Beint í efni

Fíasól er flottust

Fíasól er flottust
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fíasól er flottust er fjórða bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um Fíusól, sem nú er orðin níu ára gömul. Sem fyrr býr hún með foreldrum og tveimur eldri systrum og er ákaflega uppátækjasöm. Bækurnar um Fíusól hafa verið sérlega vinsælar meðal barna og ekki að ósekju, því hér er blandað saman næstum fantastískum ævintýrum og hinu ofurhversdagslega, með dágóðum skammti af uppeldisyfirbragði - allt sett fram af hæfilegri alvöru.

Bækurnar um Fíusól eru næstum eins og einskonar smásagnasöfn, með sögum sem tengjast saman í eina heild, en bækurnar skiptast í nokkra kafla sem hver um sig segir frá einu uppátæki. Hér er til dæmis sagt frá skólaverkefni um drauga sem verður til þess að fjölskyldan fer að heimsækja draugasetrið með dramatískum afleiðingum - ekki síst fyrir pabba Fíusólar. Fíasól er mikil útivistarmanneskja og útilegur koma nokkuð við sögu, í einum kaflanum fer hún með afa og ömmu í sumarbústað, en sú ferð endar með ósköpum, og í öðrum kafla langar hana svo mikið að sofa í tjaldi að hún skrúfar rúmið sitt í sundur og tjaldar inni í herberginu sínu. Það innanhúss-útilegu-ævintýri er svo endurtekið þegar þau félagarnir Ingólfur ákveða að nú sé komið sumar og heimta að tjalda úti í garði, en það er enn svo kalt að á endanum flýja þau inn í stofu með kúlutjaldið og sofa þar vært. Og svo koma jólasveinar og sjóræningjar við sögu.

Einn skemmtilegasti kaflinn segir frá tækjalausa deginum sem Fíasól ákveður að halda heilagan, eftir kennslustund um sóun og mengun. Hún ætlar ekki að nota nein tæki þann daginn og fær alla í lið með sér, kennara og samnemendur, vini og foreldra vinanna. Nema sína eigin fjölskyldu – og þá sárnar Fíusól. Kaflinn er skemmtileg útlistun á því hvernig tilveran gengur fyrir sig í lífi níu ára skólastúlku án tækja og tækni: hún þarf að ganga í skólann með básúnuna sína því ekki vill hún ferðast með bíl og svo fer hluti kennslunnar fram í hálfrökkri því það má ekki kveikja ljós. Það má ekki borða heitan mat (en í lagi með kaldan, ísskápurinn er jú líka bara skápur) og sjónvarp og tölvur og allt svoleiðis er bannað líka. Hér er á ferðinni nokkuð áhugaverð hugvekja um hlutverk tækja og tækni í lífi okkar allra, meira að segja níu ára barna.

Þessi kafli er líka sá kafli sem dregur hvað mest fram þá klofningu sem er að myndast í sögunum af Fíusól. Hún nefnilega eldist með hverri bók en frásögnin gerir það ekki endilega. Þannig virkar margt í þessari bók af níu ára Fíusól dálítið svipað og það sem komið hefur fyrir í bókunum af sex ára Fíusól, og ég saknaði þess að fá ekki að hitta fyrir dálítið eldri stelpu – hún hefur nefnilega virkað svo skemmtilega spök í fyrri bókum. En þetta er auðvitað vandamál allra framhaldsbóka um börn sem eldast - bækurnar þurfa að höfða jafnt til yngri lesenda, þeirra sem hitta Fíusól fyrir sex ára og vilja endilega lesa bókina um hana níu ára líka, og svo þeirra sem hafa elst með Fíusól.

Þetta breytir því þó ekki að þessi nýja bók um Fíusól er bráðskemmtileg, eins og fyrri bækurnar, og enn ber að ítreka mikilvægi hins myndræna búnings sem Halldór Baldursson færir persónur og atburði sögunnar í. Myndir hans eru hæfilega óreiðukenndar eins og söguhetjan sjálf, fullar af þeim krafti sem einkennir uppátæki Fíusólar og algerlega órjúfanlegur hluti verksins.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008