Beint í efni

Farangur

Farangur
Höfundur
Ragnheiður Gestsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Ung kona leggur á flótta frá ofbeldisfullum sambýlismanni sínum en óvæntir atburðir flækja málin töluvert fyrir henni og hún neyðist til að hugsa áætlanir sínar algerlega upp á nýtt til að komast þangað sem hún ætlar sér og hefja nýtt líf. Þetta er söguþráðurinn í nýrri spennusögu eftir Ragnheiði Gestsdóttur sem kom út nýlega. Ragnheiður hefur lengst af skrifað bækur fyrir börn og unglinga en Farangur er önnur skáldsagan sem hún sendir frá sér fyrir fullorðna, sú fyrri nefnist Úr myrkrinu og kom út árið 2019. 

Sagan hefst þar sem aðalpersónan Ylfa er stödd á lestarstöð í Þýskalandi snemma morguns. Hún er í fríi ásamt sambýlismanni sínum Sture en hann liggur sofandi á hótelherberginu þeirra og veit ekki að hún er farin. Hún ætlar sér að fara til Danmerkur og svo áfram heim til Íslands og henni liggur á að komast af stað áður en Sture vaknar. Sture og Ylfa hafa verið saman um árabil, þau búa í sveitasælunni á Skáni í Svíþjóð en líf þeirra saman hefur ekki verið neinn dans á rósum. Sture er bæði ofbeldisfullur og drykkfelldur og Ylfa hefur einangrast frá fjölskyldu sinni og vinum á Íslandi sem skilja ekki hvað hún er að gera að hanga áfram í þessu sambandi. Ylfa hefur hins vegar alltaf staðið með Sture og logið til að fela hvernig heimilislíf þeirra er en nú svo komið að hún getur ekki lengur látið eins og ekkert sé, það er kominn tími til að snúa við blaðinu og hefja nýtt líf án hans, í örygginu heima á Íslandi. 

Rétt áður en lestin til Danmerkur leggur af stað rekst Ylfa á konu á almenningsklósetti á brautarstöðinni. Konan lítur afar illa út og reynir örvæntingarfull að fá Ylfu til að taka við gamalli, slitinni íþróttatösku sem hún er með. Ylfa kemst ekki hjá því að taka töskuna en þegar hún ætlar að elta konuna til að athuga hvað sé í gangi verður hún vitni að því þegar konan hendir sér skyndilega fyrir lest. Ylfu er mjög brugðið en dregur þá ályktun að eitthvað mikilvægt hljóti að leynast í töskunni, eitthvað sem má ekki komast í rangar hendur. Þrátt fyrir öngþveitið sem skapast á brautarstöðinni tekst Ylfu að komast í lestina sem á að færa hana í átt að frelsinu, en þá fyrst hefur hún sig í að skoða innihald töskunnar. Það sem hún finnur kemur henni algerlega í opna skjöldu, því í henni leynist, ásamt ýmsu öðru, nýfætt, lifandi stúlkubarn. Ylfa er bæði peningalaus og á flótta og líklega væri best að koma barninu í hendur yfirvalda en hún finnur strax sterka tengingu við litlu stúlkuna og áður en hún nær almennilega áttum er hún farin að skipuleggja hvernig hún geti komið henni með sér til Íslands. Það er hins vegar ekkert auðvelt að koma nýfæddu barni milli landa án þess að vekja grunsemdir, sérstaklega skilríkjalausu barni sem er hvergi til skráð. Vandamál Ylfu eru þó bara rétt að byrja, hún þarf líka að finna út úr því hvernig hún ætli að komast upp með að halda barninu þegar heim er komið og sannfæra bæði fjölskylduna á Íslandi og alla aðra um að hún eigi það í raun. Hún veit heldur ekki hverju Sture tekur upp á þegar hann áttar sig á að hún er farin og hvort einhver hafi séð til hennar tala við móður barnsins á brautarstöðinni og leiti nú að henni. 

Atburðarásin fer hratt af stað og sagan heldur sama takti út í gegn. Andrúmsloftið er spennuþrungið jafnvel þegar Ylfa er í felum á milli þess sem hún færir sig nær áfangastað sínum. Sagan gerist að mestu yfir nokkurra vikna tímabil og frásögninni er skipt í þrjá hluta, sem fléttast að einhverju leyti saman og skarast í tíma. Í fyrsta hlutanum er sagt frá Ylfu, aðstæðum hennar og flóttanum frá Sture, í þeim næsta er skipt um sjónarhorn og Ásta, nýja kærasta bróður Ylfu er í aðalhlutverki. Ylfa hefur gefið fjölskyldu sinni afar takmarkaðar upplýsingar um aðstæður sínar, þau vita bara að hún er á leiðinni heim en Ásta blandast óvænt í mál hennar í gegnum starf sitt í lögreglunni og hún er ekki sannfærð um að Ylfa sé öll þar sem hún er séð. Í ljós kemur að Ásta hefur sjálf reynslu af því að vera föst í ofbeldissambandi og skilur þar af leiðandi stöðu Ylfu, en hún er einnig sú eina sem er ekki tilbúin til að gleypa við skýringum hennar gagnrýnislaust. Í þriðja kaflanum er sjónarhornið aftur hjá Ylfu, sem telur sig vera sloppna fyrir horn þegar hingað er komið sögu, þó annað eigi eftir að koma í ljós, það eru nefnilega fleiri en Sture sem leita að henni og litlu stúlkunni.

Ylfa er áhugaverð persóna; hún vekur samúð lesandans sem stendur með henni í gegnum flóttann og vonar að allt fari á besta veg hjá henni. Engu að síður er bæði Ylfu sjálfri og lesandanum ljóst að hún er á hálum ís siðferðilega, ekki síður en lagalega, þegar hún ákveður að halda litlu stúlkunni í stað þess að koma henni í hendur yfirvalda. Hún leiðir hugann að því nokkrum sinnum hvort hún sé að breyta rétt en er fljót að bægja frá sér öllum efasemdum. Mörkin milli þess sem er rétt og rangt eru orðin óljós í huga hennar og smám saman sannfærir hún sig um að hún eigi barnið í raun, móðirin hafi gefið henni það og það sé hennar verk að annast það og sjá því fyrir öryggi. Sú aukapersóna sem helst verður áberandi í sögunni er Ásta, sem speglar Ylfu að vissu leyti í gegnum reynsluna sem þær eiga sameiginlega af því að búa með ofbeldisfullum maka. Ýmislegt kemur í ljós um bakgrunn Ástu og fortíð sem litar líf hennar í dag en eftir að miðjukaflanum lýkur hverfur Ásta hins vegar nánast alveg. Hún kemur aðeins lítillega við sögu í síðasta hlutanum þar sem málin eru gerð upp en eftir þá innsýn sem veitt er í líf hennar hefði hún mátt fá aðeins meira pláss í lokakaflanum. 

Farangur er mjög grípandi og spennandi saga, spennan helst í hámarki fram á síðustu blaðsíðu og hræðsla Ylfu við að finnast verður nánast áþreifanleg á köflum. Fléttan er óvenjuleg og áhugaverð, Ylfa er hundelt, en ekki bara af þeim sem hún reiknaði með. Siðferðilegum spurningum er einnig velt upp, svo sem hvort Ylfa hafi verið að bjarga barninu eða ekki og hverjum hafi verið fórnað í staðinn. Þeim er ekki svarað á afgerandi hátt en lesandinn fær sjálfur að gera það upp við samvisku sína hvort Ylfa hafi breytt rétt eða ekki.

María Bjarkadóttir, júní 2021