Beint í efni

Enn er morgunn

Enn er morgunn
Höfundur
Böðvar Guðmundsson
Útgefandi
Óskráð
Staður
Akranes
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Í bókinni Enn er morgunn segir frá svonefndri Knudsens-ætt í Reykjavík og fólki sem henni tengist. Úr nútímanum er litið til baka og ættarsagan skoðuð en fyrst og fremst eru skoðaðir atburðir sem gerast á stríðsárunum og árunum þar á undan. Sögumaður okkar í núinu verður fljótlega hlustandi. Aðrir segja söguna, hann skráir hana. Sagan er að mestu sögð af gamla frænda, Theódóri Knudsen, og ömmu, Evu Kohlhaas Knudsen. Fjölskyldan er eiginlega alþjóðleg, fjölmenningarleg, þótt hún teljist íslensk. Að uppruna eru flestir frá Danmörku komnir en konur innan fjölskyldunnar virðast líka hafa verið gjarnar á að lenda í slagtogi með útlendingum og eignast börn með þeim og þykir svo sem ekki tiltökumál enda virðist Knudsensfólkið hvorki fordómafullt né dómhart. Allir miklir Íslendingar þótt fæstir geti rekið ættir sínar til Jóns Arasonar. Ættrakningar og litaraft skipta ekki neinu.

Ættfaðirinn er hinn velmegandi kaupmaður, Hilmar Knudsen og synirnir embættismenn. Það eru þó ævi og örlög systurinnar, Önnu Láru, sem eru burðarás sögunnar. Hún er kennari við Kvennaskólann eftir námsdvöl í Danmörku þegar hingað til lands rekst tónlistarmaður að nafni Jóhannes Kohlhaas. Sá hefur reyndar verið meðlimur Nasistaflokksins í Þýskalandi og sendur hingað af Himmler sjálfum til að rannsaka hvort ekki sé hægt að finna „frumtón arískra söngva” hér á landi. Hann er kunnugur Theódóri frá námsárum hans í Þýskalandi og hafði hitt Önnu Láru þar eitt augnablik. Þau taka saman og giftast og eignast tvö börn. Jóhannes verður fljótt virkur í tónlistarlífi bæjarins, í og með vegna þess að „Knudsensfamilían sér um sína”, en líka vegna skorts á menntuðum tónlistamönnum til að plaga landslýð með enn meiri „symfóníum” en þegar var orðið. Um það leyti sem Jóhannes kemur til landsins er búið að reka hann úr flokknum þar sem upp hefur komist að hann sé af gyðingaættum. Þegar Bretarnir hertaka Ísland í stríðsbyrjun kemur þó í ljós að upplýsingar um brottvísunina hafa ekki náð til leyniþjónustu hersins. Það er því litið á hann sem Nasista og hann sendur úr landi ásamt fleiri slíkum sem hér voru að þvælast.

Fjölskyldusaga Jóhannesar fær líka allmikið pláss í bók Böðvars og í lokin er gerð grein fyrir örlögum hans eftir að hann er neyddur til að yfirgefa Ísland. Saga hans tengist sögu Knudsens-fjölskyldunnar með hjónabandi hans og Önnu Láru. Honum er vinsamlega tekið af öllum innfæddum og meinleg örlög að hann þurfi að fara. Þótt maður geti vel ímyndað sér harminn sem þetta veldur þá er frásögnin einhvern veginn með þessu jafnaðargeði sem virðist einkenna Knudsens fólkið. Sama er að segja um þann harm sem hlýst af átökum í Þýskalandi undir stríðslok og höfundi tekst að gera svo ljóslifandi fyrir lesendum bókarinnar.

Þannig er það raunar með texta Böðvars. Það er yfir honum þessi ró og æðruleysi sem kemur líka svo vel fram hjá persónunum. Þetta sýnist vera löng saga og vissulega er skautað yfir talsvert langan tíma í henni og margir ættliðir koma við sögu en hún er aldrei langdregin. Þegar upp er staðið finnst manni jafnvel að hún sé í það stysta. Hún er skrifuð á fallegu máli, hnökralaus og frásögnin flýtur áfram svo eðlilega og átakalaust að hrein unun er að lesa bókina.  

Leitt hefur verið getum að því að hér sé um svokallaðan lykilróman að ræða enda nokkuð ljóst að sumar persónur sögunnar eiga sér fyrirmyndir úr lifanda lífi. Auðvelt er að ímynda sér Randver eða „Dósa” sem Ragnar í Smára og eflaust geta einhverjir lesendur skemmt sér við að finna hvort eitthvað sé líkt með persónum bókarinnar og fólki sem eitt sinn lifði hér.  En fyrst og fremst lýtur sagan lögmálum skáldsögunnar, ef á annað borð er hægt að tala um lög og reglur þar að lútandi, og er afskaplega vel heppnuð sem slík.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2009