Beint í efni

Eitt andartak í einu

Eitt andartak í einu
Höfundur
Harpa Jónsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Helga Birgisdóttir

Eitt andartak í einu er fyrsta skáldsaga Hörpu Jónsdóttur fyrir fullorðna. Áður hefur hún sent frá sér ljóðabókina Húsið og hina sallafínu barnabók Ferðin til Samiraka sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin. Bækurnar þrjár eiga það sameiginlegt að gerast úti á landi, sögusvið fyrri bókanna er Ísafjörður en ónefnt sjávarpláss úti á landi er sögusvið nýju skáldsögunnar og það minnir einna helst á Flateyri.

Aðalpersóna bókarinnar er Lárus. Hann er barnfæddur í þorpinu, býr þar einn, dundar sér við smíðar í frístundum sínum og heimsækir móður sína reglulega á elliheimilið. Sannkallaður sómapiltur þótt hann virðist á stundum of einfeldingslegur og trúgjarn. Hann verður ástfanginn af Sólveigu, kasóléttri stúlku að sunnan sem sest að hjá frænda sínum í þorpinu. Hún er á flótta undan fortíð sinni sem lituð er af ástleysi og eiturlyfjum, og neitar að gefa upp faðerni hins ófædda barns. Lárus og Sólveig verða fljótt ástfangin, afskaplega fljótt raunar, og eru ekki fyrr búin að smella kossi hvort á annað en þau eru farin að búa saman og barnið farið að kalla Lárus pabba.

Samband Lárusar og Sólveigar, gleði þeirra og sorgir, er burðarásinn í sögunni og saga þeirra fléttast svo lífi og störfum annarra þorpsbúa. Þar myndast ákveðin þversögn, Eitt andartak í einu er hæggeng og róleg skáldsaga en á annarri hverri síðu hennar spretta persónurnar upp eins og gorkúlur og gufa svo sumar hverjar jafnharðan upp. Þau eru ekki mörg andartökin sem lesandinn fær til að kynnast þeim. Nokkrar persónur doka þó lengur við en aðrar, t.d. Hafþór frændi Sólveigar og Sissa konan hans, sem ná þó varla að vera meira en staðalmyndir fremur en raunverulegar persónur.

Persónurnar renna margar saman í eitt og erfitt að halda þeim aðskildum þótt saga sumra þeirra virðist vera spennandi — en þær sögur eru ekki sagðar nema í mýflugumynd og oft á svo stuttaralegan hátt að þær eru ótrúverðugar. Má hér nefna sem dæmi söguna af skilnaði bróður Lárusar og konu hans.

Sú saga sem lesandinn vill fræðast um er saga Sólveigar en þar er mikið um hálfkveðnar vísur og það litla sem sagt er um hana og fortíð hennar veitir takmarkaða innsýn í sjálfa persónuna. Það er þó ljóst að hún óttast Reykjavík, fortíð sína og að lenda aftur í sollinum. Lárus veitir henni, þótt tímabundið sé, skjól fyrir þessu öllu saman, ást og umhyggju og á móti er eins og hann rétti úr bakinu, öðlist meira sjálfstraust og „mannist“ af kynnum sínum við Sólu þótt þau fái sviplegan og ansi óskiljanlegan endi.

Sögu Lárusar og Sólveigar mætti gera betri skil, einkum þá hvað varðar persónusköpun Sólveigar, og þetta mætti gera á kostnað annarra persóna sem lesandi nær hvort sem er ekki tengslum við. Bygging sögunnar ruglar lesendur líka í rýminu en hún er byggð upp á mjög mörgum stuttum köflum sem tengjast frásögninni misvel, eða alls ekki. Eitt andartak í einu er ljúf saga um örlög fólks í þorpi en hana þarf að pússa til og skerpa. Frásagnargleðin er vissulega til staðar og hugmyndaflugið en það eitt dugir ekki til.

Helga Birgisdóttir, desember 2011