Beint í efni

Ensku rósirnar og Eplin hans Peabodys

Ensku rósirnar og Eplin hans Peabodys
Höfundar
Madonna,
 Jeffrey Fulvimari
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Ensku rósirnar og Eplin hans Peabodys
Höfundar
Madonna,
 Loren Long
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Það þarf varla að fara mörgum orðum um það að tónlistarkonan Madonna er fræg fyrir allt annað en að vera barnagæla eða sérstök fyrirmynd ungra stúlkna í góðum siðum og móralskri hegðun. Hún hefur þvert á móti verið ein þeirra söngkvenna sem hefur ögrað ímyndinni um "góðu stelpuna" hvað mest og hneykslað marga í gegnum tíðina með framkomu sinni og yfirlýsingum. Mikla athygli vakti þegar hún gaf út bókina Sex árið 1993, sem þótti afar djörf og mörgum fannst ganga út yfir öll mörk velsæmis. Ímynd Madonnu hefur mildast nokkuð með árunum, en þó eru ekki nema örfáir mánuðir síðan hún kom fram á opnunarhátíð NFL – Ameríska fótboltaleikársins þennan veturinn – ásamt Britney Spears þar sem þær stöllur kysstust heitum eða í það minnsta volgum kossi í lok lagsins sem þær sungu saman. Ég gat ekki séð að þetta "framferði" Madonnu vekti sérstaka athygli í þeim fjölmiðlum sem ég las og sá þar sem ég var stödd þar vestra, en fólk var svolítið hissa á Britney og hún sá ástæðu til að taka fram eftir á að þetta hafi nú ekki átt að verða svona langur koss. Allt er þetta auðvitað showbissness og sölumennska en engu að síður má túlka þetta sem svo að þarna hafi "slæma stelpan" og "góða stelpan" stigið saman á stokk ef maður vill orða það sem svo í samræmi við þá ímynd sem þær hafa reynt að skapa sér eða hefur verið sköpuð af þeim, og hin reyndari þá "spillt" þeirri saklausu.

En hvað kemur þetta því við að Madonna hefur nú sent frá sér tvær myndskreyttar bækur fyrir börn? Ekkert svo sem, nema að þar sýnir Madonna á sér allt aðra hlið og svo að það er auðvitað fyrst og fremst frægð hennar sem gerir útgáfu þessara bóka að viðburði og þá ekki síst fyrrnefnd ímynd sem stangast svo gjörsamlega á við mynd smábarnahöfundarins og vekur forvitni á bókunum langt út fyrir raðir þeirra sem láta sig slíkar bækur einhverju varða. Bækurnar, sem komu út með stuttu millibili nú í haust, eru gefnar út samtímis víða um lönd og eru þær fyrstu í röð fimm barnabóka sem Madonna hyggst senda frá sér. Hér á landi koma þær út í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur, fyrst Ensku rósirnar með myndskreytingum eftir Jeffrey Fulvimari og síðan Eplin hans Peabodys með myndum eftir Loren Long. Allur ágóði Madonnu af sölu bókanna rennur í góðgerðarsjóði í þágu barna og hefur hún lýst því yfir að með þessum bókaskrifum vilji hún láta gott af sér leiða og að þetta sé hennar framlag til þess að gera heiminn betri. Aftan við sögurnar eru stutt skilaboð frá Madonnu þar sem hún þakkar meðal annars kabbalakennara sínum fyrir að stinga að sér hugmyndinni að skrifunum. Kabbala er sjálfsræktarstefna og dulspeki sem byggir meðal annars á gyðinglegri trú, en Madonna hefur stundað þessi fræði um nokkurra ára skeið.

Sögurnar eru báðar ákaflega móralskar og boðskapur þeirra augljós, sá að kenna börnum góða siði og rétt hugarfar og er ein skýrt afmörkuð lexía tekin fyrir í hvorri bók. Að þessu leyti eru bækurnar tvær mjög svipaðar, sögurnar eru einfaldar og blátt áfram, en þær eru líka ólíkar að mörgu leyti. Ensku rósirnar eru augljóslega ætlaðar stelpum en Eplin hans Peabodys ætti að geta höfðað til beggja kynja þótt söguhetjurnar þar séu strákar. Madonna hefur fengið ólíka myndskreyta í lið með sér og hafa bækurnar mjög ólíkt yfirbragð. Myndir Fulvimari í Ensku rósunum eru skissukenndar, litríkar og fínlegar og mjög glaðlegar. Bókin er að öllu leyti ákaflega "stelpuleg" í útliti. Litlar fígúrur eða skrautborðar ramma inn margar af síðunum sem minnir dálítið á minningabækur eða jafnvel vinnubækur stelpna. Fulvimari ku fást við tískuteikningar og það skilar sér augljóslega í útliti bókarinnar. Myndir Loren Long í Eplunum hans Peabodys eru allt öðruvísi og er útlit bókarinnar mun klassískara og alvarlegra ef svo má segja. Litirnir eru dimmari og dempaðri og er hver mynd heil og afmörkuð og skýrt aðgreind frá textanum, ólíkt því sem er í fyrrnefndu bókinni. Þetta eru mjög skemmtilegar myndir og minnir stíll þeirra svolítið á myndir Gunnars Karlssonar. Það er greinilegt að mikið hefur verið lagt í útlit þessara bóka og að skýr hugmynd liggur að baki allri útlitshönnun með tilliti til lesendahópsins og þeirra skilaboða sem koma á á framfæri.

Ensku rósirnar fjallar um fjórar stelpur, vinkonur sem hafa allt til alls og svo hina fimmtu sem er mjög mjög falleg og góð en ekki að sama skapi hamingjusöm. Hún er nokkurs konar öskubuska sem sér um öll verk heima fyrir þar sem hún býr móðurlaus með pabba sínum, þótt enginn sé prinsinn og heldur engin vond stjúpa. Bara fjórar stelpur sem eru öfundsjúkar út af fegurð hennar og útiloka hana fyrir bragðið, af vanþekkingu fremur en því að þær séu slæmar stúlkur. Allt fer svo auðvitað vel að lokum eftir að álfkona nokkur hefur tekið til sinna ráða og stúlkurnar læra sína lexíu. Bókin er augljóslega ætluð stelpum eins og áður sagði og höfundurinn talar beint til lesandans og virkar textinn eins og verið sé að spjalla vinalega við barnið og segja því sögu um leið. Málfarið er kumpánlegt og í samtalsformi, höfundurinn leggur lesandanum í munn viðbrögð og spurningar og er þannig mjög nálægur í textanum. Þessi frásagnaraðferð hentar efninu vel, hinn fullorðni söguhöfundur fræðir barnið og er greinilega í mun að láta því finnast að það sé nokkurs virði um leið og siðaboðskapnum er komið á framfæri. Eplin hans Peabodys er jafnvel enn einfaldari saga, en boðskapur hennar er sá að maður skuli ekki dæma annað fólk að vanhugsuðu máli og án þess að hafa kynnt sér alla málavöxtu. Peabody er sögukennari í smábæ og hann skipuleggur líka hafnarboltaleiki Litla liðsins sem strákarnir í bænum skipa. Einn þeirra, Tommy, sér hann næla sér í epli hjá götusala eftir einn leikinn og fyrr en varir er sú saga komin á kreik að Peabody steli eplum hjá ávaxtasalanum. Ekki er þó allt sem sýnist og Tommys býður að lokum heilmikið verkefni við að hreinsa flekkað mannorð hins saklausa Peabodys. Líkt og í fyrri sögunni er frásögnin í vinalegum tilsagnarstíl en það er Peabody sjálfur sem fær það hlutverk að fræða Tommy (og lesandann) um mátt orðanna og hve lítið þarf til að koma af stað illum og skaðlegum sögum um fólk. Aftan við söguna er örstuttur eftirmáli þar sem Madonna segir hver (hinn augljósi) boðskapur sögunnar sé og að kveikja hennar sé nær þrjú hundruð ára frásögn úkraínska kennarans Baal Shem-Tov. Bókin er tileinkuð kennurum um víða veröld.

Ég veit ekki hvaða lesti Madonna hyggst takast á við í næstu þremur bókum, það er af nógu að taka auðvitað og í sjálfu sér athyglisverð hugmynd að gefa út seríu fyrir börn af þessu tagi. Það verður þó að segjast eins og er að það eru mun frekar myndirnar og skemmtilegt og vandað útlit bókanna sem halda þeim uppi en texti Madonnu og ólíklegt að þær vektu einhverja sérstaka athygli nema vegna þess hver höfundurinn er. Boðskapurinn er að sönnu þarfur og hollur, en hann ber sögurnar yfirliði, þær verða einradda og flatar og bjóða ekki upp á mikið fyrir ímyndunarafl barnsins að takast á við. Það er fyrst og fremst áðurnefnd hlýja og sú væntumþykja fyrir barninu (lesandanum) sem skín í gegn sem glæðir textann lífi og þessi tónn skilar sér vel í þýðingum Silju Aðalsteinsdóttur.

Kristín Viðarsdóttir, desember 2003