Beint í efni

Flautuleikur álengdar. Ljóðaþýðingar

Flautuleikur álengdar. Ljóðaþýðingar
Höfundur
Ýmsir höfundar
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ljóðasafnið Flautuleikur álengdar markar aldarfjórðungs rithöfundarafmæli þýðandans Gyrðis Elíassonar, en árið 1983 sendi hann frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina Svarthvít axlabönd. Á þessum árum hefur Gyrðir markað varanleg spor í íslenskt bókmenntalandslag og sent frá sér tugi bóka, eigin verk og þýðingar, en þýðingastarf er mikilvægur hluti af höfundarverki Gyrðis. Þær bækur sem hann þýðir eru oft eftir áhrifavalda hans og höfunda sem standa honum nærri á einhvern hátt, og svo er einnig um Flautuleikinn, það er greinilegt að þessir flautuhljómar eiga ýmislegt skylt með tónum Gyrðis sjálfs. Þrátt fyrir að ljóðin og ljóðskáldin séu ólík má finna í bókinni ýmsa þræði, dauðann, forgengileikann, sorgina og svo hið guðlega. Þetta eru stór viðfangsefni, en líkt og í ljóðum Gyrðist birta mörg þessara ljóða hið stórfenglega í hinu hversdagslega. Dæmi um þetta er í öðru ljóði bókarinnar, “Rúðan kalda” eftir bandaríska skáldið Wendell Berry. Þar segir að “gagnsæ, köld rúða” standi á “milli heims hinna lifandi / og veraldar dauðans”:

sá sem rýnir of mikið gegnum hana kemst ekki hjá því að setja á hana móðu með andardrætti sínum, nema hann haldi of lengi niðri í sér andanum.

Skáldin eru tuttugu og átta talsins, tuttugu og sex karlar og tvær konur, flest frá Bandaríkjunum, en nokkur frá Kanada, Írlandi, Skotlandi og Wales, þrjú eru utan enskumælandi landa, frá Tyrklandi, Ítalíu og (fyrrum) Tékkóslóvakíu. Það kemur ekki fram úr hvaða máli ljóð þeirra eru þýdd, sem mér finnst alltaf bagalegt. Flestir höfunda eru fæddir á fyrri hluta síðustu aldar, en þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að ljóðin virki gamaldags, með einstaka undantekningum. Þvert á móti virka þau flest næstum tímalaus, en þar kemur líka til fyrrnefnt yfirbragð sem minnir á verk þýðandans og býr til ákveðinn ‘viðtökuhjúp’ utanum þau. Sérlega skemmtilegt dæmi um þetta tímaleysi er ljóð Skotans Norman MacCraig (1910-1996), “Landakort”. Þar segir ljóðmælandi það “dálítið skelfilegt” að skipuleggja ferðalag:

allar þessar hæðarlínur: þessar bláu bugður sem tákna árnar, lítill depill sem reynist vera borg.

Ef maður gæti bara gleypt landakortið - að meðtöldum verum sem sjást ekki á því og fjarveru morgundagsins og skúrirnar í grennd - og allan tímann setið, virtur landfræðingur, í sínum vanalega stól kveikt sér í enn einni sígarettu og áætlað slíkar máltíðir, slíka leiðangra.

Hinn mikli fjöldi höfunda og ljóða gerir það að verkum að bókin verður óhjákvæmilega nokkuð ójöfn og þrátt fyrir að finna megi stef og þræði þá er ekki nein ákveðin heildarmynd yfir Flautuleiknum. Kannski hefði að ósekju mátt skera aðeins niður, en á móti kemur að það er gaman að fá að líta inn um svona marga glugga skálda sem gera má ráð fyrir að fæstir lesendur þekki að ráði - eða yfirleitt, og í því felst gildi ljóðasafnsins.

Helsti ókosturinn liggur hinsvegar í hinu ójafna kynjahlutfalli, en það er hálf hjákátlegt að í ljóðasafni tuttugu og átta skálda sé aðeins að finna tvær skáldkonur. Þær heita báðar Anna, Annie Dillard er bandarísk og Anne Carson er kanadísk, ljóð beggja skera sig nokkuð úr hinum ljóðunum. Anne Carson fjallar um guð á kómískan hátt eins og í ljóðinu “Í Guðs nafni”, en þar hugsar ljóðmælandi um forsetningar og veltir fyrir sér setningunni “Því með manninum kom Dauðinn.” Hún undrast að “maðurinn sé:

boðberi Dauðans. Kannski það þýði

að maðurinn hafi staðið við vegbrún og Dauðinn hafi átt leið hjá. Einu sinni átti ég hund

sem vildi elta hvern sem var. Kannski náðu þeir saman í upphafi, smátt og smátt, með því að hlusta hvor á annan.

Eins og sjá má af þeim þremur dæmum sem hér eru tekin einkennast mörg ljóðin af hárfínu jafnvægi milli kímni og dauðans alvöru, sem (án þess að ég geti dæmt um frumtextann) þýðandi fangar fullkomlega. Því get ég ekki annað en undrast það að innanum sé að finna ljóð eins og “Söng kúrekans” eftir Bandaríkjamanninn Ted Berrigan (1934-1983) en þar er konuást líkt við morgundöggina, “hún getur allt eins / fallið á / glampandi hrossatað / og rós”. Í bók sem er svo fátæk af kvenskáldum verður svona gamaldags yfirlýsing um ástir kvenna sérlega áberandi, en ljóðið minnir mig mest á ýmis ummæli sem Virginia Woolf leitaði uppi í bókinni Sérherbergi (1929) og dró sundur og saman í háði, en þar tjáðu miklar mannvitsbrekkur sig einmitt um konur.

Ljóðaþýðingar eru orðnar að sjaldséðum fuglum og hljóta iðulega litla athygli. Þær eru þó ákaflega mikilvægt fyrirbæri fyrir bókmenntaflóruna, eins og bókmenntasaga okkar hefur klárlega sýnt framá (þrátt fyrir að í hinni rituðu Bókmenntasögu hafi því ekki verið gerð skil). Af þessum sökum er fjarvera kvenskálda enn bagalegri, í því annars stórgóða framtaki sem Flautuleikur álengdar er. Safn af þessu tagi býður lesanda í ferðalag - álíkt því og að gleypa landakort - um erlenda heima ljóðsins og gefur honum tækifæri til að skoða íslensk ljóð í nýju samhengi, eða bara njóta þess að lesa eitthvað sem er svolítið framandi. Þannig má jafnvel líkja bókinni við safn póstkorta utan úr heimi, eins og þeirra sem lýst er í ljóði Kanadamannsins (og ‘Íslandsvinarins’) Michael Ondaatje, “Útleggingar á póstkortum mínum”:

páfuglinn þýðir reglusemi kengúrurnar sem kljást þýða geðbilun vinin þýðir að ég hafi dottið í lukkupottinn

staðsetning frímerkisins - höfuð einræðisherrans lárétt, eða “lögreglumenn á hestbaki”, þýðir pólitíska hættu

röng dagsetning þýðir að ég sé ekki þar sem ég ætti að vera

þegar ég tala um veðrið á ég við verkefnin

autt póstkort segir að ég sé úti í auðninni

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2008