Beint í efni

Ég er ekki dramadrottning

Ég er ekki dramadrottning
Höfundur
Sif Sigmarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Það hefur ekki mikið verið gefið út af unglingabókum hér á landi síðustu ár, að undanskildum fantasíum, en þær voru mun fleiri í jólabókaflóðinu fyrir 10 til 15 árum. Á sama tíma sýna rannsóknir að unglingar lesa sífellt minna. Spurningin er hvort ræður för, framboð eða eftirspurn. Á minni útgáfa unglingabóka í raunsæisanda, frumsamdra íslenskra jafnt sem þýddra, að einhverju leyti sök á minnkandi lestri þessa aldurshóps eða varð minnkandi lestur – og þar af leiðandi minni sala – til þess að svo mikið hefur dregið úr útgáfu bóka fyrir þennan aldur? Þessu verður ekki svarað hér en það er þess virði að velta spurningunni fyrir sér þegar talað er um minnkandi bóklestur barna og unglinga.

Í ljósi þessa ber að fagna bók eins og sögunni af Emblu, Ég er ekki dramadrottning, en sagan ætti að höfða vel til unglingsstelpna með sögum af vinkonum, strákunum sem þær eru skotnar í og vandamálum tengd foreldrum sem skilja ekki hvað er mikilvægast í lífinu þegar maður er 14 ára.

Sagan gerist sumarið eftir að Embla og vinkonur hennar ljúka 8. bekk. Hún hefst á því að mamma hennar tilkynnir henni að fjölskyldan sé að flytja til London um haustið þar sem kærasti hennar ætlar að hefja nám. Fyrst ætla þau samt að dveljast einn mánuð úti um sumarið til að kanna aðstæður og æfa sig í enskunni. Heimur Emblu hrynur við þessi tíðindi, ekkert er hræðilegra en tilhugsunin um að flytja frá vinkonunum og draumaprinsinum sem hún er rétt að verða málkunnug. Inn í þetta blandast svo fyndnar sögur af fjölskyldunni, t.d. pínlegum uppátækjum föður Emblu, poppara sem er að reyna að slá í gegn með nýrri tónlist og vill bæta ímynd sína meðal yngri kynslóðarinnar.

Embla, aðalsöguhetjan, er íslenskur ættingi hinnar bresku Bridget Jones, og er þá ekki leiðum að líkjast. Bókin er sett upp á svipaðan hátt og Dagbók téðrar Bridgetar en Embla telur bólur og velur fróðleiksmola dagsins í upphafi hvers kafla í stað þess að telja kaloríur og áfengismagn. Piltarnir tveir sem dramadrottningin hrífst af eru heldur ekki ósvipaðir vonbiðlum Bridgetar, annar úlfur í sauðagæru, hinn hvers manns hugljúfi. En Embla er nútíma unglingur og skrifar því sína dagbók á netið. Hún heldur úti bloggsíðu og aðrir, t.d. vinkonurnar heima á Íslandi, geta svo sett athugasemdir inn eftir því sem við á. Dagbókarskrifin á bloggsíðunni skiptast á við fyrstu persónu frásögn Emblu af atburðunum. Þannig fær lesandinn fyrst stuttar dramatískar lýsingar á atburðunum, eða afleiðingum þeirra, en síðan kemur kafli sem segir ýtarlegar frá sömu atburðum. Þetta er skemmtilegur frásagnarmáti sem dregur fram ýktar tilfinngasveiflur aðalpersónunnar og gerir lesendum kleift að sjá atburðina með hennar augum og einnig viðbrögð annarra.

Persónur unglinganna í sögunni eru skýrar og vel unnar en ég hefði viljað sjá betur unnið með persónu mömmu Emblu, það er eitthvað ósannfærandi við unga konu sem kann ekki á tölvupóst en skrifar samt drög að bók á einum mánuði. Við fáum heldur ekkert að vita við hvað hún starfar heima á Íslandi. Það pirraði mig einnig að til skiptis er talað um London og Lundúnir en þar hefði ég viljað sjá samræmi, hvort nafnið sem væri notað, því sagan er fjörlega skrifuð á máli sem unglingar skilja án þess að vera full af „unglingaklisjum” sem stytta líftíma margra bóka sem samdar eru fyrir þennan aldurshóp.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2006