Beint í efni

Flórída

Flórída
Höfundur
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Umbreytingar og árátta birtast í ýmsum myndum í ljóðabók Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Flórída. Bókin er einskonar saga, jafnvel dagbók, en í ljóðabókinni Daloon dagar (2011) notaði Bergþóra dagbókarformið til að skapa (óþægilega) nánd. Daloon dagar lofaði góðu og það er alveg óhætt – alveg óhætt! – að segja að Flórída hafi uppfyllt það loforð, en bókin er hreint afbragð. Rödd ljóðmælanda er nærgöngul og krefst samsömunar, en beiting fyrstu persónu í einskonar samtali eða yfirheyrslu er ákaflega vel heppnuð og hrollvekjandi. Þessi nánd er svo í hæsta lagi óþægileg, eins og áður segir, því heimsmyndin sem birtist er myrk og iðandi.

Ljóðin í Flórída mynda einskonar sögu, af kynnum ljóðmælanda af fyrrum pönk-rokk-stjörnunni Flórída. Svo virðist sem eitthvað hafi komið fyrir Flórídu, því bráðlega kemur í ljós að ljóðmælandi er í einhverskonar yfirheyrslu hjá manni sem nefnist Herr Fleischer. Hún hefur greinilega mikla andúð á honum og þannig nær hún að fá lesandann til liðs við sig, því hver vill vera undirsettur skilningslausu yfirvaldi?

Ljóðmælandi er búsett í Berlín, en þangað fer hún með stóra drauma sem fljótlega reynast ekki raunhæfir:

Þegar ég lenti á Schönfeld-flugvelli var ég tuttugu og sex ára með ekkert í farteskinu nema eina tösku og hugmyndir um andardrátt Hegels og Kants í mínum eigin.

Sólarhring síðar var ég komin inn á svartmálað klósett að draga ofan í mig eitthvað sem var efalaust kartöflumjöl. Það liðu nokkrir mánuðir áður en ég var farin að borða upp úr snakkpokum sem ég fann í ruslinu.

Kannski er það ljóðmælandinn sjálfur sem er ekki sérlega raunhæf – allavega er hún ekki mjög áreiðanlegur sögumaður og veruleikinn er stöðugt á flakki í þessari ‚sögu‘. Hún virðist hafa átt nokkuð skrautlega ævi fram að Berlínarferðinni og í kaflanum „Heima“ lýsir hún fóstureyðingu á unglingsárum þar sem læknirinn segir henni „að loka augunum og hafa engar áhyggjur elskan, ég þyrfti bara að telja aftur á bak frá / tíu“. Í kjölfarið kemur syrpa af svipmyndum sem telja niður að einum og þar á eftir lýsingin á komunni til Berlínar.

Fyrir utan átakamikla sögu sína er Berlín þekkt sem borg listamanna, en þangað hafa fjölmargir tónlistarmenn sótt innblástur, allt frá Bowie til Nick Cave. Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar var borgin klofin í tvennt og vesturhlutinn einangraður, einskonar eyja í miðju Austur-Þýskalandi, sem þá var á valdi kommúnista. Þetta gerði borgina enn meira spennandi og í verkum fyrrnefnda listamanna birtist hún sem einskonar jaðar- eða neðanjarðarheimur, iðandi af andófi og eiturlyfjum. Bergþóra sækir til þessarar ímyndar í ljóðum sínum og segja má að Flórída sé einskonar birtingarmynd þeirrar borgar sem var, aldraður pönkari sem enn á sín stefnumót:

Þegar Flórída fór í loðfeldinn sinn vissi ég að hún væri búin að mæla sér mót við einhvern af Craigslist. Einhvern sem verkjar líka í beinin af einveru. Þráir ekkert heitar en félagsskap dömu eða herra í leikhúsi. Vínglas og fingur í leðurklæddan rass.

Ljóðmælandi hittir Flórídu fyrst í strætisvagni, en þar sest hún við hliðina á sögukonu vorri og segist vera orðin sjötug: „Hárið á henni var svart, litað, hékk í tægjum niður mjóbakið. Hún hafði látið brjóta í sundur á sér andlitið, minnka nefið, breyta vörunum í sílíkongogg. Ég hélt að hún væri kráka í hlébarðakápu“. Flórída vill vingast við ljóðmælanda en fundurinn hefur þau áhrif á hana að hún lætur sig falla „á götuna, ímyndaði mér að regnið væri með langa loðna fingur sem fitluðu við hárið á mér“ og svo leysist hún upp, „frumu fyrir frumu liðaðist ég í sundur í myrkrinu. Leystist upp í kvikasilfur sem ekki má snerta.“ Seinna hittast þær aftur og ljóðmælandi býður Flórídu að búa hjá sér, þær verða vinkonur.

En þó Flórída virðist allundarleg þá kemur í ljós að það er ljóðmælandi sem hefur lítil tök á veruleikanum:

Ég sé hana enn. Hún lepur kaffið úr eggjabakka. Krafsar í sundur hársvörðinn með lökkuðum nöglum. Húðflögur og svartir hárflókar falla í haug við leðurklædda fætur hennar.

Ef þú bítur í blöð hennar fyllist munnur þinn af maurum og ösku.

Ef þú reynir að setja eitthvað upp í mig breytist það í skurn.

Á þessu ljóði hefst bókin (eftir stuttan inngang um Herr Fleischer) og þar er tónninn settur. Flórída minnir á fugl og seinna kemur í ljós að ljóðmælandi borðar úr eggjabökkum sem hún sankar að sér og hleður upp, í bland við allskonar drasl. Fuglamyndmálið er því áberandi, en ekki má heldur gleyma því að fuglar eiga ekki einkarétt á eggjum og skordýr ganga ljósum logum um bókina og varir ljóðmælanda. Eggin eru bæði tákn frjósemi og æskudýrkunar (ekki gleyma fóstureyðingunni fyrrnefndu) og að sjálfsögðu umbreytinga. Flórída er sjálf umbreytt en ljóðmælandi þráir líka umbreytingar: „Líkami minn er gagnslaus! Húð er gagnslaus! Vissuð þér að það tekur eina plastflösku um 450 ár að leysast upp og breytast í jarðveg?“ Samhliða söfnunaráráttunni birtist fóbía gagnvart líkamanum og þrá eftir að umbreytast í plast. Nafn Herr Fleischers verður því afar táknrænt, en ‚Fleisch‘ er þýska orðið yfir kjöt.

Þræðirnir í bók Bergþóru eru því fjölmargir og hún heldur vel utanum þá alla. Myndmálið fléttast í þéttan vef sem er bæði heillandi og óhugnanlegur og flakkið á milli sviða er ört og kvikt. Á stundum er spilað á súrríalískar stemningar en þó er helsta einkenni bókarinnar einskonar ævintýraleg umbreyting alls hins efnislega, hvort sem það er líkaminn eða eggjaskurnin:

Ég vildi að ég gæti skipt um efni. Að vöðvar og sinar gætu orðið að plasti og trefjum. Að það væri ég sem væri eitrið í kviði fljótandi, gljáeygra fiska.

Helsta jarðtengingin er borgin sjálf, en ljóðmælandi gefur samviskusamlega upp götuheiti og númer strætisvagna sem myndar öflugt mótvægi við upplausnina. Þannig skapast áhrifamikið jafnvægi óreiðu og óráðs sem haldið er til haga í öguðu myndmáli, og hins steinsteypta kortlagða borgarlandslags; borgar sem er þekkt fyrir að hafa gengið í gegnum fádæma breytingar.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2017