Beint í efni

Furðulegt háttalag hunds um nótt

Furðulegt háttalag hunds um nótt
Höfundur
Mark Haddon
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Ég las bók Marks Haddon fyrst í sumarfríinu og einn daginn tók ég eftir því að á torginu í spænska smábænum voru 7 gamlir menn, 5 voru með húfur, 2 ekki, 4 voru með staf, 3 sátu á bekk, 2 hölluðu sér upp að kirkjuveggnum. Fyrir ofan sveimuðu svölurnar og gáfu ungunum í hreiðrunum undir þakskeggi hringlaga kirkjunnar, en þær voru alltof margar, þær flugu alltof hratt, það var enginn séns að telja þær eða hreiðrin sem kúrðu ótal mörg, gömul og ný, þétt upp við þakið, eins og þau kæmu í veg fyrir að það hrindi. Ég fékk léttar hjartsláttartruflanir og áhyggjurnar fóru að hellast yfir mig, en þá kom þjónninn með ólífur og bjór og ég datt út úr hugarheimi Kristófers Boone.

Kristófer er aðalpersónan og sögumaður í skáldsögu Marks Haddon, Furðulegt háttalegt hunds um nótt, sem kom fyrst út í Bretlandi 2003 og hlaut gífurlega góðar viðtökur og fjölmörg verðlaun. Umheimurinn; umhverfið, atburðir og annað fólk eru ráðgáta sem Kristófer þarf að leysa á hverjum degi uppá nýtt. Þess vegna eru glæpasögur form sem hann hrífst af, glæpasögur byggjast á gátu og gátur eru hans ær og kýr. Sumt er auðvelt, gagnsætt og auðleyst – annað er mun flóknara, samt helst ekki óskiljanlegt því allt á að vera hægt að flokka, telja og reikna út. Niðurstöður Kristófers eru svo í mismiklu samræmi við raunheiminn. Dularfullur atburður verður til þess að Kristófer ákveður að skrifa sjálfur glæpasögu, hann þarf nefnilega að komast að því hver myrti hund nágrannans. Sagan leiðir hann á ókunnar slóðir, mishættulegar, sem reyna á hann sem aldrei fyrr. Kristófer þarf að taka á því að heimur hans fer úr skorðum, þarf að ráða við atburði sem stjórnast af því sem hann á lang erfiðast með að skilja, tilfinningum fólks.

Mark Haddon nýtir sér til hins ítrasta möguleika skáldsögunnar á að setja lesandann inn í framandi hugarheim. Frásögn Kristófers býður ekki upp á neina undankomu, er algjörlega háð hans skilningi á hlutunum – í klassískri framandgervingu á hversdagsleikanum. Lesandinn pússlar síðan saman sjálfur ''raunverulegu'' atburðarásinni og útkoman er gífurlega skemmtileg hugleiðing um fjölskyldusambönd og misvelheppnaðar tilraunir fólks til að ráða fram úr tilfinningum sínum. Bókin er nefnilega skemmtileg þótt Kristófer vari okkur við og segi "þetta verður ekki fyndin bók" (16), því hann skilur ekki brandara. Hann skilur hins vegar stærfræðiþrautir og í bókinni er aragrúi slíkra, auk alls konar taflna og upptalninga af ýmsum gerðum. Hann veltir stöðugt fyrir sér erkingu tungumálsins, einstakra orða, og ekki síst myndhverfinga sem honum finnst óþægilegar, en segir þó að nafnið sitt sé ein slík og þýði að bera Krist og var nafnið sem heilagur Kristófer fékk af því að hann hélt á Kristi yfir á: "Þessi frásögn fær mann til að velta því fyrir sér hvað hann hafi heitið áður en hann bar Krist yfir ána" (26). Honum er ekki eins illa við viðlíkingar og segir um lögreglumann sem var með svo loðnar nasir að það væri: "Eins og tvær örlitlar mýs hefðu falið sig í nösunum á honum" (28). Allt þetta kemst mjög vel til skila í fínni þýðingu Kristínar R. Thorlacius.

List Haddons í þessu verki felst m.a. í því að smita lesandann smám saman af einstrengingslegri sýn Kristófers, sérviskum hans, nákvæmni og þörf fyrir að koma skikk á óreglulega tilveruna. Þetta gerir líka enn áþreifanlegri örvæntingu hans og hræðslu þegar heimurinn verður óviðráðanlegur, hvort sem það er í ofáreiti stórborgarinnar eða andspænis flóknum tilfinningum nákominna. Og það hafa 3 menn og 1 kona, 4 bláir bílar og 2 silfurlitir, að ógleymdum 1 brúnum hundi (lifandi), farið framhjá glugganum mínum síðasta klukkutímann.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, október 2004