Beint í efni

Drekafræði: Drekabókin mikla

Drekafræði: Drekabókin mikla
Höfundar
Dr. Ernest Drake,
 Dugald A. Steer,
 Douglas Carrel,
 Wayne Anderson,
 Helen Ward
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er óhætt að segja að Drekafræði doktors Drake séu orð í tíma töluð. Hafi drekar átt undir högg að sækja þegar bókin er rituð (en hún virðist nokkuð gömul, frá því seint á nítjándu öld), þá er ljóst að staða þeirra er enn verri í dag, ekki síst eftir að nýr drekabani, sjálfur galdrastrákurinn Harry Potter, bættist í flokk þessara illvirkja. Verk Drake er yfirgripsmikið fræðirit um þessa merkilegu dýrategund sem margir álíta ekki aðeins útdauða, heldur halda því fram að hún hafi aldrei verið til. Slík firra segir að sjálfsögðu meira um þá sem henni halda fram en drekana sjálfa, en þó er sárt að horfa uppá hversu almenn hún er. Það er því þarft verkefni að bókin skuli koma út núna, þrátt fyrir að vera komin, eins og áður sagði, nokkuð til ára sinna, og er reyndar óskiljanlegt að ritstjórinn, herra Steer, skuli ekki hafa sinnt því að færa hana fram til samtímans. Vissulega eru drekar enn fáséðari nú en á nítjándu öld, en þó eru þeir ekki með öllu ófinnanlegir. (Ég get ekki farið nánar út í þá sálma, það yrði trúnaðarbrestur.)

Rit doktors Drake er handbók fremur en sagnfræði, en nokkur fengur hefði verið í því að fá innsýn í sögu, eða eiginlega sögur, þessara merku skepna. Það hefði verið gaman að lesa meira um hvaðan Drake sækir heimildir sínar um lífshætti og atferli þessara sjaldséðu skepna. Hinsvegar eru upplýsingar þær sem Drake gefur, um tegundir dreka, uppvöxt þeirra og atferli, afar merkilegar, og að mér sýnist nokkuð réttar, þó hann falli í þá þekktu gildru að álíta austræna dreka ófleyga. Þó bendir höfundur réttilega á að austrænir drekar séu almennt vinveittari skepnur en þeir vestrænu (kannski vegna þess að þeir hafa ekki þurft að kljást við hatramma ofsækjendur á borð við þá Georg og Bjólf), og kenning hans um að hnöttur sá sem kínverski drekinn geymir í klóm sínum sé egg en ekki perla er áhugaverð. Einnig eru afhjúpanir doktors Drake á því að risafuglinn Rok (kunnur úr sögum Sindbaðs sæfara) sé dreki, og jafnvel einnig eldfuglinn Fönix, áhrifamiklar og sannfærandi.

Höfuðáhersla er lögð á leiðbeiningar til væntanlegra drekafræðinga, um útbúnað og aðferðir og eru þær gagnlegar enn í dag, því þrátt fyrir að tíminn líði hratt á gervihnattaöld breytast lífshættir dreka lítið.

Kort, myndir og teikningar eru að sama skapi afar upplýsandi og unnin af nákvæmni og segja í raun hálfa söguna, enda ekki hægt að fjalla um dreka án þess að gefa góða mynd af útliti þeirra og umhverfi. Einnig er fengur að sýnirhornum af hami drekanna (sem ég vænti þess að hafi verið aflað án ofbeldis). Ekki er síður fengur að umfjöllun um tungumál drekanna, en ritletur þeirra þekkja Íslendingar sem rúnir.

Í heildina tekið er ritið bæði fræðandi og skemmtilegt og fullt af gagnlegum upplýsingum bakvið ýmisskonar flipa og í álímdum umslögum, þó margir munu sjálfsagt fordæma slíkar aðferðir sem ‘vinsældahyggju’ þá álít ég slíka framsetningu við hæfi fyrir hin sérstæðu og heillandi drekafræði.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2006