Beint í efni

Einlægur Önd

Einlægur Önd
Höfundur
Eiríkur Örn Norðdahl
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Árni Davíð Magnússon

Á miðöldum tíðkaðist víða í Evrópu að fagna endalokum lönguföstu með stórfenglegum hátíðum. Slíkar hátíðir kölluðust karnival og einkenndust af miklum galsa, gríni og hömluleysi — fullkomin andstæða þeirrar reglufestu sem einkenndi föstuna. Karnivalið var margradda viðburður, fólk af öllum stéttum tók þátt í því og tímabundið var sem allir stæðu jafnfætis í samfélagi manna. Viðurkenndum samfélagsnormum var gjarnan snúið á haus, kóngurinn varð hirðfífl og öfugt, og hið karnivalíska grín (sem oft var ansi lágkúrulegt) beindist að öllu og öllum. Franski endurreisnarrithöfundurinn Francois Rabelais er oft nefndur sem helsti fulltrúi karnivalsins í bókmenntum. Verk hans um risana Gargantúa og Pantagrúl einkennast af húmor sem kann að orka lágkúrulegur nú á dögum, þar sem áhersla er lögð á mannslíkamann og starfsemi hans. Allir eiga hana jú sameiginlega og því má öðrum þræði líta á karnivalismann sem nokkurs konar jafnaðarstefnu sem hangir saman á lægsta samnefnara.

Ástæða þess að umfjöllun um Eirík Örn Norðdahl hefst aftur úr grárri forneskju er sú að stílbrögð karnivalsins eru ríkt einkenni á höfundarverki hans eins og stöku sinnum verður vikið að hér að neðan. Í sögum hans fá margar ólíkar raddir að heyrast og takast á. Gjarnan er mikið um grín og galsa í sögum hans, hlátur beinist að öllu og öllum og er notaður til afhjúpunar. Sögupersónur hans eru síðan oft í undarlega ríkum mæli á valdi líkama sinna og orka á köflum sem paródíur af manneskjum, hálfgerðir satýrar sem geta leyft sér það sem aðrir gætu ekki og fyrir vikið tjáð einhvern sannleika í gegnum skáldskapinn.

Það má þó ekki skilja þetta þannig að Eiríkur Örn sé á einhvern hátt með annan fótinn í miðöldum (lesist: gamaldags). Hann er einhver mesti samtímahöfundur sem komið hefur fram á Íslandi frá aldamótum og speglar samtíma sinn nánast í hverri einustu bók. Hann er jafnframt afar framsækinn höfundur og vel skilgetið afkvæmi módernismans hvort tveggja í skáldsögum og ljóðum.

I.

Fyrsta bók Eiríks Heilagt stríð: Runnið undan rifjum drykkjumanna (2001) var fjölrituð í 50 eintökum og illfáanleg um þessar mundir. Bókin er hefðbundnari en þær ljóðabækur sem síðar koma en inniheldur þó margt af því sem telja má til höfundareinkenna Eiríks Arnar – ljóðin eru tæpitungulaus, bera orðaforða skáldsins gott vitni og eiga sjálfsagt að vera „in your face“-kveðskapur sé mark tekið á mottói bókarinnar sem sótt er í Dómarabók: „Og hann fann nýjan asnakjálka, rétti út höndina og tók hann og laust með honum þúsund manns“ (6).

Hér má finna slæðing af standpínum og reyting af svalli en þó má einnig sjá vísi af þeirri stefnu sem ljóð Eiríks taka í síðari bókum þar sem áhersla er fremur lögð á hljóm tungumálsins en merkingu þess: „Trítla ótt / trítla títt / trítla létt / trítla blítt. [...] Tipla á tánum / með tilduránum / kikna í hnjánum“ (19). Þetta er þó ekki fyrirferðarmikið einkenni ljóðanna í Heilögu stríði en bókin leggur ríka áherslu á hvernig ljóðmælandi og skáldið sjálft mótar sína ímynd og sjálfsmynd, staðsetur rödd sína, nokkuð sem spunnið er áfram í annarri ljóðabókinni Heimsendapestum (2002). Áhrifavaldar koma allir við sögu, Bukowski, Ginsberg, Laxness og ljóðmælandi veltir jafnframt fyrir sér eigin viðtökum og speglar e.t.v. það óöryggi sem hugsanlega berst í brjóstum ungskálda:

Ég lýg því að ég sé kvalinn,
ég er ekki kvalinn.
Og ég hef aldrei drepið Guði,
það var líka lygi.
Sjálfsagt laug ég fleiru.
Ég biðst innilega afsökunar.
Ég er barn. (45)

Heimsendapestir reiða síðan hátt til höggs, eða eins og segir í inngangsorðum ritstjóra: „Eiríkur Örn Norðdahl, fæddur 1978, ber nú ábyrgð á bestu tíðindum íslenskrar ljóðlistar frá því við lærðum að lesa“. Framhaldið er svo hátimbrað að það er nær ómögulegt að ætla annað en að verið sé að hæðast að rómantískri hugmyndinni um ungskáldið sem ætlar að sigra heiminn. Mörg ljóð einkennast eftir þessu af nokkrum gífuryrðum, ærslagangi og tilraunum til að ganga fram af lesendum. Sjálfsköpun skáldsins er miðlæg í mörgum ljóðum bókarinnar eins og í fyrstu ljóðabókinni. Ljóðmælandi staðsetur sig kyrfilega á jaðrinum: klýfur bókmenntafræðinginn í herðar niður og hendir ritstjóranum fyrir ljónin eins og segir í „Varir skáldsins“. Hann er einnig upptekinn af sínum eigin performansi sem skáld og yrkir beinlínis um það í ljóðinu „Skáldatími“ þar sem hann finnur sig loks „í hæfilegri blöndu / af Sjón og Degi Sigurðarsyni“ (27), en ljóðið var einnig birt í Heilögu stríði. Ljóðin eru þó ekki bara eintóm gífuryrði og sum þeirra nokkuð hugljúf, t.d. eru þónokkur ljóð sem sækja í bernskuminningar. Rödd Eiríks Arnar sem ljóðskáld er því ennþá dálítið flöktandi í Heimsendapestum, ekki er sami heildarsvipur tilraunamennsku og í mörgum síðari ljóðabókum.

Það breytist nokkuð með Nihil Obstat (2003). Mörg ljóðin eru hálftorskilinn orðavaðall sem getur þó verið mergjaður áheyrnar, enda njóta mörg ljóð Eiríks sín best í upplestri. Eins og í  í Heimsendapestum virðist ljóðmælandi á köflum reyna að ganga fram af lesendum í karnivalískum leik þar sem sjónum er gjarnan beint að hinu „óæðra“. Titillinn Nihil Obstat vísar í þá einkunn sem kaþólska kirkjan gaf verkum sem þóttu hæf til birtingar og er því augljóslega kaldhæðinn. Athyglisverðasta ljóð bókarinnar, titilljóðið, leggur út af sjálfri hneyksluninni sem tjáningu og ljóðmælandi verður bæði höfundur og gagnrýnandi, t.d.:

Kynlíf er fallegt, rassaríðingar líka, brundur er fallegur og góður á bragðið. Ég er að segja ykkar það, og ég meina það öllum orðum það kemur hneykslan ekkert við.

[...]

Dylja þessi strákslegu stóryrði gamalkunna veikleika: hégómleika, óöryggi, ekkert töff, - getur það verið?

Ljóðmælandinn verður með þessu tvöfaldur í roðinu og slær að vissu leyti vopnin úr höndum túlkenda sinna með því að gerast eigin gagnrýnandi. Hvaða afstöðu eiga þeir að taka, ættu þeir að taka lágkúrulegt grínið alvarlega eða afskrifa það sem „hégómleika“ og „óöryggi“? Ef þeir samþykkja það að þetta séu almennilegar yrkingar, eru þeir þá lágkúrulegir sjálfir? Ljóðið afbyggir í raun skilin milli ljóðmælenda og lesenda og gerir þá jafnréttháa um stundarsakir á hátt sem kalla má karnivalískan. Þetta er ekki eina ljóð bókarinnar sem lesendur standa hálfbjargarlausir frammi fyrir, því oft er markvisst spilað á bjargarleysið með heilu og hálfu blaðsíðunum þöktum torskiljanlegum texta. Ljóðin brjótast því mörg úr viðjum túlkunar og það má vel spyrja hvort hugmyndin sé á einhvern hátt að frelsa þau?

Fyrsta skáldsaga Eiríks Arnar, Hugsjónadruslan (2004), dregur dám af ljóðabókunum um margt. Hún er tilraunakennd og eins og í sumum ljóðunum er kinkað kolli til bít-skáldanna, þar sem lesendur eru dregnir í svallmikla þeysireið flæðandi í neyslu, kynlífi og líkamsvessum. Bókin er ferðasaga og eins konar þroskasaga (ég segi ‚eins konar‘ því ekki er alveg ljóst hvort söguhetjan taki út nokkurn þroska) og fjallar um Þránd, ungan mann sem ferðast til Danmerkur til að hitta Maggie sem hann kynntist á netinu. Í ferðinni með Norrænu hittir hann hina færeysku Annie svo úr verður ástarþríhyrningur.

Þrándur er nokkuð taugaveiklaður og í þokkabót berklasjúkur eins og ófáir Hafnarstúdentar fyrr á öldum. Í takt við það er mikill asi á frásögninni, hún er hátt strengd og oft bráðskemmtileg aflestrar. Hún er sögð í fyrstu persónu og er atburðarásin brotin upp af dagbókarfærslum Þrándar sem verða oft að nokkurs konar vitundarflæði sögumanns. Einnig eru stuttir kaflar þar sem frásögnin færist yfir í þriðju persónu. Þá notar sögumaður til þess að velta fyrir sér sannleika og lygi frásagnar og meintri fjarlægð höfundar við persónur sínar og gerir a.m.k. tilraun til að má út mörkin þeirra á milli. Þetta eru tilraunir sem verða markvissari í síðari verkum Eiríks (t.d. má nefna Einlægan Önd).

Frásögnin er því nokkuð brotakennd og á köflum erfitt að henda reiður á henni. Ferðasaga Þrándar sem bókin hverfist um einkennist af merkingarleysu og stefnuleysi, honum verður oft hugsað til Maggie og Anníar en sjaldnast fá lesendur tilfinningu fyrir því að tilfinningar hans til þeirra risti ýkja djúpt, og ekki víst að ástir þeirra nái að fylla það botnlausa hyldýpi sem tilfinningalíf hans er. Titillinn, Hugsjónadruslan, vísar enda í einhvern sem skiptir um hugsjónir eins og hjásvæfur og er fyrir vikið gersneyddur þeim. Bókin ber mörg þau einkenni sem Eiríkur hefur orðið þekktur fyrir, hún er hispurslaus og áköf og segja má að hún sé nokkuð kjörkuð fyrsta skáldsaga. Stíllinn á hins vegar eftir að verða agaðri í síðari verkum og úrvinnsla efnis markvissari.

Milli Hugsjónadruslunnar og næstu skáldsögu, Eitur fyrir byrjendur (2006) er ljóðabókin Blandarabrandarar (2005). Þar er gengið lengra en í Nihil Obstat í því að frelsa ljóðin undan viðjum túlkunar og fyrirframákveðinna tákna, en hugmyndafræði og aðferð bókarinnar er útskýrð í síðasta ljóðinu:

Öll ljóðin í þessari bók eru blöndur, tilbrigði, fyrirbæri, bastarðar. Þau eru öll útgáfur af öðrum textum sem eru til annars staðar. Eitt ljóðið er sett saman úr 410 mismunandi textum. Annað er sett saman úr einum texta. (60)

Sem sagt, allt í bókinni hefur áður verið sagt en á öðrum forsendum – orðunum er hent í blandara og sú blanda liggur til grundvallar Blandarabröndurum. Segja má að verið sé að búa til annan táknheim til hliðar við þann sem við þekkjum því táknin í ljóðunum eru öll á skjön. Með þessu bera mörg ljóðin með sér einhvern óljósan annarleika og óhugnað, þrátt fyrir að virka við fyrstu sýn sem hálfgert bull. Með öðrum orðum þá þekkja lesendur orðin en inntak þeirra er framandi. Gott dæmi um þetta er ljóðið „Naglasúpa“ sem gengur í gegnum bókina í nokkrum hlutum. Fyrst um sinn virkar þetta það eins og banalt grín unnið upp úr matreiðslubók („Merjið hvítlauksrifin! / Merjið einiberin!“), en eftir því sem klifunin færist í aukana sækir torkennileg tilfinning að lesendum. Hversdagslegar tilvitnanir verða sífellt ágengari í krafti þeirra upphrópunarmerkja sem fylgja þeim og inn á milli læðast tilvitnanir sem eiga ekki heima í matreiðslubók („Rífið, rífið allt niður til grunna! [...] Rífið hana!“). Útkoman er einhvers konar uppskrift að óhugnaði, þótt orðin séu ósköp hversdagsleg.

Blandarabrandarar er undarleg bók en í gegnum hið undarlega vekur hún upp fjölmargar áleitnar spurningar um eðli ljóðlistar og jafnvel tungumálsins og þá hvernig heimurinn er skilinn.

Önnur skáldsaga Eiríks, Eitur fyrir byrjendur (2006), er að mati undirritaðs greinilegt framfaraspor frá Hugsjónadruslunni. Það er meiri ró yfir frásögninni sem fær einhvern veginn meira andrými til að njóta sín enda þótt Eitur fyrir byrjendur sé mun styttri bók. En þetta eru gjörólíkar bækur. Eitrið fjallar um tvo unga sambýlinga, heimspekinemann Dísu og Halldór, sem gerir mest lítið. Þau hafa þekkst í átta ár en aldrei átt í ástarsambandi þótt Halldór beri greinilega slíkar taugar til Dísu. Dísa á síðan í sambandi við Högna, karlrembulegan kynjafræðing, svo hér eins og í Hugsjónadruslunni má finna ástarþríhyrning.

Það er erfitt að ræða þessa bók án þess að nefna hin furðulegu og tragísku tengsl milli Halldórs og Dísu sem eru leidd í ljós á frábæran og óvæntan hátt í sögulok, en Halldór varð valdur að umferðarslysi sem dró dóttur Dísu til bana. Sagan fjallar því um skuld, sekt og sorg þar sem Halldór er sögumiðja frásagnarinnar.  

Frásögnin er í fyrstu persónu þegar hún snýr að Halldóri en í þriðju persónu þegar fjallað er um Dísu, sem vekur þann grun að Halldór eigi kannski meira í frásögninni en sagt er berum orðum, enda eru tilfinningar Dísu og hvatar í sögunni allir óræðari. Dísa sér um rekstur heimilisins og skiptir öllum greiðslum hnífjafnt á milli þeirra. Halldór er reyndar löngu hættur að geta borgað leigu en það virðist ekkert tiltökumál, táknrænt fyrir þá skuld sem hann mun aldrei getað greitt Dísu.

Gegnumgangandi og sterkt tákn í gegnum söguna er eitruð planta, sumarsýprus, sem Dísa kemur með inn á heimilið í óþökk Halldórs. Þegar á líður verður hann hins vegar heltekinn af sýprusnum, ekki síst þegar hann lendir í þeirri klípu að geta ekki opnað útidyr íbúðarinnar þrátt fyrir að Dísa gangi inn og út að vild. Læstur inni verður íbúðin honum heimur út af fyrir sig. Þar dvelur hann löngum stundum við sýprusinn, gælir við hann eins og væru þeir elskendur og leggur loks eitruð blöðin sér til munns. Lýsingarnar á þessum aðförum eru feikna eftirminnilegar:

Leifarnar af soðnum sumarsýprusnum voru ennþá í sigtinu, að harðna að utan en að tútna af vökva að innan. Ég tók vöndulinn upp. Hann hafði krullast í soðningunni og var eins og grænn vafningur, stífur á húðina en sveigjanlegur. Ég setti hann upp í aðra kinnina og saug. (95)

Halldór verður vitaskuld veikur af átinu en einnig vímaður: „Múmínálfur! hló ég með sjálfum mér. Ég er vaxinn eins og múmínálfur! Ég brosti út að eyrum og fann gleðitárin streyma niður kinnar mér. Ósýnilegur múmínálfur“ (84). Þráhyggja Halldórs gagnvart sýprusnum kallast á við sekt hans og innilokaður í íbúðinni er ekki laust við að hugsýki hans minni á Raskolnikov Dostojevskís í sinni eigin, rykföllnu íbúð. Sýprusinn er Halldóri bæði refsing og þægð, hann móttekur refsingu sína sæll og glaður og er hún honum svo mikill léttir að hann verður sem ósýnilegur múmínálfur.

Eitur fyrir byrjendur er stutt bók en gefur góð fyrirheit. Hún er einkaleg og sýnir ef til vill að Eiríkur Örn er óragur við að fást við grundvallarspurningar mannlegrar tilvistar í skáldverkum sínum.

Eiríkur Örn fylgdi Eitrinu eftir með þremur ljóðabókum, Handsprengju í morgunsárið (2007, ásamt Ingólfi Gíslasyni), Þjónn það er Fönix í öskubakkanum mínum (2007) og Ú á fasismann – og fleiri ljóð (2008). Segja má að með þeim haldi hann áfram þeirri tilraunastarfsemi í ljóðagerð sem vísir er að í fyrri ljóðabókum, teygir í raun ljóðformið að ystu mörkum.

Í Handsprengjunni eru textatengsl í forgrunni. Bókin inniheldur, að sögn, ljóð eftir „athafnaskáldin“ Saddam Hussein, Ronald Reagan, Björn Bjarnason og Valgerði Sverrisdóttur, svo einhver séu nefnd. Þetta er einungis að hluta til lygi vegna þess að sum ljóðin virðast unnin beint upp úr bloggfærslum og ummælum nafngreindra einstaklinga, sem skáldahendur Eiríks Arnar og Ingólfs Gíslasonar hafa síðan raðað saman af skynsamlegu viti. Útkoman verður oft beitt og stundum bráðfyndin þótt ljóð eins og þessi, svo órjúfanlega bundin samfélagsumræðu sín tíma, séu mörg ofurseld þeim örlögum að eldast illa og glata skírskotun sinni.

Þjónn það er Fönix í öskubakkanum mínum og Ú á fasismann eru síðan athyglisverðar bækur. Þær eru ekki mjög tilvitnunarvænar (sennilega ekki skrifaðar fyrir ferkantaða bókmenntafræðinga) en innihalda svo eitthvað sé nefnt myndljóð, örsögur og fjölmarga leiki með tungumálið. Hin helgu vé íslenskrar bókmenntasögu fá sína útreið í þeirri fyrrnefndu, einna helst Tíminn og vatnið sem verður höfundi sem tilraunadýr. Myndljóð og hljóðaljóð eru síðan í forgrunni í Ú á fasismann svo örðugt er að gera bókinni rækileg skil án þess að myndir eða upptökur fylgi. Það er ekki alltaf ljóst hvert er verið að fara með tilraunum þessara bóka en það skiptir ekki öllu – ljóðin vitna öðru fremur um tungumálið sem átakasvæði þar sem merking er sjaldnast föst í hendi.

II.

Gæska (2009) slær að nokkru leyti nýjan tón í skáldsögum Eiríks. Meðan að Hugsjónadruslan og Eitur fyrir byrjendur höfðu að sumu leyti fengist við nokkuð dæmigerð þemu þá kveður Eiríkur sér hljóðs sem skýr samtíma- og ádeiluhöfundur með Gæsku, nokkuð sem hafði kannski betur sést í ljóðabókunum en fyrri skáldsögunum tveimur. Í Gæsku kveður líka mikið að því sem nefnt var í inngangi þessarar greinar, karnívali og paródíu. Hún er jafnframt fyrsti hluti þríleiks sem inniheldur einnig Illsku og Heimsku.

Gæska er karnivalísk frásögn frá umbrotatímum í sögu íslenska lýðveldisins þar sem efnahagshrunið og afleiðingar þess spila undir. Bókin er í tveimur hlutum, fyrir „byltingu“ þar sem taumlaus neyslan ræður ríkjum og eftir „byltingu“ þegar upp er risið mæðraveldi á Íslandi og landið fyllist skyndilega af flóttamönnum. Hér er fylgt eftir nokkuð fjölskrúðugu persónugalleríi, þingmannahjónunum Halldóri og Millý, gröfukarlinum Óla Dóra og hedónískri eiginkonu hans Freyleifu sem jafnframt er aðstoðarmaður Millý. Í líf þessara persóna fléttast síðan flóttamennirnir Kadír og Fatíma. Þau eru fangar íslensku ríkisstjórnarinnar og er stillt upp sem sýningargripum á skemmtunum stjórnvalda þar sem þau eiga að sýna hina fullkomnu innflytjendur. Söguhetjur aðstoða þau við að losna úr prísundinni og sumar öðlast við það óvæntan lífstilgang.

Sagan er annars vegar í fyrstu persónu Halldórs og síðan í þriðju persónu alviturs og nokkuð valdsmannslegs sögumanns sem sér allt og alla, ásamt því að halda langar einræður um samtímann og þá syndaseli sem hann byggja. Er þar e.t.v. kominn vísir að hinum breiða sögumanni Illsku sem fjallar sömuleiðis um samtímaleg málefni. Í takt við hið karnivalíska ástand verða allt og allir skotspónn gríns og skopstælingar. Versta útreið fá alþingismenn sem eru lítið annað en gróteskir nautnabelgir:

Ríkisstjórnin var meira og minna afvelta af ofdrykkju og hedónískum útbelgingi. Loftið gekk upp úr þeim til skiptis, einsog úrsérgenginni bensínvél, um ropandi kok og fretandi rassgöt og húðir þeirra roðnuðu undan ofhitnun líkamans sem réð ekkert við að brjóta niður dýrðirnar sem þeir höfðu troðið og hellt ofan í kokið á sér, og spikfeitir þjónar lýðveldisins svitnuðu nánast í gusum, mörblönduðum vínum og kaffi. (123)

Það má þó heimfæra karnívalið upp á flestar sögupersónur og þjóðfélagshópa Gæsku, nema ef vera skyldi flóttamennina — persónurnar eru lítið annað en þrælar eigin hvata og líkamsstarfsemi. En karnívalið er ekki tilgangslaust. Jafnaðarhugsun karnívalsins gerir það e.t.v. að verkum að þegar landið fyllist af flóttamönnum í sögulok geta hinir „hedónísku útbelgingar“ ekki annað en gert sitt besta fyrir það fólk sem þangað leitar, enda hefur molnað undan stigveldi samfélagsins: „Það var tilgangslaust að spyrja sig hvaðan þau höfðu komið. Þau voru einfaldlegea hérna. [...]. Íslendingar gætu ekki mikið gert fyrir þetta fólk. En þeir gætu ekki heldur látið sem það væri ekki til.“ (267)

Oft veður sögumaður á súðum í Gæsku, farið er um víðan völl og áherslan er fremur á breiða samfélagslýsingu en persónusköpun, þar sem flestar persónurnar eru fremur einvíðar. Þetta er engu að síður frumleg saga sem varðar slóð Eiríks í mörgum komandi skáldsögum að því leyti að hún speglar samtíma sinn, skopstælir hann og kemur blóði lesenda á hreyfingu.

Útkoma Illsku (2012) markaði tímamót á ferli Eiríks Arnar. Hún fékk sannkallaðar „loksins, loksins“ viðtökur, rokseldist, var þýdd á fjölmörg tungumál og hlaut aukinheldur Íslensku bókmenntaverðlaunin. Illska er engu að síður bók sem hefði auðveldlega getað floppað; 540 blaðsíðna doðrantur um helförina og afleiðingar hennar, stór bók með stóran titil og fer vægast sagt um víðan völl. Bókin hitti þó góðu heilli í mark því þessi galna tilraun Eiríks Arnar gengur fullkomlega upp og skapar eina eftirtektarverðustu íslensku skáldsögu síðari ára.

Eins og í Hugsjónadruslunni og Eitri fyrir byrjendur fjallar bókin öðrum þræði um ástarþríhyrning. Sá inniheldur parið Ómar og Agnesi og nýnasistann Arnór. Þetta er kúnstugur þríhyrningur; Agnes, sem er af litháískum gyðingaættum, heldur við nasistann Arnór, Ómar kemst að því og kveikir í húsi þeirra Agnesar og heldur á flótta til Evrópu þar sem hann þvælist um slóðir helfararinnar. Að baki þessu fer annarri sögu fram af forfeðrum Agnesar í Litháen og útrýmingu gyðinga í smábænum Jurbarkas, en í þeim hildarleik myrðir annar afi Agnesar hinn. Milli þess segir sögumaður lesendum svo „upp og ofan af þriðja ríkinu“ (10), auk þess sem bókin inniheldur margar einræður hans um samfélagsleg málefni. Þannig má að einhverju leyti líkja Illsku við klippiverk, ekki allsendis ósvipað tilraunum höfundar í ljóðagerð (hér má minnast tilraunastarfseminnar í Blandarabröndurum).

Örlagasaga Illsku er vissulega heillandi en galdur þessarar bókar er öðru fremur fólginn í frásagnarhættinum. Sögumaður Illsku er stór og mikill, það sást glitta í slíkan sögumann í Gæsku, en í Illsku er sannarlega gefið í botn. Sögumaður er alvitur og segir frá í öllum aðalpersónunum þremur í mismiklum smáatriðum og frá ólíkum sjónarhornum, saga Ómars er t.d. að hluta til í fyrstu persónu. Auk þess hefur hann sjálfsmeðvitund og beinir sjónum bæði að sjálfum sér og lesendum sögunnar í þónokkrum tilfellum. Þessi frásagnaraðferð Illsku skapar stóran heim sem einkennist öðru fremur af margröddun.

Margröddun er hugtak sem er að mörgu leyti skylt þeim karnivalisma sem hér hefur verið nefndur í tengslum við önnur verk Eiríks en karnivalið felur margröddunina í sér. Eins og þar þá takast á margar, ólíkar raddir í margradda skáldverkum. Stigveldi þeirra er ekkert, allar eru þær jafnréttháar og ekki endilega er gerð tilraun til þess að sætta þær – þeim er einfaldlega leyft að heyrast. Illska leikur markvisst með þetta enda er flestöllum sem sagan segir frá gefin rödd og sjónarhorn, meira að segja fúlustu nasistum. Sögumaður er ekki hlutlægur og beitir ýmsum aðferðum við að sveigja viðhorf lesenda að sínum en margröddunin knýr þó lesendur til að setja sig í ýmsar stellingar og mynda að lokum eigin afstöðu.

Hugmyndir um afstöðu og afstöðuleysi eru ríkjandi í Illsku og birtist hvergi skýrar en í endalokum sögunnar, í spennuþrungnu uppgjöri Arnórs, Agnesar og Ómars. Þar er kostur gefinn á tvenns konar niðurlagi:

Svo gerist eitt af tvennu eða bæði.

Dyrnar lokast, skella í lás. Ómar starir í blátt gólfteppið. Snýr sér aftur að hurðinni og íhugar að banka. Bakkar nokkur skref. Styður sig við ruslalúguna. Það er einsog það muni nú líða yfir hann.

Ómar staðnæmist í dyrunum rétt áður en þær lokast, snýr sér leifturhratt við og sparkar af öllu afli í punginn á Arnóri, sem fellur til jarðar. Agnes bregst hratt við, þrífur Snorra með sér og hleypur út í öruggan faðm Ómars. (534)

Síðari endirinn leiðir að hamingjusögum sögulokum að hætti Hollywood, eins og Ómari er lesendum boðið að „sparka í punginn“ á nasistanum, snúa illskuna niður  (Arnór hefur þó sympatíska forsögu og illskan því margræð) og lifa sælir og glaðir. Fyrri endirinn, þar sem Ómar gerir ekki neitt, er þó sá sem virðist verða fyrir valinu af hendi sögumanns, það er enda meira í anda Ómars sem á það sameiginlegt með Halldóri úr Eitrinu að vera hálfaðgerðarlaus persóna. Lokaorð sögunnar „Og svo heldur lífið áfram“ (540), fanga kannski á raunsæjan hátt viðbrögð margra (e.t.v. mannkynsins í aldanna rás) gagnvart því að verða vitni að illsku – stundaruppnám en „svo heldur lífið áfram“.

Eins og af yfirferðinni má ráða þá veitir Illska engin skýr svör en spyr þeim mun fleiri spurninga. Úr verður margradda verk sem gengst á hólm við lesendur sína, ögrar þeim og býður að taka virkan þátt í því samtali sem bókin miðlar.

Ljóðabókin Hnefi eða vitstola orð er samtímaverk af öðrum toga en Illska. Þótt hún hafi komið út 2013 þá er hún viðbragð við efnahagshruninu fimm árum fyrr og e.t.v. rökrétt framhald Gæsku í því ljósi. Þetta er hávær og pönkuð ljóðabók. Hún ber ekkert blaðsíðutal heldur er flöktandi gengi íslensku krónunnar látið varða leiðina þess í stað sem endurspeglar á snjallan hátt brjálæðislegar geðshræringar hrunsins. Þetta endurspegla ljóðin sjálf sömuleiðis, þau virðast gjarnan skrifuð í vitundarflæði bálreiðrar vitundar þar sem efnahagshrunið kallast á við það sem kalla mætti merkingarhrun í ljóðunum. Orðin falla í valinn eitt af öðru, leysast upp eins og gengi krónunnar, kaupmáttur og byltingar: „Bylti lyftingin! / Lifi fyllingin! / Tyfti byltingin! / Bang-Bang! Bang-Bang“. Bókin er hrátt viðbragð, hálfgert frumöskur, og eins og mörg ljóða Eiríks þá er við hæfi að þessi séu lesin upphátt, helst með tilþrifum til að magna slagkraft þeirra enn frekar.

Með Heimsku (2015) lýkur svo þríleiknum sem hófst á Gæsku. Segja má að allar séu þær á einn eða annan hátt könnun á samtíma sínum þrátt fyrir að að hvorki tímasvið þeirra né efniviður skarist. Heimska er framtíðarsaga og lýsir eftirlitsþjóðfélagi, ef hún hefði verið skrifuð fyrir þrjátíu árum væri hægt að kalla hana dystópíu en söguheimur hennar er hreinlega ekki ýkja frábrugðinn samtímanum. Munur þessara heima er aðallega fólginn í því að eftirlit Heimsku er áþreifanlegra en algóriþma- og samfélagsmiðlaeftirlit samtímans. Það er einfaldlega í því fólgið að vefmyndavélar fylgjast með fólki öllum stundum. Þannig getur hver sem er fylgst með hverjum sem er. Það er ekki laust við að þetta sé dálítið gamaldags hugmynd um eftirlitsþjóðfélag enda á hún sér hliðstæðu í hundgömlum dystópíum, en endurvinnsla þeirra er ef til vill ágætlega viðeigandi nú á dögum.

Í þessu þjóðfélagi fylgir sagan eftir rithöfundunum Áka og Lenítu sem voru hjón en standa nú í heiftúðugum sambandsslitum þar sem þau skiptast á að ganga fram af hvert öðru með að streyma kynlífi sínu til hvers annars. Hvorugt getur látið það vera að fylgjast með hinu þótt þeim séu aðfarirnar þvert um geð, nethlekkirnir sem ganga þeirra á milli mætti kalla eins konar smellubeitur sem eins og aðrar slíkar eru freistandi í samfélagi (samtíma og framtíðar) sem er sósað af sjokkkúltúr.

Meginþráður átaka þeirra er þó sá að þau slysast bæði til að skrifa hérumbil sömu bókina. Í gegnum þau átök tekst sagan á við margar áhugaverðar spurningar um höfundahugtakið, frumleika og uppsprettu skáldskapar. Enn annar þráður Heimsku hverfist loks um tilraunir hryðjuverkasellu um að „aftengja“ samfélagið, slökkva á rafmagninu „svo að lokum verði ekkert eftir nema gagnslaus rofinn, ekkert eftir nema kyrrðin, hugarróin og önnur, gerlegri framtíð“ (117). Eins og af þessari stuttu yfirferð má ráða er því drepið á ýmsum viðfangsefnum án þess að garnirnar séu beinlínis raktar úr nokkru þeirra. Á köflum virkar sagan næstum sem uppkast að öðrum verkum enda má kannski segja að sum yrkisefni bókarinnar fái ítarlegri greiningu í næstu verkum Eiríks; internetmenning í Hans Blæ og skáldskapurinn sjálfur í Einlægum Önd.

III.

Upptakturinn að Hans Blæ er ef til vill að einhverju leyti sleginn í ljóðabókinni Óratorrek (2017) sem hefur undirtitilinn Ljóð um samfélagsleg málefni. Þetta er margorð og efnismikil ljóðabók með mottói frá Wittgenstein: „Ekki gleyma að þótt ljóð séu ort á tungumáli upplýsinga, þá taka þau engan þátt í þeim málaleik að miðla upplýsingum.“ Tungumál upplýsinga, upplýsingar án inntaks. Ósjálfrátt kemur internetið til hugar. Ljóðin í Óratorreki sækja í brunn samfélagsmiðla og eru oft miklir langhundar sem fanga vel þá orðræðu sem umlykur flesta nú til dags. Mörgum þeirra lýkur á orðunum „Og svo framvegis, og svo framvegis“, eins og rökræður á samfélagsmiðlum sem virðast stundum geta haldið áfram án lausnar meðan jörð byggist, án þess að hönd sé á þeim festandi. Í Óratorreki er sum sé reynt að miðla orðræðu internetsins í ljóðum og er hún áhugaverð tilraun fyrir þær sakir. Holdgervingur óreiðunnar sem þar fyrirfinnst birtist svo í næsta verki, Hans Blæ (2018).

Örlög Hans Blævar (2018), eru mörgum kunn og óþarft að rekja þau í löngu máli. Það er sennilega ekki ósanngjarnt að segja að bókin hafi floppað rækilega, að minnsta kosti í sölu, þótt hún hafi víða fengið ágæta dóma. Leiksýning sem sett var upp í Tjarnarbíó ári fyrir útkomu bókarinnar litaði ef til vill viðtökurnar að nokkru leyti enda ýfði það nokkrar fjaðrir. Sá sem þetta ritar vill þó ekki gera of mikið því heldur er nærtækara að líta til þess að efnið og kannski sérstaklega efnistökin eru býsna umdeild og eldfimu efni er oft auðveldara að mæta með þögn.

Þögnin er þó kaldhæðnisleg í ljósi þess að sagan æpir beinlínis á umræðu, setur sjálfa umræðuhefð samtímans í forgrunn með allri sinni skautun og fordæmingu. Hér stígur fram Hans Blær, fyrsta trans-aðalpersóna íslenskra bókmennta. Hán er nettröll af lífi og sál, „sækir sér skoðanir yfir lækinn“ sem hán bunar út sér í mergjuðum stíl og hlýtur fyrir það athygli, umtal, aðdáun og fordæmingu – allt í senn. Hán er allt annað en sympatísk sögupersóna og virðist hvort tveggja vera narsissisti og sýkópati. Það er fullskiljanlegt að ýmsum úr transsamfélaginu hafi sárnað Hans Blær, enda er þessi fyrsti fulltrúi transfólks í íslenskum skáldsögum fúlmenni hið mesta. Þeim sem þetta ritar finnst þó varla hægt að taka hán alvarlega sem manneskju eða sannferðugan fulltrúa einhvers samfélagshóps. Öðru fremur er hán tákn, og nokkuð áhrifamikið sem slíkt.

Ef unnið er út frá hugmyndinni um Hans Blæ sem tákn þá má segja að hán setji í forgrunn það karnival sem áður hefur verið minnst á, ef til vill er hán karnivalið holdi klætt. Í því miðaldakarnivali sem lýst er í inngangi þessarar greinar var mikil áhersla lögð á umbreytingu. Þar var mannslíkaminn lykiltákn og var gjarnan sýndur sem opinn, flæðandi og í eilífu umbreytingaferli eins og samfélagið sjálft. Hann verður aldrei fullmótaður. Þetta má heimfæra upp á Hans Blævi, sem er síbreytilegt og felur í sér allt og ekkert. Hans Blær er ekki fulltrúi einnar raddar heldur margra sem takast á í einni og sömu persónunni, eða eins og háni er lýst:

Hans Blær er öll okkar og ekkert okkar; hinn almenni maður og hinn fullkomni einstaklingur. Hán er Þórðargleðin sem fróar okkur og skelfir þegar við völdum óskunda í vondum heimi; og hán er sársaukinn sem svíður og svalar fýsnum okkar, breiðir yfir tómið í hjörtum okkar og fyllir líkamann lífi í veröld sem í senn verndar okkur og deyfir. Hán er taugaveiklunin þegar við þegjum og samviskubitið þegar við tökum til máls, myrkrið sem hylur okkur og neistarnir sem lýsa okkur leiðina. (11)

Í takt við þetta síkvika eðli Hans Blævar er viðeigandi að rammi sögunnar sé utan um flótta hánar undan réttvísinni, en hán er eftirlýst  fyrir vægast sagt vafasamt meðferðarúrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Lýsingar þess eru hvorki fagrar né til þess fallnar að auka álit lesenda á söguhetjunni, Hans Blær nær því ekki að verða andhetja í þeim skilningi að lesendur óski háni velfarnaðar þrátt fyrir allt. Það má þó alveg hrífast með háni enda eru skrif hánar ólgandi af lífi þótt skoðanir á hinu og þessu séu oftast óviðurkvæmilegar.

Hans Blær er ef til vill best heppnað sem paródía á hina undarlegu hliðarveröld samfélagsmiðla og þá umræðuhefð sem úr henni hefur sprottið. Vitaskuld má deila um hvort paródíunni hefði mátt miðla með öðrum hætti, Hans Blær er ekki óumdeilt en þó óumdeilanlega eftirminnilegt. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig verk eins Hans Blær mun eldast, það er ekki víst að að árin muni fara blíðum höndum um söguna en hún á erindi hér og nú og hefði að ósekju mátt ná til fleiri lesenda.

Eiríkur Örn er ekki einhamur höfundur og hinni „háværu“ Hans Blæ fylgir hann eftir með sinni hugljúfustu sögu til þessa, Brúnni yfir Tangagötuna. Bókin er í grunninn ástarsaga sem gerist á heimaslóðum Eiríks, Ísafirði. Hér verðlaunar hann líka dygga lesendur því aðalsöguhetjan, rækjuverkamaðurinn Halldór, er sá hinn sami og birtist í Eitur fyrir byrjendur. Þessi textatengsl veita sögunni annað merkingarsvið sem kunna að hafa farið fram hjá einhverjum lesendum.

Í ljósi Eitursins er viðeigandi að Halldór segist í fyrstu málsgreinum vera „fastur heima hjá sér“ (7), eftir vinnsluskort í rækjuverksmiðjunni. Halldór kemst þó út úr húsi í Brúnni en heldur flestum af sínum persónueinkennum; hann er óframfærinn, óöruggur og virðist á köflum hálfímyndunarveikur. Í Brúnni birtast þessi einkenni í tilfæringum hans við nágranna sinn, Gyðu, en milli húsa þeirra er grafinn stór framkvæmdaskurður sem er þó brúaður á táknrænan hátt þannig að einungis eru örfá skref á milli þeirra. Sporin reynast þó Halldóri býsna þung og eru tilfæringar hans við Gyðu oft bráðskemmtilegar.

Eins og í Eitrinu þá er Halldór einhvers konar áhorfandi af lífinu, hann hefur engan sérstakan metnað fyrir einu eða neinu og getur auðveldlega eitt heilu dögunum iðjulaus að glápa út um gluggann. Lýsingin að neðan fangar persónu hans vel:

En það var bara fínt að vera heima. Ég kvartaði ekki undan því. Ég var sjálfum mér nægur og lá ekkert á i lífinu. Ég gat auðveldlega eytt heilu dögunum í að stara á hafið eða fjöllin eða fólkið.

[...]

Ég var ekki í stakk búinn til að gera neitt í neinu. Loftslagið munaði ekkert um mig, einstæðinginn sem aldrei fór neitt nema gangandi eða á hjóli (þótt ég ætti reyndar bíl). (18-19)

Í takt við þetta lætur hann sér fyrst um sinn nægja að fylgjast með Gyðu í myrkri af bílskúrsþakinu sínu og er eins og versti ‚voyeur‘: „Mér finnst, þar sem ég fylgist með Gyðu bera á sig krem og smyrsl og olíur; greiða á sér blautt hárið – mér finnst einsog ég sé að tilbiðja hana“ (30). Honum er illmögulegt að taka af skarið í samskiptum þeirra og það er ekki fyrr en Gyða bókstaflega dregur hann heim til sín eitt kvöldið sem nokkuð fer að gerast þeirra í millum og jafnvel eftir að samskipti þeirra eru komin á skrið hvarflar sú hugmynd reglulega að honum að allt sé þetta ímyndun, enda nokkuð gefinn fyrir ímyndanir eins og sést í Eitrinu.

Þrátt fyrir sína bresti eiga lesendur (a.m.k. þessi) auðvelt með að þykja vænt um Halldór. Halldór hefur hlýja rödd sem sögumaður og þrátt fyrir að vera nokkuð aðgerðar- og metnaðarlaus gagnvart lífinu þá er hann með eindæmum sympatískur. Brúin yfir Tangagötuna er kærkomin í höfundarverki Eiríks, hún er dálítið andrými frá stórum samfélagsspeglum sem mörg fyrri verk hans hafa verið og þrátt fyrir að búa ekki yfir sama slagkrafti og mörg þeirra sýnir Eiríkur Örn á sér aðra hlið sem sérstaklega tilfinninganæmur höfundur eins og persóna Halldórs ber vitni.

Eiríkur Örn er þó ekki hættur að skrifa inn í samtíma sinn og er nýjasta skáldsaga hans, Einlægur Önd, rakið dæmi þess. Hann hefur oft verið fljótur að bregðast við samfélagshræringum og -umræðu í verkum sínum en sjaldan eins og í þeirri sögu. Bókin er hugleiðing um margt, káputextinn dregur bókina saman í „útskúfun, refsingu og fyrirgefningu“, sem má til sanns vegar færa, en einnig drepur hún á umfjöllunarefnum sem hafa verið Eiríki hugleikin annars staðar, t.d. í Heimsku, um það úr hverju skáldskapur sprettur, um frumleika og meinta fjarlægð höfundar frá söguheim sínum. Þessi efni fá í Einlægum Önd mun betri úrvinnslu en annars staðar.

Í Einlægum Önd sprettur rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl fram sem söguhetja bókarinnar. Hann er ærulaus og útlægur úr menningarsamfélaginu á Íslandi eftir útkomu Hans Blævar og óviðurkvæmilega hegðun í kjölfarið og hnugginn mjög yfir sínum ráðahag. Hann fær þó starf við að kenna ritlistarnemum fyrir erlent fyrirtæki sem þekkir ekki orðspor hans, en fljótlega eftir að kennsla hefst berast honum nafnlaus hótunarbréf sem fest eru á múrsteina sem mölva gluggana hans eða eru lagðir fyrir hann á förnum vegi.

Skáldsagnapersónan Eiríkur Örn tekst á við raunir sínar eins og skálda er háttur, með því að spegla þær í skáldskap. Þannig verða þessir atburðir honum tilefni til að skrifa sögu ritlistarkennarans dr. Felix Ibaka í landinu Arbítreu. Í Arbítreu gangast íbúar upp í því að smána þá sem hafa brotið á sér og um smánunina gilda sérstakar aðferðir og reglur. Sú sem mest kveður að er siðmúrun en þá eru múrsteinar bornir að heimili þess smánaða, sem hann þarf síðan að fjarlægja á degi hverjum í eilífu Sísyfosarverki.

Felix Ibaka sætir útskúfun líkt og Eiríkur Örn. Glæpur hans er sá að hafa skrifað sögu eiginkonu sinnar, Flórensíu Lilleput, sem í kjölfarið framdi sjálfsmorð en í Arbítreu „hefur hver maður rétt til að rita sína eigin sögu svo fremi sem hún skarast ekki við sögu einhvers annars“ (124). Þetta þýðir að enginn má skrifa um nokkurn nema fá til þess leyfi. Það gerði Felix Ibaka ekki og uppsker því opinbera smánun, ekki ósvipað og Eiríkur Örn (skáldsagnarsjálfið) í tilfelli Hans Blæs.

Lögum er síðan hlaðið á söguna eitt af öðru en saga Felix Ibaka inniheldur bæði kafla úr Blómarós, bókinni sem hann skrifaði um eiginkonu sína, og handriti í vinnslu, Skrúð laufanna, sem er eins konar ritgerð um skömm og iðrun. Þannig fer allt að fjórum sögum fram samtímis sem allar vísa hver á aðra og kallast á við grunnþemu Einlægs Andar á snjallan hátt. Hér er lítið rúm til þess að greina ólíka þræði Einlægs Andar í smáatriðum en það ætti bókin sannarlega skilið. Eins og mörg önnur verk Eiríks er sagan því margradda kór og kannski sá skærasti sem hljómað hefur í höfundaverki hans. Það þarf býsna leikinn höfund til að halda svona sögu saman en í Einlægum Önd stígur Eiríkur Örn engin feilspor og skrifar hugsanlega sitt besta verk.

 

Árni Davíð Magnússon, desember 2021