Beint í efni

Dimmir Draumar: nokkur ljóð frá Bretaníuskaga

Dimmir Draumar: nokkur ljóð frá Bretaníuskaga
Höfundur
Ýmsir höfundar
Útgefandi
Körtur í pyttum
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þrátt fyrir að hlutverk ljóðaþýðinga í íslenskri bókmenntasögu sé óumdeilanlega mikilvægt, þá hefur ekki mikið farið fyrir ljóðaþýðingum á undanförnum árum. Þetta er synd því eins og allt annað, hvort sem það er að stíga hjólhest eða horfa á sjónvarpssápu, þá er ljóðalestur spurning um ákveðna þjálfun. Reyndar hefur netið undanfarið verið nokkuð vænlegur vettvangur ljóðaþýðinga, sem er hið besta mál, enda fátt sem gleður meira en framandleg ljóð innanum ládeyðu velflestra bloggsíðna.

Það er því óneitanlega fengur að fá smá bragð af bretónskri ljóðagerð í spánnýju úrvali Ólafar Pétursdóttur. Dimmir draumar inniheldur safn af ljóðum nokkurra skálda frá Bretaníuskaga, bæði liðinna og lifandi, í bragðgóðum þýðingum Ólafar. Það sem kannski er fyrst athyglisvert er hversu ólík ljóðin, myndmál þeirra og hrynjandi, er íslenskum nútímaljóðum, en einmitt það gerir fenginn forvitnilegri. Viðfangsefnin eru þó ekki svo ólík, hér er fjallað um sjóinn og sjómennsku, sveitir og borg, liðin skáld og minningar um ferðalög, tímann og tungumálið. Eitt af eftirtektarverðum ljóðum er minningarljóð Xavier Grall um Kerouac, “Kerouac Song”, en þar er flakkað vítt og breytt um skáldskap, líkt og Kerouac flakkaði um land sitt í frægri bók (sem mér hefur alltaf fundist vera hámark leiðinlegra bókmennta). Ljóðið er stútfullt af áhrifamiklum myndum og vangaveltum um missi og amerískar borgir, auk þess sem gröf rithöfundarins er skáldinu hugleikin: “Kerouac er allur. Á morgun verða á gröf hans mávar frá Finistère. Með þulu í nefi...” Hér kemur sjórinn aftur við sögu, en það er helst hafið sem einmitt tengir íbúa Bretóníuskaga við Íslendinga. Á undanförnum árum hefur heilmikið verið fjallað um tengsl okkar við þennan hluta franskrar menningar, en bretónskar seglskútur voru tíðir gestir á austurlandi um árabil. Sjómannamenning er þar í hávegum höfð, en í sjávarborginni Paimpol eru árlega haldnar víðfrægar sjómannalagahátíðir. Eina slíka sótti hin alíslenska sjómannahljómsveit Roðlaust og beinlaust, sem er helsti kyndilberi íslenskar sjómannatónlistar í dag.

En það eru ekki bara sjómenn og sjómennska sem birtast í ljóðum Bretónanna, í ljóði Bernez Tangi, “Vindhani” birtast okkur ævintýraminni sem fléttast inní vangaveltur um tímann, þar hlaðast upp magnaðar en nokkuð torræðar myndir:

Hve lengi? Ó hve lengi
hékk ég frosinn
við blóðrauðan og blauðan klaka endalausra
hugrenninga minna?

Þessari sýn á vald minninga og þráhyggju fylgir svo önnur sem virðist all óskyld:

Ég þrykkti krassandi verk
um sársauka og unað
holdsins
á kálfskinn

Og seldi þau í laumi
þjónum og þernum
aðalsins

Hér hefur einhverskonar erótík tekið við, kannski er skáldið að færa minningar sínar í form sjálfum sér til viðurværis? Allavega koma minningar aftur við sögu í næsta erindi:

Í eldhúsi eitursveipur
Í hesthúsum endurminning

Seinna erum við stödd við “kýrauga skipsins / starandi á ómælisvíðáttu”, og enn seinna hittum við fyrir froska og konungsdætur. Ekki reyndist auðvelt að finna flöt á frásögninni, en myndirnar eru áhrifaríkar engu að síður.

Ljóð Gwendal Denez, “Sérhljóðinn deyr” er einskonar orðagáta í leiðinni, en þar er brugðið á leik með sérhljóða. Í fyrsta erindinu er nokkuð ruglað mál, en þó að mestu skiljanlegt: “murgonstund ör undirlegð / æf granni jiníbúrtu / gléggt ög húri eylfinn”, í þriðja erindi eru sérhljóðar með öllu flognir: “lðr tmns skggsj / hvrfr trgstnd”. Í “Endurgerð” hljómar þetta svo: “morgunstund er undirlögð / af grænni júníbirtu / glöggt ég heyri úlfinn” og: “líður tímans skuggsjá / hverfur tregastund”. Hér er reynt á þanþol tungumálsins og ekki síst hugrekki þýðandans, en fyrir utan að vera fallegt vekur ljóðið upp skemmtilegar hugrenningar um tungumál, hljóð - og svo auðvitað úlfa.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007