Beint í efni

Engillinn hennar Grétu

Engillinn hennar Grétu
Höfundur
Marita van der Vyver
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Ég hafði aldrei heyrt minnst á Suður-afríska rithöfundinn Maritu van der Vyver þegar ég fékk skáldsögu hennar Engillinn hennar Grétu í hendurnar. Síðan hef ég komist að því að hún er vel þekkt í heimalandi sínu og téð bók hefur verið gefin út víða um heim og vakið töluverða athygli. Bókin er margverðlaunuð í Suður-Afríku og var leikrit byggt á sögunni sett upp 1997. Móðurmál van der Vyver er afríkanska, tungumál Búa, og hún skrifar á því máli en íslensk þýðing Rannveigar Jónsdóttur sýnist mér gerð eftir ensku útgáfunni. Enda væntanlega ekki um auðugan garð þýðenda að gresja ef þýða ætti verkið beint úr frummálinu. Marita hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga, en Engillinn hennar Grétu, sem kom út 1992, er fyrsta bók hennar fyrir fullorðna. Síðan hefur hún haldið áfram að gefa út verk fyrir börn, unglinga og fullorðna. Marita van der Vyver býr nú í Frakklandi, en skrifar áfram á móðurmáli sínu.

Þegar ég hóf lesturinn vissi ég eiginlega ekkert um hvers konar bók ég var með í höndunum. Forsíðuna prýðir mynd af huggulegum ungum manni með dreyminn svip og geislakórónu, í flegnum hvítum bol sem afhjúpar gróskumikil bringuhár. Ekki alveg hin staðlaða engilsmynd – eða hvað? Gæti verið ávísun á ástarsögu, eða kannski bók sem flokka mætti með svo kölluðum „chick lit“ bókum? En það er svosem óþarfi að reyna að skilgreina hvernig eigi að flokka þessa sögu, enda má líta á hana sem hvoru tveggja og meira til. Þetta er saga barnabókarithöfundarins og ritstjórans Grétu sem er að ganga í gegnum skilnað og er að reyna að ná áttum í tilverunni á ný. Maðurinn hennar hendir henni út eftir sjö ára sambúð (hennar lýsing á atburðum), en á þeim tíma hefur hún einnig misst fóstur tvisvar sinnum og fætt andvana son. Með manninum missir hún einnig tvo stjúpsyni sem hún virðist ekki fá að hafa frekari afskipti af eftir skilnaðinn. Hún gengur til sálfræðings sem hvetur hana til að skrifa um reynslu sína og má líta á söguna, sem sögð er í fyrstu persónu, sem einhvers konar afrakstur þess ferlis.

Þetta hljómar eflaust frekar fráhrindandi og „vandamálasögulegt“, en bókin er þvert á móti mjög lifandi og skemmtileg og full af húmor – ansi kaldhæðnum á köflum. Gréta hefur brennandi áhuga á ævintýrum og sérstaklega á nornum, og einnig hefur hún mikinn áhuga á englum. Hún er líka upptekin af sögu móður- og föðurforeldra sinna. Sögur af þeim í goðsagnakenndum stíl og fjöldi brota úr ævintýrum, bæði heimatilbúnum af Grétu og þekktum ævintýrum, fléttast inní frásögnina og fannst mér þeir kaflar einna áhugaverðaðist og gefa sögunni aukið vægi. Ævintýrin eru mörg á mörkum hins fáránlega og oft mjög skemmtileg og sögurnar af öfunum og ömmunum minna um margt á töfraraunsæi í anda Suður-amerískra bókmennta. Einnig er skotið inn bréfum frá vinkonu Grétu sem býr í Englandi og fjalla þau bæði um hjónabandserfiðleika vinkonunnar og „ástand“ Grétu, auk þess sem við fáum innsýn í líf systra Grétu og vinafólks hennar. Sagan gerist veturinn 1989 – 1990, veturinn sem Mandela er leystur úr haldi (febrúar 1990) og litar pólitískt ástand landsins frásögnina einnig nokkuð þótt það sé ekki í forgrunni. Það má leika sér með þá fléttu að Gréta hafi verið „pólitískur fangi“ í hjónabandi sínu, þótt það hafi þá enginn hneppt hana í það varðhald nema hún sjálf og hún sé ekkert yfir sig sæl að vera laus úr prísundinni.

Gréta er samfélagslega meðvituð og alls ekki varnarlaust fórnarlamb. Hún er mjög upptekin af stöðu kvenna og þá sérstaklega eiginkvenna, en það eru þó fyrst og fremst samskipti kynjanna og hennar eigið skipsbrot sem eru henni ofarlega í huga eftir skilnaðinn. Sjálfsmyndin er brotin, en hún getur engu að síður horft á stöðu sína úr fjarlægð og gert gys að sjálfri sér og sorg sinni. Bókin hefst á því að hún veltir fyrir sér sjálfsmorðsaðferðum kvenna og karla, eftir misheppnað áform hennar um að fyrirkoma sjálfri sér í ofni í anda Sylviu Plath. Ofninn vísar að sjálfsögðu einnig til nöfnu hennar úr ævintýrinu og gömlu nornarinnar sem hún þarf að drepa. Það sem verður Grétu til bjargar er að hún kemur auga á kakkalakka í skítugum ofninum (sem er í íbúð brottfluttu vinkonunnar í Englandi þar sem Gréta býr eftir skilnaðinn) og það sem eftir er kvöldsins eyðir hún í að þrífa ofninn. Þarna strax í upphafi er tónninn gefinn – hrár veruleiki og sársauki sem tekist er á við með kaldhæðnum húmor og vísunum í bókmenntir og ævintýri.

Og svo er það engillinn. Eins og kápumyndin gefur til kynna er hann ekki kynlaus sakleysingi heldur ungt kyntröll sem birtist á dyraþrepi Grétu uppúr þurru og kemur nokkru róti á huga hennar en þó aðallega líkamsstarfsemi. Titillinn bendir til að þarna sé kominn kjarni sögunnar, en það fannst mér hins vegar ekki. Mér fannst þetta raunar veikasti hlekkur hennar, mjög svo fyrirsjáanlegur og svolítið banall. Lýsingin á eiginmanninum fyrrverandi er líka fremur klisjukennd og er erfitt að skilja hvers vegna Gréta saknar hans eins mikið og hún gerir, eins fráhrindandi og kaldur og hann er í lýsingum hennar.

En þrátt fyrir þessa vankanta greip sagan mig og hélt áhuga mínum allt til enda. Eins og áður segir voru það fyrst og fremst ævintýrin og öll hliðarsporin í textanum sem vöktu áhuga minn og þau kættu mig verulega. Sagan verður margræðari og dýpri fyrir vikið og einfaldlega skemmtilegri. Lesandinn getur svo dundað sér við að tengja sviðin tvö, en sá þáttur gengur vel upp í þessari sögu. Þetta er fyrst og fremst saga um tilfinningar og sambönd, ekki aðeins ástarsambönd, heldur einnig vináttu og fjölskyldubönd og samband manneskju við sjálfa sig. Textinn er líflegur og frásagnargleðin mikil, þýðingin er á vönduðu máli og stíllinn hæfir efninu vel. Þetta er sagt án þess að ég hafi gert nokkra tilraun til að bera textann saman við ensku útgáfuna, hvað þá frumtextann.

Að endingu langar mig til að hrósa útliti bókarinnar. Hún er í vönduðu kiljuformi og finnst mér brotið sérlega skemmtilegt og kápuhönnun falleg. Bókaforlagið Salka gefur bókina út og er sama útlit á annarri þýddri skáldsögu sem kom út hjá þeim nú í haust, Glerhjálminum eftir Sylviu Plath. Vonandi þýðir þetta að Salka hyggist gefa út fleiri vandaðar þýðingar á athyglisverðum skáldverkum eftir konur, það er annars sorglega lítið af þeim í flórunni á þessari bókavertíð.

Kristín Viðarsdóttir, desember 2003