Beint í efni

Dyngja

Dyngja
Höfundur
Sigrún Pálsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Védís Huldudóttir

Dyngja er nýjasta skáldsaga Sigrúnar Pálsdóttur, en eftir hana hafa áður komið út bækurnar Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar (2010), Sigrún og Friðgeir: Ferðasaga (2013), Kompa (2016) og Delluferðin (2019), en sú síðastnefnda hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins fyrr í ár. Allar bækur Sigrúnar hingað til eiga einhverjar rætur að rekja til sagnfræðinnar, enda er hún doktor í sagnfræði frá Oxfordháskóla. Dyngja er engin undantekning en ævi aðalsöguhetjunnar Teddý er rekin frá 14 ára aldri í upphafi sjöunda áratugarins og fram til ársins 2005, og líf hennar er óumflýjanlega samofið Íslandssögunni á því tímabili. Titill bókarinnar vísar bæði til landfræðilega fyrirbrigðisins dyngju, og til vistarvera kvenna.

Dyngju er skipt upp í yfirkafla sem eru aðgreindir með ákveðnum millilandaflugferðum (t.d. „KEF — JFK, 2004“), og í upphafi hvers slíks hluta er skáletraður kafli. Sögumaður Dyngju er yfirleitt í þriðju persónu og sér til skiptis inn í hugarheim persóna sögunnar, fyrir utan þessa skáletruðu kafla — þar talar Teddý í fyrstu persónu. Þeir eru ekki í tímaröð eins og restin af bókinni, en það er ákveðinn þráður milli þeirra sem veitir innsýn inn í líf Teddýar sem flugfreyja og varða leiðina að lokum sögunnar.

Í Dyngju er oft stiklað á stóru í lífi Teddýar, og ekki er alltaf ljóst þegar nýr kafli hefst hver segir söguna eða hvaða ár er runnið upp. Sjónarhorn sögumannsins er heldur ekki takmarkað við eina persónu í hverjum kafla, heldur getur innsýn hans í huga ólíks fólks stokkið til og gripið niður í innra lífi þeirra þegar þess þarf með. Af þessu leiðir frekar fljótandi upplifun lesandans á umhverfi sögupersónanna, en líka nokkuð rúnnað sjónarhorn á sögusviðið sem græðir á því að vera ekki bundið við eina persónu í einu. Sagan er skemmtilega sögð og auðlesin, en þar sem stór hluti hennar gerist áður en undirrituð er fædd stóð ég mig oft að því að draga upp símann og fletta því upp til hvaða atburða er verið að vísa — eða hvort eitthvað hafi átti sér stað í raun og veru. Þrátt fyrir nærveru merkilegra atburða í íslenskri sögu á síðum Dyngju er söguhetjan sjálf enginn sérstakur aðdáandi sagnfræðinnar. Raunar hefur hún alls ekki gott minni fyrir ártölum, og við tvö ólík tilefni rekur efnilegan námsferil hennar næstum í strand vegna meinfýsinna sagnfræðikennara sem líkar illa við hana.

Gegnumgangandi þema í Dyngju er feðraveldið. Teddý glímir við það alla ævi, og það þvælist sífellt fyrir henni. Höfundur nálgast átök Teddýar við feðraveldið með mjög áhugaverðu stílbragði — fatnaði. Kvenkyns lesendur munu allir kannast við að þurfa að klæða sig á ákveðinn hátt til að framkalla æskileg viðbrögð frá fólkinu í kringum sig, og „réttur“ kvenfatnaður er tvíeggjað sverð. Oftar en einu sinni birtast vísbendingar í textanum þess efnis að Teddý sé á einhverfurófinu. Hún hefur mikinn áhuga á tölum og mynstrum, og á erfitt með að lesa á milli línanna — þó hún sé oft meðvituð um þegar hún sé að missa af einhverju. Einhverfar stúlkur geta átt erfitt með að fylgja óskrifuðum reglum feðraveldisins um það hvernig þær eigi að hegða sér, klæðast, og hvað þær eigi að taka sér fyrir hendur. Þegar lesandinn hittir Teddý fyrst fyrir er hún 14 ára gömul og persónan sem sögumaðurinn horfir í gegnum — Amerískur landmælingamaður — tekur hana fyrir strák vegna þess hvernig hún er klædd og vegna líkamstjáningar hennar. Áður en hann kemst að sannleikanum hefur hann fengið hana til liðs með sér sem aðstoðarmann, sem honum hefði aldrei dottið í hug hefði hann vitað að hún væri kvenkyns. Það leiðir þó til þess að framúrskarandi stærðfræðihæfileikar hennar uppgötvast og hún fer í framhaldsskóla — en þar uppgötvar Teddý að hún klæðir sig ekki eins og hinar stúlkurnar (40). Hún lærir að klæða sig eins og þær og gerir sitt besta til að haga sér líka eins og þær gera.

Það hvernig textinn er settur fram gerir það að verkum að lesandinn veit nær alla bókina að draumar Teddýar muni ekki rætast. Hún verður flugfreyja, ekki flugmaður, en það getur hún ekki vitað sjálf. Hún bindur vonir við að brjóta þetta glerþak, en líkt og lesandinn vita karlmennirnir í kringum hana að það mun ekki verða.

Það var sú staðreynd að einn efnilegasti nemandi hans yrði að öllum líkindum aldrei atvinnuflugmaður. En þetta hafði hann aldrei orðað við nokkurn mann og myndi væntanlega ekki gera því þó hann væri að mörgu leyti ólíkur þeim köppum sem héldu til í því litla samfélagi sem flugvöllurinn var, var hann undir sömu sök seldur og þeir allir: Hann myndi aldrei ráða hana til sín sjálfur. (152)

Flugkennarinn hennar viðurkennir fyrir innri mónólóg sínum að hún sé hinn efnilegasti nemandi, en að sjálfur myndi hann ekki ráða hana í starf — frekar en neinn annar — þrátt fyrir þá vitneskju. „Hversu lengi átti hann að taka við seðlum úr heldi þessarar stúlku vitandi hvernig saga hennar myndi enda?“ (161) Hann er fullkomlega meðvitaður um að Teddý á nákvæmlega engan möguleika á því að verða flugmaður á því herrans ári 1971, en hann leyfir henni samt að halda áfram að vona það.

Þegar Teddý sækir loks um starf hjá flugfélagi er hún lengi að velta því fyrir sér hvernig hún eigi að vera klædd í atvinnuviðtalinu, og veltir fyrir sér: „Hvort ætti hún að klæðast sem karl eða kona ef hún vildi vera karl?“ (188) Hún ber kennsl á að draumar hennar um flugmennskuna eru ekki leyfilegir innan kvenleikans. En þó Teddý velji að lokum nokkuð karlmannlegan klæðnað — gallabuxur og brúnan leðurjakka úr herradeildinni í Karnabæ — tekst henni ekki að laumast framhjá kynjahlutverkinu eins og þegar hún var unglingur. Það fer ekki framhjá jakkafataklæddum yfirmanninum að Teddý er kona, og hann ber fyrir sig „ritun þeirrar merku sögu sem hér hefur átt sér stað. Og samofin er sögu íslenska lýðveldisins“ — sem einkennist auðvitað af karlkyns söguhetjum og hafi ekki pláss fyrir konu eins og Teddý. Í staðinn býður hann henni stöðu flugfreyju — enda sé hún „enn ekki orðin of gömul til að eiga möguleika á starfi. Enn ógift og barnlaus“ (193). Gáfur Teddýar og hæfileikar sem flugmaður eru algjörlega hunsaðar, og það eina sem skiptir máli er útlit hennar, aldur og hjúskaparstaða. Flugfreyjan er erkitýpísk birtingarmynd hinnar vinnandi konu eins og feðraveldið vill hafa hana: ung, grönn, hvít og smáfríð. Auk þess er hún óaðfinnanlega klædd og förðuð, og að sjálfsögðu á háum hælum. Brúni herrajakkinn er tilraun Teddýar til að taka valdið í sínar hendur og stríða gegn væntinga til kvenhlutverksins, en í staðinn endar hún í enn niðurnjörvaðra hlutverki en áður. En Teddý er ekki dauð úr öllum æðum.

Dyngja er stórskemmtileg bók sem tekur fyrir ótal erfið umfjöllunarefni úr hversdagslífi kvenna síðustu hálfa öld. Höfundarödd Sigrúnar Pálsdóttur er fersk, fyndin og femínísk, og hún er algjörlega því starfi vaxin að fjalla um þessa flóknu kvenhetju þannig að lesandinn geti ekki annað en haldið með henni. Ég ætla að biðja mömmu um að lesa bókina og útskýra fyrir mér allar vísanirnar sem ég missti af.
 

Védís Huldudóttir, desember 2021