Beint í efni

dýra líf

dýra líf
Höfundur
Geirlaugur Magnússon
Útgefandi
Lafleur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það var ekki laust við það að ég kæmist í jólaskap við að lesa ljóðabók Geirlaugs Magnússonar, dýra líf. Líklega er það nú aðallega vegna þess að almennt séð hugsa ég svo lítið um kristna trú að allar vísanir í jésú og hans vafstur minna mig einungis og alltaf á jólin. Strax í fyrsta ljóðinu er skáldið í stellingum frelsarans yfir síðustu kvöldmáltíðinni, ljóðið heitir „til lesenda“, og þar heilsar ljóðmælandi okkur öllum tólf, en óskar þess þó „á stórhátíðum / í tertu og gjafastað / að ykkur fækki um einn“. Hann leitar eiturbragðs á vörunum og „er vart snúinn frá / þegar þyrpist að myntsláttunni / þar sem greiddar eru út þrjátíu í senn“. Hann er ekki beint að sleikja upp lesendur sína þessi! Þrjátíu myntir koma aftur við sögu í ljóðinu „í grasgarðinum“ og jólanóttin birtist okkur svo í „nóttin ágæt ein“, en hún er full af „drottningum / hröfnum óðum hundum“. Og læt ég þetta nægja um jólastemningu í ljóðum Geirlaugs Magnússonar.

Geirlaugur er afkastamikið skáld en hefur einnig sinnt ljóðaþýðingum. Hann er sérstaklega þekktur fyrir kjarnyrt orðfæri og býr yfir miklu magni flottra og áhrifamikilla orða. Á stundum fannst mér eins og hann hefði hlaðið þeim öllum í þessa bók, sérstaklega í síðasta hlutann, og ekkert endilega með of góðum árangri. Ljóðin þar – og reyndar víðar – eru nokkuð formföst, minna á sonnettur í útliti, án þess þó að lúta endilega öllum kröfum þess forms. Þarna er jú nokkuð um rím og höfuðstaði og stuðla og allt það, en þó eru það helst þessi stóru og ég leyfi mér að segja stórkarlalegu orð sem taka yfir eins og í „grimmdardagurinn“ þarsem við hittum fyrir „meinhornamúsík í meinvarpi / mínusar út meint meinsæri / helsæri og öll þín særindi / rofin hryglunni í meinsemdinni“. Eitt og sér er þetta skemmtilega krassandi og hressandi, en ég verð að játa að þegar ég hafði lesið mig í gegnum ein tíu af þessu tagi fannst mér svolítið nóg komið. Kannski bara best að hafa þann háttinn á að smakka eitt í einu í stað þess að vaða í bókina einsog um jólahlaðborð væri að ræða?

Ég var hinsvegar yfir mig hrifin af fyrri hlutanum, með öllum dýrunum (sbr. dýra líf). Sum eru reyndar ekki dýr, en eftir fyrsta ávarpið „til lesenda“ hittum við „mömmudrenginn“ sem er „nær / alblindur því það augað sem ekki / nælt í bankabókina límist fast við / morgunspegilinn“. Og svo heimtar hann fermingarveislur reglulega! Hér er Geirlaugur í sínum pólitíska ham að gera grín að litlu uppunum og skemmti mér mjög. Það eru fleiri af þessu tagi, ánægjulega andstyggileg, vel ort og fyndin. „hagsvínið“ til dæmis lifir „samkvæmt fræðikenn / ingunni að þjóðarhagur sé / eigin hagur“. En dýrin eru ekki öll pólitísk, Geirlaugur vísar líka í ævintýri og goðsögur í ljóðum eins og um snigilinn og „spretthlauparann“ og „ferðina í dýragarðinn“, en þar hittir lítil stúlka uppáklædd í rautt aldraðan og lífsleiðan úlf. Furðufuglar reynast ágætis fæði í „fuglafæði“ og ekki gladdi mig síður hvernig skáldið snýr uppá íslenskan sveitarómans í ljóðunum „refskák“ og „hundstryggð“, en í því fyrra reynir smalinn að mana til sín lágfótu með því að þylja upp hin fjölmörgu nöfn hennar, og í því síðara lætur ljóðmælandi sér fátt um hundstryggðina finnast.

Nú er ég rétt búin að rekja mig gegnum fyrstu sjö ljóðin og held ég láti þetta nægja, en mæli eindregið með að lesendur (allir tólf) láti sér ekki þessa heilögu tölu nægja heldur feti sig áfram til fundar við hina ýmsustu gesti bókarinnar, svosem krókódílinn í baðinu, vorið og heilagan Georg.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004