Beint í efni

Eftirbátur

Eftirbátur
Höfundur
Rúnar Helgi Vignisson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

Rúnar Helgi Vignisson hefur að öllum líkindum verið á kafi í smásögum undanfarin ár. Skrifað þær nokkrar, örugglega farið yfir ókjörin öll í sínu þýðingarmikla brautryðjendastarfi sem ritlistarkennari, að ótöldu hinu mikla verki við að velja og ritstýra smásögum heimsins í samnefndri ritröð. Það þarf því ekkert að koma á óvart að það sé smásagnablær yfir upphafi skáldsögunnar Eftirbáts. Þar er gengið hreint og fumlaust til verks við að kynna til sögunnar aðalpersónuna, sjómannssoninn og auglýsingagerðarmanninn Ægi, og meginatburð sögunnar og drifkraft, hvarf föður hans, trillukarlsins Sævars, af bát sínum við minni Ísafjarðardjúps. Síminn hringir í miðjum ástarleik Ævars og Sirrýar með fréttirnar og þremur blaðsíðum síðar er Ægir á leið vestur ásamt eiginkonu og syni. Til að veita móður sinni stuðning, en einkum að leita föður síns. Fljótlega leggja þeir úr höfn á trillu föðurins, Ægir og Skarpi, meðeigandi bátsins, sem er svo mikill sjóhundur að hann getur ekki stigið í fæturna á landi og notar hjólastól til að koma sér á milli, en fær máttinn um leið og um borð er komið.

Þessi eiginlega leit bætir fljótlega við sig óeiginlegri vídd. Í fyrstu ferð á slysstaðinn hverfur Ægir nefnilega aftur í tímann þegar hann bregður sér í land í Aðalvík, illa haldinn af sjóveiki, og hittir fyrir samfélag frá síðustu öld. Þar hittir hann stúlkuna Melkorku sem hann sængar hjá og gerir að öllum líkindum barn. Í síðari ferðum heldur Ægir áfram að vera „óstöðugur í tímanum“ eins og annar bókmenntalegur flökkumaður orðaði það, Billy Pilgrim í Sláturhúsi fimm eftir Kurt Vonnegut. Þau ferðalög snúast að miklu leyti um að hafa uppi á Melkorku og fylgjast með framgangi óléttunnar, en Ægi grunar að þar hafi faðir hans komið undir. Inn í leitina að Melkorku blandast ýmis fræg söguleg atvik sem Ægir verður þátttakandi í strand Goðafoss við Straumnes 1916 og hinsti leiðangur Sumarliða landpósts 1920, en í þá för slæst Ægir þegar hann fréttir að kasólétt Melkorka hafi lagt á sömu heiði nokkru fyrr.

Það er nokkuð töfraraunsæislegur svipur yfir þessu tímaflakki Ægis, að því leyti að hér er yfirnáttúrulegum hlutum lýst sem næsta sjálfsögðum, óvenjulegum en ásættanlegum hluta hversdagslegs veruleika. Lesandinn verður ekki mikið var við að þetta uppbrot hafi mikil áhrif á Ægi, þó að í fyrstu gruni auglýsingamanninn að verið sé að taka kvikmynd þegar Melkorka og hennar fólk verður á vegi hans. Eftir það gengur hann nokkuð heils hugar inn í hlutverk sitt sem tímaflakkari og jafnvel eigin forfaðir. Það er miklu frekar að hann hafi eitthvað við framvinduna sjálfa að athuga út frá sjónarhóli fagurfræðinnar:

 

„Faðir minn er ekki minn raunverulegi faðir. Hann var bara látinn taka við mömmu þegar hún var orðin ófrísk.

Óttalega er þetta klisjukennt, hugsa ég með mér“ (bls. 83).

„Mátti maður ekki leita að pabba sínum án þess að lenda inni í enn einni moðsuðunni eftir þessa leikstjóra sem sérhæfðu sig í ömurlegri fortíð?“ (bls. 129)

 

Þessi léttúðuga nálgun Rúnars Helga á sinn þátt í að ýta lesandanum í þá átt að hugsa óhlutbundið, jafnvel heimspekilega um söguna. Skoða hana sem hugleiðingu um karlmennsku og föðurhlutverkið. Um sjálfsmynd karlmannsins í nútímaheiminum. Í heimi Eftirbáts er nokkuð ljóst að staða karlmannsins einkennist af talsverðu óöryggi sem birtist á flestum sviðum sögunnar. Jafnvel í nafninu sjálfu, því er auglýsingamaður á mölinni ekki nánast augljóslega „minni maður“, eftirbátur  hetju hafsins fyrir vestan? Óöryggið verður síðan varla meira en þegar faðirinn hverfur, sem setur alla atburðarásina af stað.

Reyndar má segja að athygli höfundar og lesenda sé minnst á föðurHLUTVERKINU, sambandi föður og barna, þætti feðra í uppeldi barna sína. Hér er sjónum miklu fremur beint að þætti karla í getnaði, og hinum eilífu áhyggjum þeirra af því að  vera aldrei alveg vissir um að eiga þar hlut að máli. Þegar sagan hefst hafa Ægir og Sirrý lengi reynt að eignast annað barn, og undir lokin kvikna efasemdir um að getnaður Hávars litla, hafi átt sér stað í hjónasænginni. Meginþráður bókarinnar er síðan sá möguleiki að ástarfundur Ægis og Melkorku hafi gert Ægi að eigin afa.

Margt er skilið eftir í lausu lofti í viðburðaríkri stuttri skáldsögu, bæði stórt og smátt. Það á við um faðernin, um hvernig nýaldarhugmyndir dr. Helga Pjeturs tengjast atburðunum, sem er skemmtilegur útúrdúr, lömun Skarpa og hlutur hans í tímaflakkinu (er hann mögulega valdur af því, eins og Ægir sakar hann um á einum stað?) og andlitslausu mennirnir á árabátnum sem verða tvívegis á vegi Ægis og farmur þeirra. Sú tilfinning læðist að lesandanum að Rúnar Helgi hafi færst of mikið í fang, viðað að sér of miklu efni, spunnið úr of mörgum þráðum. Á sama tíma er hinn þröngi fókus á „tæknilegri“ hliðar karlmennsku og föðurhlutverks, þátt karlmannsins í getnaði, í það minnsta óvenjulegur en líka eilítið „gamaldags“, vekur t.d. frekar upp hugrenningatengsl við kokkálsþráhyggjuna í sumum kómedíum Shakespeares en stöðu karlmannsins í flóknum og vonandi aðeins réttlátari nútímaheimi. Engu að síður er Eftirbátur forvitnileg bók með óvenjulegum efnistökum á mörkum furðusagna, fagurbókmennta, sögu og nútíma. Það er á þannig slóðum sem best fiskast.

 

Þorgeir Tryggvason, 2018