Beint í efni

Eitraða barnið

Eitraða barnið
Höfundur
Guðmundur S. Brynjólfsson
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Í Eitraða barninu spreytir rithöfundurinn og djákninn Guðmundur S. Brynjólfsson sig við form sagnfræðilegu glæpasögunnar sem hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi undanfarin ár, meðal annars í stríðsárabókum Arnaldar Indriðasonar. Guðmundur bregður sér þó öllu lengra aftur í tímann, nánar tiltekið til aldamótanna 1900 þegar óskasynir þjóðarinnar eru að yfirgefa faðm Kaupmannahafnar og snúa aftur til torfkofanna—fullveldisárið 1918 er rétt handan við hornið. Eins og tíðkast í bókum af þessu tagi eru ýmsar sögulegar persónur dregnar inni í söguþráðinn í misstórum hlutverkum. Best eru þar nýttir kunnir karakterar úr sögu Eyrarbakka og geta þeir sem þekkja sögu plássins efalaust haft gaman af því án þess að slík skemmtun flækist fyrir öðrum lesendum. Þjóðskáldunum Einari Ben og Jóhanni Sigurjónssyni er hinsvegar stungið inn í textann af minni lipurð en Eyrarbakkafólki.

Eitraða barnið fylgist með nýskipuðum og óreyndum sýslumanni Árnesinga, Eyjólfi Jónssyni, sem er nýkominn heim eftir tíu ára dvöl í Kaupmannahöfn. Þar dvaldist hann undir því yfirskyni að stunda nám í lögfræði, en í raun var hann iðnari við knæpurnar og stúlkurnar heldur en lagaskruddurnar. Í byrjun bókar er Eyjólfur sóttur til Kaupmannahafnar af föður sínum, sem kominn er með nóg af ólifnaði sonar síns og búinn að búa því í haginn að hann hljóti sýslumannsembætti í heimasveit þeirra. Á Eyrarbakka bíður hans kvonfang og hans fyrsta embættisverk er að ráða fram úr skelfilegu máli þar sem kornabarni hefur verið drekkt í Ölfusá. Allt bendir til þess að móðir barnsins hafi verið þar að verki en rannsóknargögnin, sem nýlátinn forveri Eyjólfs hefur skilið eftir sig, gefa í skyn að barnið hafi komið undir við nauðgun.

Sú mynd sem dregin er upp í bók Guðmundar af duldum ógnum þessa samfélags á barmi nútímans er töluvert frábrugðin sveitarómantíkinni sem þessi ár eru oft sveipuð í íslenskum skáldskap. Líkt og í bókinni Líkvaka, sem kom út árið 2015, er Guðmundur lítt gefinn fyrir að láta hið ljóta liggja á milli hluta, eins og sést strax í fyrstu köflum bókarinnar þegar ungri stúlku er nauðgað. Það er líkt og hrellandi lýsingunni á glæpnum sé ætlað að stugga við lesendum og fanga athygli þeirra. Gæti sumum þótt nóg um slíkt. Höfundar sem fjalla um kynferðislegt ofbeldi í verkum sínum þurfa að vanda vel til verka svo skáldskapurinn standi undir umfjöllunarefninu. Annars er hætta á að það virki sem auðfengin leið til þess að hafa áhrif á lesendur. Þar er það helst persónusköpunin sem gildir; að fórnarlamb (og jafnvel gerandi líka) stígi fram sem trúverðugar persónur en ekki leiksoppar fyrir verknaðinn sjálfan. Ég er ekki viss um að Guðmundi hafi tekist að nota ofbeldið til að varpa ljósi á valdleysið og þöggunina sem einkennir stöðu kvenna á þessum tímum þótt hann reyni það þegar líður á bókina.

Valdleysi kotkvennanna í bókinni er í fullkomnu ósamræmi við eiginkonu Eyjólfs sýslumanns, Önnu Björnsdóttur, sem hefur beðið þolinmóð eftir eiginmanni sínum þessi tíu ár. Anna er mikill kvenskörungur og hún er orðhvöss við jafnt mann sinn sem aðra. Því er sérkennilegt hvernig hún fyrirgefur Eyjólfi umsvifalaust biðina og líferni hans í Kaupmannahöfn þar sem hann hefur verið henni ótrúr oftar en einu sinni. Lætur hún sér nægja að útskýra að hún elski Eyjólf og því þurfi hún „enga hefnd eða með neinum hætti að jafna einhver met“ (64). Eru þessar skýringar hennar heldur ótrúverðugar. Það er synd þar sem Anna er ein af eftirtektarverðari persónum bókarinnar. Hún áttar sig augsýnilega á breyskleika Eyjólfs, sérstaklega þegar hún þarf sjálf að sækja hann um borð í skipið sem  flytur hann til Íslands þar sem hann hefur nær drukkið sig í hel í káetu sinni. Það dregur töluvert úr trúverðugleika hennar sem persónu að hvergi bóli á neinni reiði yfir því að bíða eiginmanns síns svo lengi á meðan hann er á fylleríi í Kaupmannahöfn né togstreitu yfir þeim örlögum að vera ástfangin af slíkum manni. Eyjólfur er nefnilega merkileg aðalpersóna að því leyti að hann er hálfgerð rola og vart boðlegur spúsu sinni. Þótt hann sé hávaxinn og myndarlegur er hann með takmarkað sjálfstraust og gefinn fyrir sopann sem og aðrar fýsnir. Lesanda er gefið að skilja að lítt væri um hann að segja ef að ekki væri fyrir atorku eiginkonu hans. Anna er driffjöður bókarinnar og stuggar Eyjólfi áfram í rannsókn málsins; segir honum fyrir verkum og skammar hann þegar hann stefnir á rangar slóðir. Þessi skemmtilega dýnamík gerir söguna frábrugðna öðrum glæpasögum en fellur að einhverju leyti um sjálfa sig þar sem ekki er kafað nógu djúpt í þessi sálutengsl þeirra hjóna, svo að samband þeirra virkar í hæsta máta ótrúverðugt.

Að þessu leyti og öðru er Eitraða barnið á margan hátt eilítið flaustursleg. Kaflar eru ærið stuttir og ekki er gefinn nægilegur tími til þess að skapa umhverfi, aðstæður og stemmningu. Í staðinn er vikið beint að kjarna málsins í hvert sinn svo að vísbendingar um lausn gátunnar blasa við í textanum. Sjónarhornið er í þriðju persónu nútíð en framvindan er einkum drifin áfram af samtölum eða einræðum persónanna. Þegar staldrað er við til að draga upp mynd af fólki og vettvangi hljómar það meira eins og sviðslýsingar fyrir leikþátt en það samspil mismunandi radda og sjónarhorna sem þriðja persónan hefur upp á að bjóða. Maður venst þó þessum einræðum og hefur að lokum gaman að þeim, þar sem að raddir persónanna eru sterkar og skemmtilegar. Þar kemur efalaust til reynsla Guðmundar sem leikskálds, en persónusköpun bókarinnar er að miklum hluta unnin með röddum persónanna sjálfra, sem allar hafa sín einkenni. Guðmundur beitir 19. aldar málfari en gætir þó hófs svo að textinn er ætíð auðskiljanlegur og rennur vel í gegn. Það má í raun segja um fleira, þar sem stuttir kaflarnir gera Eitraða barnið að einkar fljótlesinni bók. Ljóst er á enda bókarinnar að Guðmundur hefur gefið færi á framhaldi og gætu lesendur því fengið að kynnast þeim hjónum Eyjólfi og Önnu á Eyrarbakka ennþá betur. Vona ég að úr því verði þar sem nóg er hér af efni og karakterum til þess að vinna úr, að því gefnu að höfundur vandi til verka og gefi sér meiri tíma til þess að skapa veröld persónanna.

 

Björn Halldórsson, 2018