram og aftur í tíma og rúmi, nýtur sín líka vel hér sem endranær. Enda heldur frásagnarlist Jóns Kalmans algjörlega dampi, það er stígandi í frásögninni og maður fylgir þeim Jens og stráknum inn í blint hríðarkófið án þess að hika.

Ingi Björn Guðnason, desember 2009