Beint í efni

Gegnum glervegginn

Gegnum glervegginn
Höfundur
Ragnheiður Gestsdóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Ein athyglisverðasta barnabókin í ár er Gegnum glervegginn eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Bókin segir frá hinni ungu prinsessu Áróru sem er þrettán ára og hefur eins lengi og hún man eftir sér verið lokuð inni í hvítu glerhvolfi. Þar inni eru aðstæður eins og best verður á kosið fyrir unga prinsessu og hún hefur allt sem hún þarf til að líða vel. Einu tengsl hennar við heiminn fyrir utan hvolfið eru skjáir sem síga niður af og til með ópersónulegum skilaboðum frá foreldrum hennar og kennurum. Það eina sem hana skortir í hvolfinu er félagskapur annars fólks en hún hefur ekki hitt aðra manneskju svo árum skiptir. Áróra veit ekkert um það sem gerist utan glerveggsins, þekkir bara þá mynd sem henni er sýnd á skjáunum af góðu fólki og fallegu umhverfi. Þetta breytist allt á svipstundu þegar hún finnur einn morguninn dreng í hvolfinu sem er á svipuðum aldri og hún sjálf, drengurinn er illa slasaður og Áróra ákveður að hjálpa honum. Hann reynist heita Rökkvi og er sonur konunnar sem þrífur og fyllir æa matinní hvolfinu á meðan Áróra sefur.

Eftir að hafa áttað sig á því hvað hún þráir samvistir við annað fólk er ekki aftur snúið og nótt eina þegar Rökkvi kemur í stað móður sinnar flýr Áróra á eftir honum út úr hvolfinu. Rökkvi á engra annarra kosta völ en að hjálpa henni því hann veit að hún er bjargarlaus og kann ekki að fóta sig utan hvolfins. Hann fer með hana heim þar sem Áróra sér í fyrsta sinn fólk sem býr við aðrar og töluvert verri aðstæður en hún sjálf. Flótti Áróru stofnar fjölskyldu Rökkva í mikla hættu og þau flýja á leynilegan felustað fólks sem á líka í útistöðum við verði konungsins. Þegar þangað er komið hefur Áróra áttað sig á því að hún verður að gera eitthvað til að reyna að hjálpa þessu fólki. Konungurinn og drottningin sem ríkja í landinu eru jú foreldrar hennar og hún verður að segja þeim frá því hvað fólkið hefur það slæmt. Spurningin er bara hvernig það er hægt því foreldrar hennar búa inni í borginni sem er afgirt með þykkum vegg og varin af vopnuðum vörðum. Þangað er engum hleypt inn.

Þegar Áróra er laus úr prísundinni áttar hún sig á ýmsu sem hún hefur aldrei leitt hugann að áður. Hún sér í fyrsta sinn óréttlæti og misskiptingu, fátæk börn, hungur og eymd. Hún fær að heyra af allsnægtunum í borginni og hvernig þeim sem ekki búa þar er haldið úti með valdi. Hún sér samt líka í fyrsta sinn hamingju og væntumþykju, samveru og öryggið sem felst í því að eiga einhvern að. Hún skammast sín fyrir að hafa ekki leitt hugann að þessu áður og hún skammast sín fyrir að foreldrar hennar eigi þátt í að viðhalda þessu ástandi.

Gegnum glerveginn er fantasía sem gerist á óræðum stað og óræðum tíma. Þetta framandi umhverfi og sakleysi Áróru sem sér allt í fyrsta sinn er notað til að deila á ýmislegt í raunheimum og varpa ljósi á hluti sem lesandinn hefur kannski ekki leitt hugann að eða ekki litið á í þessu ljósi áður. Í landinu þar sem sagan gerist hefur eitthvað orðið til þess að misskipting milli ríkra og fátækra er mjög mikil, sumir lifa í velmegun á meðan aðrir eiga varla í sig og á. Þó er ljóst að heimurinn hefur ekki alltaf verið eins og hann er orðinn. Inni í borginni er fólk ríkt, tækni er notuð og velmegun fólksins byggir á aðgangi að orku. Utan borgarinnar eru aðeins ónýtar leifar af þessari tækni og aðstæður fólks þar minna helst á miðaldir. Fólkið í borginni þykist ekki vita af því sem gerist utan hennar og enginn af þeim fyrir utan þorir að segja neitt því óttinn er allsráðandi. Lestur er á miklu undanhaldi en ólæsi er einmitt mjög áhrifarík leið til að halda fólki í skefjum, því eins og allir vita er lestur lykilinn að þekkingu og þekking er lykilinn að völdum, bæði yfir sjálfum sér og yfir öðrum.

Skoða má Gegnum glervegginn frá ýmsum sjónarhornum og margt í sögunni sem er vert að gaumgæfa. Höfundur deilir meðal annars á misskiptingu auðs og auðlinda og hvernig geti farið ef ekki er hugað að náttúrunni. Ádeilan er reyndar á köflum kannski svolítið yfirþyrmandi en það er ekkert sem skemmir heildina sem er samt sem áður áhugaverð og heillandi og tekst vel að vekja lesandann til umhugsunar.

María Bjarkadóttir, desember 2011