Beint í efni

Draugurinn sem hló: Draugasögur

Draugurinn sem hló: Draugasögur
Höfundur
Ýmsir höfundar
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Vitur maður hefur sagt að fátt sé ungum börnum hollara en að lesa draugasögur. Og í krafti þeirrar visku hefur orðið til bókin Draugurinn sem hló: Draugasögur, sem er líklegast eitt albesta dæmi um norrænt samstarf sem ég man eftir í augnablikinu. Í bókinni eru fimmtán draugasögur jafnmargra höfunda frá átta löndum/menningarsvæðum, auk teikninga eftir þrettán myndlistamenn. Fyrir utan þau Norðurlönd sem alla jafna eru með í samnorrænum söfnum eru hér sögur frá Grænlandi og Samalandi, sem útaf fyrir sig er ekki bara fallegt heldur líka mikilvægt til að auka á þann skilning að Norðurlöndin hafa alltaf verið fjölmenningarsvæði.

Það er illmögulegt að gera öllum sögunum skil í einni umsögn, enda myndi það hreinlega skemma fyrir, þarsem sögurnar ganga almennt og yfirleitt útá óvæntan endi. Þrátt fyrir að snúast allar um sama temað, drauga, þá eru sögurnar merkilega ólíkar og sýna að enn er líf og fjör í þessu aldagamla formi. Sjálfir eru draugarnir misjafnir, sumir eru illir, eins og í “Garðrólunni” eftir Heddi Böckman, “Bara Sara” eftir Gerði Kristnýju og “Qivittoq” eftir Juaanna Platou, aðrir vinveittir eins og í “Kojan” eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, “Drauganesið” eftir Rauna Paadar-Leivo og “Draugur um borð” eftir Ebbe Schön. Enn aðrir eru svo bara einmana og sorgmæddir eins og í “Ókunni hreindýrahirðirinn” eftir Issát Sámmol Heatta, “Nýi strákurinn” eftir Ragnar Hovland, “Stelpan í eldinum” eftir Lene Kaaberbøl og “Herragarðsdraugurinn” eftir Dorte Roholte.

Margar sagnanna nýta sér þjóðsagnaarfinn og gefa þannig innsýn í ólíka menningarheima - og sýna að þar er líka margt sameiginlegt eða svipað. Dæmi um þetta eru grænlenska sagan “Qivittoq” sem segir frá einskonar útlagadraugi og finnska sagan “Pekko náttúrubarn” eftir Sari Peltoniemi. Aðrar nota formið til að birta ýmis samfélagsleg málefni, eins og til dæmis sagan af “Nýja stráknum” sem fjallar um einelti. Enn aðrir eru svo bara að skemmta sér og öðrum með því að skelfa og hrylla.

Eitt af því sem gerir draugasögur svo skemmtilegar er hvað þær búa oft yfir mikilli sögu. Draugarnir eru jú yfirleitt draugar fortíðarinnar, bókstaflega, og eiga sér einskonar sögu sem draugasagan síðan lýsir. Þannig fær lesandi innsýn í allskonar heima, kynnist sögu persóna og tímabila og fræðist heilmikið, auk þess sem sagan fær aukafyllingu. Sagan um herragarðsdrauginn er gott dæmi um þetta en þar er sagt frá svarta dauða, í sögunni um stelpuna í eldinum kemur stríðið við sögu og í sögu Gerðar Kristnýjar, “Bara Sara,” kynnist lesandi fólki á myndum og fregnar af fornum ástum. Persónulega hef ég mest gaman af þessari tegund draugasagna, þegar ég fæ eitthvað að vita um sögu draugsins, þó vissulega geti líka verið gaman að vera skilin eftir ‘í myrkrinu’ varðandi hvaðan draugurinn kemur einsog í sjómannasögunni um “Drauginn um borð.”

Í heildina séð er hér á ferðinni bæði vel heppnuð, fróðleg og skemmtileg bók sem sómir sér vel undir sæng á myrkum kvöldum, þegar vindurinn hvín og greinar trjánna lemjast utan í gluggann ...

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2006