Beint í efni

Fuglarnir

Fuglarnir
Höfundur
Tarjei Vesaas
Útgefandi
Forlagið
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Jólabókaflóðið hefur sína kosti og galla. Einn gallanna er hversu stuttur líftími hverrar nýútkominnar bókar er, í raun aðeins þessar örfáu vikur þegar að hundruð bóka keppast um að komast í gegnum nálaraugað; innpakkaðar undir jólatré landsmanna. Eftir það eru þær flestum gleymdar nema grúskurum á bókamörkuðum í Perlunni enda líður oft ekki langur tími þangað til að meira að segja bestu bókabúðir pakka öllu eldra en ársgömlu ofan í kassa og láta rykfalla í geymslu.

Klassískur kiljuklúbbur Forlagsins veitir kannski ekki mikið mótvægi við þessari tilhneigingu en þó ber að þakka það framtak að á hans vegum séu gefnar út fáein af sígildum verkum bókmenntasögunnar, bæði íslensk og erlend, í hentugu kiljuformi. Margar þeirra bóka sem komið hafa út í klúbbnum eru tímabærar endurútgáfur en inn á milli hafa leynst frumútgáfur á íslenskum þýðingum erlendra stórvirkja.

Fuglarnir eftir Tarjei Vesaas er ein slíkra, kom út fyrr á þessu ári í góðri þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar úr norsku. Það er best að segja hlutina hreint út strax: Fuglarnir eru sannkallaðar heimsbókmenntir, sannarlega „erlend klassík“ (svo vitnað sé í heiti undirflokks erlendu bókmenntanna innan kiljuklúbbsins).

Fuglarnir segja sögu systkinanna Mattis og Hege, fólks í kringum fertugt, sem búa ein í húsi genginna foreldra sinna við stöðuvatn úti á landi um miðbik síðustu aldar. Mattis er einföld sál og Hege neyðist til að sjá fyrir þeim báðum með prjónaskap enda hafa flestallar tilraunir Mattis til þess að útvega sér vinnu á nágrannabæjunum runnið út í sandinn. Samband þeirra minnir um margt á þá Lenna og Georg í Músum og mönnum Steinbecks og raunar einnig harðneskjulegt umhverfið og einstaðan gagnvart umheiminum (fyrir utan að þetta er jafn vel skrifað og háklassík Steinbecks).

Mattis á mjög erfitt með að fóta sig í veröld allra hinna sem betur pluma sig en vandræðin ná nýjum hæðum þegar að ný manneskja kemur inn í líf systkinanna. Fram að því hefur hann alla vega getað treyst á systur sína sem stoð og styttu en allt í einu virðist sem jafnvel þau krosstré séu að bregðast.

Fuglarnir eru með afbrigðum vel skrifuð saga. Fimin, stílsnilldin, innsýn í sálarlíf aðþrengda persónanna og öll framvindan er með afbrigðum og ekki er að undra að verkið hafi oftar en einu sinni hafnað á lista yfir helstu bókmenntaverk Norðmanna á liðinni öld.

Í raun er ekki meira um Fuglana að segja. Þetta er einfaldlega meistaraverk, verðugur fulltrúi meðal háklassískra heimsbókmennta bókaklúbbs Forlagsins. Hjalti Rögnvaldsson á þakkir skildar fyrir að færa íslenskum lesendum þennan norska hornstein. Meira af svo nýþýddu og góðu frá klúbbnum klassíska.

Sigurður Ólafsson, desember 2009