Beint í efni

Drottningin á Júpíter

Drottningin á Júpíter
Höfundur
Júlía Margrét Einarsdóttir
Útgefandi
Deus
Staður
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Maríanna Clara Lúthersdóttir

Drottningin á Júpíter er fyrsta skáldsaga Júlíu Margrétar Einarsdóttur sem áður hefur gefið út ljóðabókina Jarðarberjatungl og nóvelluna Grandagallerí

Hér segir frá Elenóru Margréti Lísudóttur, listakonu, sem rekur minningar um móður sína, fyrrverandi unnusta sinn, fastagesti á barnum Bravó og lýðinn úr Sirkús Lilla Löva. Elenóra eða Nóra, spinnur sögur í bland við minningarnar og skilin á milli eru ekki alltaf skýr. Myndirnar ryðjast fram í sundurlausum brotum, enda línuleg dagskrá víst liðin undir lok, og yfir öllu vakir svo hinn óræði Starkaður Krummi Sirkússon, fugl eða róni, draugur eða maður. Óljós nærvera hans verður nánast eins og táknmynd fyrir skáldsöguna sjálfa; ófyrirsjáanleg, ruglingsleg, heillandi, grimm og glysgjörn.

Nóra elst upp hjá móður sinni í Þingholtunum og teygir sögusviðið yfir í Vesturbæinn og upp að Landspítala þar sem Lísa, móðir Nóru, dvelur oft. Hún þjáist af depurð, kemst varla út fyrir hússins dyr og talar við ímyndaða vini. Til að skemmta móður sinni, og jafnvel af meðvirkni með sjúkdómi hennar, segir Nóra henni endalausar sögur. Sögurnar eru sprottnar úr raunveruleikanum en sleppa iðullega takinu á honum og fljúga frjálsar út í himinhvolfið. Gjarnan enda þær á plánetunni Júpíter þar sem Nóra á að verða drottning. Móðir hennar ætlar sér að fylgja dóttur sinni – en þá endurfædd sem röndótt rotta. 

Dauðinn er aldrei langt undan og að einhverju leyti eru allar sögur Nóru undirbúningur fyrir hann en á hinn bóginn eru þær líka hálmstrá til að grípa í, eitthvað til að dreifa huganum og gera lífið bærilegt. Frásögnin er leikandi létt og sögurnar sem eru ruglingslegar, brjálæðislegar og skemmtilegar slá lesandann út af laginu svo rétt grillir í harminn í bakgrunni. Þá staðreynd að þrettán ára stúlka sér ein um fársjúka móður sína sem má ekki af henni sjá og vill ekki að hún fari í skólann. Kærleikurinn milli mæðgnanna er sterkur og fallegur en þó um leið eyðileggjandi afl. Svo vel hefur Nóra aðlagast afskræmdum veruleika móður sinnar að henni reynist erfitt að fóta sig í hversdagsleikanum. 

Eftir að Lísa stekkur út um gluggann á Landspítalanum flyst Nóra vestur á Ísafjörð til ömmu sinnar og afa – þar kynnist hún öðrum unglingum, eins og Lilla Löve, bláfátækum strák sem eins og hún er utanveltu en nær að virkja sérstöðuna sér í hag. Sögusviðið speglar óreiðuna í huga Nóru og þeytist fram og tilbaka, skeytingarlaust um tíma og rúm.

Síðar er Nóra komin aftur til Reykjavíkur og hefur tekið saman við fyrrum geðlækni móður sinnar, Benedikt Schneider, en Nóru gengur illa að aðlagast hefðbundu lífi hans. Í aðra röndina þráir hún öryggi, sumarbústað, köttinn sinn og Benedikt en á hinn bóginn er hún full óreiðu og á illa heima í áferðarfallegu lífi læknisins. Þunglyndi móður hennar vofir sífellt yfir frásögninni, Nóra klæðir sig í föt Lísu og endurlifir hverja stund með henni, hún kemst ekki undan veikindunum og getur heldur ekki greint í sundur móður sína og sjúkdóminn – var allt sem gerði Lísu dásamlega og hræðilega sprottið af sama meiði? Undir niðri liggur einnig spurningin um hvort erfiðleikar Nóru séu afleiðing vanrækslu og áfalla í uppvexti eða hvort hún hafi erft sjúkdóm móður sinnar. Nóra fer á Bravó og hverfur í óminnið meðan Benedikt situr heima og les lélega reyfara. Svo fer að hún yfirgefur hann og slæst í för með gamla vini sínum Lilla Löve og sirkúsnum hans þar sem skötuhjúin drekka og dópa meðan sirkúsinn æfir hrottaleg atriði sín. 

Inn í frásögnina blandast aðrar sögur af barnum, af móður hennar og Benedikt og brátt verður erfiðara að átta sig á tíma og rúmi, aðskilja veruleika, draum og vímu. Hver staðhæfing sem Nóra kastar fram er um leið klædd í nýjan búning, hver setning sveipuð hulu skáldskapar. Það virðist ómögulegt fyrir bæði lesandann og Nóru að skilja hvort Benedikt sé að reyna að breyta henni eða bjarga henni frá sjálfri sér. Kannski fær hennar sanna sjálf loks að blómstra hjá Lilla Löve en mögulega er hann bara illa farinn dópsali og sirkúsinn hans undirmálsfólk og fíklar. Líkt og dansarar úr óhugnanlegum skuggaleik snúast persónurnar í kringum okkur og sýna til skiptis hægri og vinstri vangann – glimmer og rotnandi hold. Mitt í allri óreiðunni hringsnýst Nóra og lesandinn reynir að festa fingur á henni en missir tökin, rétt eins og Nóra sjálf. Í lokin hafa draumur og raunveruleiki – eða mögulega draumur og martröð endalega runnið saman og þegar Nóra hefur nýjan kafla og yfirgefur sirkúsinn er lesandinn óviss um hvort hún sé líf eða liðin.

Hér takast á þeir ólíku heimar sem Nóra tilheyrir, heimur móður hennar sem er að elífu bundinn litlu þakíbúðinni þeirra í Þingholtunum en um leið óendalegur í ferðlögum þeirra um himingeiminn. Heimur Krumma og hinna fastagestanna á Bravó, heimur Benedikts í Vesturbænum og absúrdleikhús Lilla Löve með öllum sínum óhugnanlegu og heillandi persónum. Sú tilvistarlega spurning sem Nóra stendur í sífellu frammi fyrir er í hvaða heimi hún sé raunverulega hún sjálf, frjáls. 

Þetta er heillandi saga um skáldskap, depurð, fegurð og grimmd en kannski sérstaklega um sagnalist – um óreiðuna í kollinum og fegurðina sem felst í óreiðunni þegar hún kemst á blað. En um leið skilur lesandinn þversögnina sem felst í því – það krefst nefnilega kunnáttu að tjá óreiðuna þannig að hún skili sér til lesandans. Þá list kann Júlía Margrét. Eins og Nóra týnir lesandinn sér um stund í margslungnum heimi tungumálsins, vímunnar og draumsins. 
 

Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018