Beint í efni

Farandskuggar

Farandskuggar
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er margt sem leitar á hugann við lestur stuttrar skáldsögu Úlfars Þormóðssonar, Farandskuggar. Sem gagnrýnandi velti ég fyrir mér formi hinnar stuttu skáldsögu og hvað það getur rúmað mikið og ennfremur get ég ekki annað en sett söguna í samhengi íslenskrar bókmenntaumræðu síðustu ára, en í fyrra var eftir því tekið að tvær sögur úr sveit nutu mikilla vinsælda. Þó er ljóst að sögur úr sveit, sérstaklega þær sem byggja á einhvern hátt á minningum auk þess að vera með sögulegu ívafi hafa alltaf verið vinsælar, nýlegar ævisögulegar sögur Óskars Árna Óskarssonar vitna um það, en einnig má benda á höfundarverk Jóns Kalmanns Stefánssonar og trílógíu Einars Más Guðmundssonar frá því um síðustu aldamót. Vissulega má sjá þessi ummerki tíðafarslýsinga í verki Úlfars, en mér varð einnig hugsað til stuttsögu Guðbergs Bergssonar, Missir, sem fjallar um ellina.

Persónulega varð mér hugsað til ömmu minnar, og síðustu ára hennar, auk þess að geta vel tengt við þetta þema minninga og spurninga sem leita í vaxandi mæli á hugann, ekki síst þegar svörin eru ekki lengur í boði.

Farandskuggar er einnig áhugaverð í ljósi höfundarverks Úlfars, en hann á að baki afar fjölbreyttan feril í bókmenntum. Síðustu árin er hann fyrst og fremst þekktur fyrir sögulegar skáldsögur, meðal annars tvær sem segja frá tyrkjaráninu útfrá óvenjulegum sjónarhóli, en þar er fjallað um þá sem ákváðu að vera áfram í sínum nýju heimkynnum, þrátt fyrir að hafa losað sig undan þrælshöftum. Úlfar hefur einnig skrifað gagnrýnin verk um guð og frímúrarahreyfinguna, auk pólitískra skáldsagna og svo mætti lengi áfram telja.

Það er því ljóst að sem höfundur er Úlfar heilmikill hamfari og þessi nýjasta saga er um margt ólík fyrri verkum hans, þó hún sverji sig einnig í ætt við þau. Í stuttu máli sagt fjallar Farandskuggar um samband fullorðins manns við aldraða móður sína. Hún er haldin elliglöpum og sögumaður skynjar hversu lítið hann veit um þessa konu og veit að nú getur hann ekki leitað lengur til hennar í von um svör. Bókin lýsir svo á látlausan en ákaflega næman hátt heimsóknum sonarins til móðurinnar og hugleiðingum hans tengdum þeim. Þær spanna allt frá ákveðnum vandræðagangi og hiki – en stundum heimsækir hann hana hálfnauðugur og leitar sér að ástæðu til að fara fljótt – til undurfallegra lýsinga á rúnum ristu andliti gömlu konunnar. Og svo er það auðvitað upprifjunin á lífi hennar, og lífi föðurins, en sögumanni er mikið í mun að átta sig á foreldrum sínum, draumum þeirra og þrám. Þetta fléttast saman við hans eigin minningar, án þess þó að þær verði nokkurn tíma fyrirferðarmiklar, en leitin að eigin sjálfsmynd er kunnuglegt þema bóka sem fjalla um sögu og minningar.

Bók spurninganna eftir Pablo Neruda er stef sem gengur í gegnum söguna, en móðirin er oft með hana í höndunum. Titillinn er auðvitað táknrænn og það sama má segja um kommóðuna sem sonurinn bæði óttast og er forvitinn um, en hún verður táknmynd leyndardóma móðurinnar. Meðferð þessara og annara stefja er öguð og markviss og textinn yfirhöfuð afar vel stilltur af og laus við tilfinningasemi þó hann sé nokkuð ljóðrænn. Á sama hátt er sögulegi hlutinn fimlega þættaður, allavega að mestu leyti, en ég verð að játa að undir lokin fannst mér sagnfræðiritahöfundurinn óþarflega ágengur. Það er þó minniháttar galli á fallegri bók um skugga minninga og leit að draumum.

úlfhildur dagsdóttir, október 2011