Beint í efni

Flugan sem stöðvaði stríðið

Flugan sem stöðvaði stríðið
Höfundur
Bryndís Björgvinsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Stundum er maður orðinn svo samdauna umheiminum að maður hættir að taka eftir honum. Stundum eru litlu hlutirnir orðnir svo ósýnilegir að maður man ekki lengur eftir því að þeir séu til og stundum þarf ekki nema litla húsflugu til að breyta öllu saman.  

Hver pælir svo sem í húsflugu? 

Íslensku barnabókaverðlaunin í ár hlaut Bryndís Björgvinsdóttir fyrir bókina Flugan sem stöðvaði stríðið og er hún vel að þeim verðlaunum komin. Bókin er ekki löng, rétt rúmar 100 blaðsíður en hefði alveg mátt vera lengri því sagan er bæði skemmtileg og grípandi svo ekki sé talað um frumleg.

Bókin fjallar um húsflugurnar Hermann Súkker, Kolkex og Fluguna sem búa saman í sátt og samlyndi við fólkið á heimilinu þar sem þær halda til. Eða það halda þær í það minnsta. Annað kemur hins vegar á daginn þegar flugurnar komast að því að mannfólkið á heimilinu hefur pantað ógurlegan rafmagnsflugnaspaða til að losa sig við þær og aðrar flugur sem kunna að villast inn um gluggann um sumarið. Þar sem þetta eru nokkuð upplýstar húsflugur ákveða þær að bíða ekki eftir því að hryllingstækið komi á heimilið heldur taka til sinna ráða. Þær hafa séð í sjónvarpinu að í fjarlægu landi eru til munkar sem eru svo friðsamlegir og kærleiksríkir að þeir gera ekki flugu mein. Þangað ákveða flugurnar að fara og þær leggja upp í langferð, fljúga um borð í flugvél og með henni til þessa fjarlæga lands þar sem allt er framandi og nýtt fyrir þeim. Húsflugur eru hins vegar alls staðar samar við sig og þær kynnast fljótlega öðrum flugum sem segja þeim frá lífinu á þessum nýja stað. Í ljós kemur að ekki er allt með felldu meðal mannanna hér frekar en heima, því í þessu landi geysar stríð, að flugnanna mati alveg gjörsamlega óskiljanlegt og tilgangslaust stríð. Þar sem aðgerðir mannanna hafa verulega slæm áhrif á líf allra í bænum, bæði manna og flugna, finna þær að þær verða að gera það sem þær geta til að hjálpa nýju vinum sínum og íbúum bæjarins þótt það þýði að þær þurfi að fórna draumnum um friðsamlegt líf. Þær geta ekki til þess hugsað að vinir þeirra séu í hættu og þær sitji aðgerðarlausar. Flugurnar eru ansi hreint ráðagóðar og upp kemur snilldarhugmynd sem gæti breytt öllu.

Sagan er alfarið sögð frá sjónarhorni húsflugnanna og hún er óvenjuleg að því leyti að hún fjallar um persónur sem eru húsflugur, litlar, svartar og suðandi, venjulegar húsflugur sem elska sykur og sósur og eru einhvernveginn alltaf til staðar þó enginn taki eftir þeim. Flugurnar haga sér ekki eins og manneskjur eins og tilfellið er oft í barnabókum þar sem dýr eru aðalpersónur. Flugurnar eru bara flugur. Þær lifa í flugnasamfélögum og eiga samskipti við aðrar flugur um hluti sem flugur hafa áhuga á. Áherslan er á það hversu framandi og furðuleg hegðun mannanna virkar á þessar smáu og friðsamlegu verur. Því þó maður hafi kannski aldrei velt því fyrir sér þá er varla til friðsamlegri vera en húsfluga. Lýsingarnar á lífi flugnanna, samskiptum þeirra og hugsunum eru einstaklega vel gerðar og skemmtilegar. Það sem mannfólk hugsar kannski sjaldan um verður ótrúlega spennandi og fallegt séð með augum flugu og eitthvað svo ómerkilegt sem sósublettur á borðdúk verður óendanlega áhugaverður.

Það getur verið hreinn unaður að lesa vel skrifaðar barnabækur hvort sem maður er fullorðinn eða barn og því ber að fagna að til séu bækur sem bæði fullorðnir og börn geta lesið, tekið til sín og lagt merkingu í. Lesandinn fær nýja sýn á heiminn í gegnum augu húsflugunnar og nýja sýn á húsflugur í gegnum frásögn höfundarins. Og það er gott að líta á umhverfi sitt frá sjónarhorni sem er framandi og óvenjulegt, því þá sér maður það sem maður er hættur að sjá. Í Flugunni sem stöðvaði stríðið er brugðið upp sérlega lifandi og forvitnilegri mynd af bæði hversdagslegum atburðum og atburðum sem eru framandi okkur hér á norðurhveli. Lesandinn sér hvað mannfólkið hagar sér stundum furðulega og hvað samstaða, vinátta og smáatriðin í lífinu geta verið falleg og forvitnileg.

María Bjarkadóttir, nóvember 2011