Beint í efni

Hafnfirðingabrandarinn

Hafnfirðingabrandarinn
Höfundur
Bryndís Björgvinsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Klara er fimmtán ára gömul Hafnarfjarðarmær sem er skilin eftir í umsjá ömmu sinnar á meðan foreldrarnir fara í heilsubótarferð til sólarlanda. Hún er ekkert yfir sig hrifin af þessari ráðstöfun í fyrstu en daglegt líf hins dæmigerða unglings, þar sem heilinn er á yfirsnúningi allan daginn og alltaf eitthvað dramatískt að gerast, verður fljótlega til þess að hún er nánast búin að gleyma því að þau séu til. Á meðan hún reynir að komast að því hvort amma hennar sé raunverulega elliær, eins og foreldrana grunar, veltir Klara fyrir sér strákum, vinkonum sínum, bekkjarfélögum og fjölskyldu. Hún sér nýjar hliðar á fólkinu sem er henni næst og áttar sig smám saman á því að þegar er klórað aðeins í yfirborðið kemur oft eitthvað allt annað í ljós en maður átti von á. Þeir sem virðast vera með allt á hreinu eru það ekkert endilega og sætasti strákurinn í skólanum er ekki endilega sá áhugaverðasti. Klara fær líka óvænta innsýn í fortíðina á meðan hún dvelur hjá ömmu sinni þegar hún kemst að því að hún hafi átt afabróður, Ingimar, sem dó ungur af slysförum. Ingimar reynist hafa verið mjög merkilegur maður og hún kynnist honum í gegnum frásagnir fólks sem þekkti hann en hann var af mörgum álitinn sérlundaður furðufugl. Líf Klöru og Ingimars tengjast saman á óvæntan og dularfullan hátt og Klara þarf á endanum að leysa ráðgátu sem hvílt hefur á fjölskyldu hennar um áratugabil.

Eðli málsins samkvæmt eru bækur um líf unglinga oft af svipuðum toga; fjallað er um tilfinningarússíbanann sem margir á þessum aldri upplifa, um hópþrýsting, að passa í hópinn, að vera vinsæll eða ekki og um ást og ástarsorg. Í Hafnfirðingabrandaranum er þó farin frumleg leið sem heppnast mjög vel þar sem sögusviðið er fært úr nútímanum aftur að lokum tíunda áratugar síðustu aldar. Sagan gerist áður en flestir unglingar áttu gsm-síma og áður en samskipti fóru að miklu leyti fram í gegnum samfélagsmiðla. Tækni er að hefja innreið sína í unglingamenninguna og samfélagið allt. Nokkrir af vinum Klöru eiga gsm-síma og Klara skiptist á tölvupóstum við vinkonu sína í Ameríku en bækur eru notaðar til að afla upplýsinga og Klara hringir í fyrrverandi kærasta í staðinn fyrir að senda honum bara skilaboð. Vegna þess að samskipti persónanna fara að mestu fram í eigin persónu er hægt að draga fram aðra þætti í frásögninni svo sem augnráð í sjoppunni eða þynnkulykt og þrúgandi andrúmsloft. Samtöl augliti til auglits eða í gegnum síma verða líka mun persónulegri og Klara neyðist til að þora að taka af skarið.

Lesandinn fær góða innsýn í hugarheim Klöru. Hún er dæmigerður unglingur í upphafi, sjálfhverf og mjög upptekin af því hvað öðrum finnst um hana. Hún er dagdreymin og eyðir þannig löngum stundum. Hún ímyndar sér hvernig hlutir muni fara áður en þeir gerast og gerir sér alls konar hugmyndir um hvað aðrir eru að hugsa. Lesandinn hefur mikla samúð með henni þegar hún lendir í vandræðalegum atvikum, en hún er líka fyndin persóna og vandræðagangurinn í henni verður oft til þess að lesandinn skellir upp úr. Aukapersónur í sögunni eru margar og koma úr ýmsum áttum. Vinkonur og bekkjarfélagar eru áberandi og sömuleiðis ættingjar Klöru. Persónusköpun er á heildina litið vel unnin og hver persóna stígur skýrt fram, misjafnlega þó eftir hlutverki eins og við er að búast. Eftirminnilegasta aukapersónan hlýtur að öðrum ólöstuðum að vera Hallbera frænka, systir Ingimars sem snýr aftur frá Ameríku eftir að hafa verið rekin úr trúarlegum söfnuði fyrir að sigla undir fölsku flaggi. Hallbera er stórfyndin persóna sem fer sínar eigin leiðir sama hvað hverjum finnst. Þrátt fyrir að hún virki rugluð á köflum er alveg á hreinu að Hallbera er ekki kona sem lætur vaða yfir sig. Hún ögrar fólki og gildum þeirra og hugmyndum um hlutverk kvenna. Hún er uppreisnarseggur og hefur fyrir vikið verið talin skrýtin alveg eins og bróðir hennar og hún lætur það ekki á sig fá frekar en hann.

Sá hluti sögunnar sem snýr að Ingimari er um margt óvenjulegur og má segja að hann sé reyfarakenndur á köflum. Höfuðlaus lík og skilaboð að handan koma fyrir ásamt löngu gröfnum leyndarmálum. Frásagnirnar af Ingimari, og reyndar Hallberu líka, undirstrika það sem Klara er að læra um lífið þar sem  hugmyndirnar sem fólk hafði um hann eru ekki á rökum reistar heldur fremur á fordómum. Klara er í upphafi einmitt frekar fordómafull og vill ekkert frekar en að falla í hópinn. Hún lærir hins vegar að standa með sjálfri sér og eigin sannfæringu og hún lærir að þora að stíga fram og segja sína skoðun á misrétti og ósanngirni. Undir niðri má segja að sagan fjalli um að kynnast sjálfum sér og átta sig á því oft eru hlutirnir öðruvísi en þeir virka á yfirborðinu. Pælingar Klöru um lífið eru trúverðugar og vekja lesandann til umhugsunar. Hún hrífur lesandann með sér í gegnum söguna, sem er sannfærandi innsýn í hugsanir og líf 15 ára unglings um aldamótin.

María Bjarkadóttir, desember 2014