Beint í efni

Á ég að gæta systur minnar?

Á ég að gæta systur minnar?
Höfundur
Jodi Picoult
Útgefandi
Skrudda
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Barneignir eru ekki lengur einfalt mál (hafi þær einhverntíma verið það). Í dag standa foreldrar frammi fyrir margvíslegu vali (fyrir utan það að velja hvort og hvenær þeir vilji yfirhöfuð eignast barn), því með nútíma-líftækni er ekki aðeins hægt að velja sig frá ýmsum erfða- og genagöllum, heldur er einnig hægt að velja kyn, auk þess sem hægt er að (allavega reyna að) velja sér gáfur og fegurð með hjálp sæðis- og eggjabanka. Ófrjósemi er ekki lengur sá þröskuldur sem var og umræðan snýst í auknum mæli um hönnuð börn, börn sem hafa á fósturstigi verið mótuð í tiltekið form, með tilheyrandi viðmiðum hvers tíma um eftirsóknarverða eiginleika. Enn sem komið er mun það síðastnefnda ekki vera hægt, en það sem er hægt er að láta skima tæknifrjóvguð egg og velja úr vænlegasta fósturvísinn - vænlegastan þá með tilliti til eftirsóknarverðra eiginleika. Og um þetta fjallar Jodi Picoult í skáldsögu sinni Á ég að gæta systur minnar?

Anna (sem heitir fullu nafni Andrómeda) er tilbúið barn, komin til vegn a þess að eldri systir hennar, Kate, er með sjaldgæfa tegund bráðablóðkrabba og ef hún á að lifa þarf hún stofnfrumugjöf úr naflastrengsblóði einstaklings sem ekki er bara skyldur henni, heldur hefur tiltekna litningasamsetningu sem samræmist litningum Kate. Svo foreldrar Kate ákveða að eignast annað barn, dóttur, og með hjálp tæknifrjóvgunar er hægt að velja fósturvísi sem uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til að verða lífgjöf Kate. Allavega um sinn, því sjúkdómurinn tekur sig upp aftur og aftur og Anna heldur áfram að gangast undir aðgerðir.

Sagan hefst á því að Anna, sem nú er orðin þrettán ára, leitar sér lögfræðings til að fá sjálf að ákvaða réttinn yfir líkama sínum. Nú er heilsa Kate orðin svo slæm að hún þarf að fá nýra og Anna neitar að gefa það. Foreldrar hennar hlusta ekki á hana í neinni alvöru, allt þeirra líf snýst um að halda Kate á lífi, á meðan verður elsta barnið, sonurinn Jesse, að vandræðaunglingi (hann getur ekki bjargað Kate) og Anna, sem að öllu leyti er góða barnið, upplifir sig á undarlegan hátt sem varabarn, óskabarn vissulega, en ekki óskabarn sjálfs sín vegna heldur vegna systurinnar. Þannig er hún eins og hún sé ekki raunveruleg, hún er staðgengill, varahlutabanki. Við sögu málsins kemur lögfræðingurinn sem Anna leitar til, en hann á sjálfur við veikindi að stríða, og réttargæslukonan Júlía sem er fyrrverandi kærasta lögfræðingsins.

Viðfangsefni á borð við þetta hefur verið algengt í vísindaskáldskap undanfarinna áratuga, en fyrsta staðgengilsbarnið sem ég man eftir úr bókmenntum er vélstrákurinn Astro úr myndasögum japanska myndasöguhöfundarins Osamu Tezuka, en sá var einmitt skapaður sem staðgengill látins sonar vísindamanns. Annað þekkt dæmi er litli strákurinn úr kvikmyndinni Artificial Intelligence eða AI, en sú mynd var byggð á smásögu Brian Aldiss, “Supertoys last all sumer long”. Bæði þessi dæmi eru frá því um rúmlega miðja síðustu öld, svo hugmyndin um gervibarn er öllu nýrri en hugmyndin um gervimenn sem nær aftur til fornaldar.

Það sem er áhugavert við sögu Picoult er að hér er þetta viðkvæma efni, sem eins og áður sagði hefur hingað til verið álitið tilheyra vísindafantasíu, komið í búning raunsæisskáldssögu, þó vissulega beri hún merki ofurdramatískra metsölubóka og jaðri á stundum við að tilheyra æsingabókmenntum eða ‘sensationalisma’. Almennt séð virkar þetta vel og gengur vel upp, sérstaklega finnst mér áhrifaríkt hvernig höfundurinn setur söguna í samhengi við unglingsárin og gerir þannig tilvistarkreppu Önnu að mun flóknara og víðtækara fyrirbæri en annars, auk þess sem unglingaveikin fræga tekur hér á sig nýja mynd. Einnig er það vel heppnað að skoða söguna útfrá ólíkum sjónarhornum Önnu sjálfrar, bróður hennar Jesse, föður þeirra og móður, og svo lögfræðingsins og réttargæslukonunnar, en þannig fæst mun fjölbreyttari sýn á þetta mjög svo mikilvæga málefni, en það er óhætt að segja að hér sé á ferðinni saga sem kemur okkur öllum mjög mikið við í dag. Reyndar er eftirtektarvert að þessi bók komi út á íslensku á sama tíma og nítjándualdar vísindahrollvekja Mary Shelley, Frankenstein, kemur út í óstyttri þýðingu, en sú skáldsaga er oft talin marka fyrstu spor gervimanneskju í skáldskap og er fræg fyrir að fjalla um tilvistarkreppu slíkrar mannveru.

Helsta vandamálið er að þegar kemur að sjálfu réttarhaldinu fer dramatíkin aðeins úr böndunum og sömuleiðis eru endalokin óþarflega mikið í stíl æsingabókmennta, og virkuðu á mig sem of einföld lausn. En það breytir ekki því að hér er á ferðinni áhrifarík og vel hugsuð bók, sem fjallar á eftirminnilegan hátt um mikilvæg málefni.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2006