Beint í efni

Demantaráðgátan

Demantaráðgátan
Höfundar
Martin Widmark,
 Helena Willis
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Demantaráðgátan er nýútkomin barnabók eftir Martin Widmark með myndskreytingum eftir Helenu Willis. Bókin er upprunalega gefin út á sænsku árið 2002 en er hér í íslenskri þýðingu Írisar Baldursdóttur. Bókin er rétt rúmlega 75 blaðsíður, með stóru letri og ríkulega myndskreytt og hentar því vel yngstu lesendunum. Í Svíþjóð er talað um að börn á ákveðnum aldri séu á „slukaråldern“ en á kápu bókarinnar er það lauslega þýtt sem „háma-í-sig-bækur-aldurinn“. Með því er átt við börn á yngri stigum grunnskóla sem lesa mjög mikið og virðast stundum hreinlega gleypa í sig bækurnar. Undandarið hafa komið út nokkrar þýddar bækur sem henta þessum hópi nýlega læsra barna og má þar til dæmis nefna bókaflokkana um Nönnu norn og galdrastrákinn Ólíver Mána en í báðum bókaflokkum er letrið stórt og mikið af myndum. Þýðingar svo sem þessar eru mikilvæg viðbót við íslenska bókaútgáfu enda á það ekki síður við um barnabækur en bækur fyrir fullorðna að þýðingar kynni nýja strauma og stefnur og gefi innsýn í nýjar hugmyndir. Að auki eykst framboðið á spennandi og áhugaverðu lesefni við hæfi allra, sem verður að teljast afar jákvætt.

Demantaráðgátan er skrifuð fyrir yngsta hluta þessa hóps nýlega læsra barna. Í Svíþjóð hafa komið út samtals 23 bækur um aðalpersónur bókarinnar, þau Lalla og Maju, og hafa þær notið mikilla vinsælda bæði í upprunalandinu og víðar enda hafa bækurnar verið þýddar á fjölda tungumála. Árið 2006 voru Lalli og Maja í jóladagatali sænska ríkissjónvarpsins og nýlega kom þriðja kvikmyndin um þau félagana út í Svíþjóð.

Aðalpersónurnar í Demantaráðgátunni eru bekkjarsystkinin Lalli og Maja. Þau eru góðir vinir og reka saman Spæjarastofu Lalla og Maju, sem „tekur að sér öll spennandi og hættuleg verkefni. Horfin seðlaveski og týndir kettir finnast á ný“ (bls. 15). Spæjarastofan þeirra er alvöru spæjarastofa, þau eiga njósnagræjur og peningaskáp og taka að sér alvöru verkefni. Þegar sagan hefst er vetrarfrí í skólanum og þau sitja á skrifstofunni sinni og lesa bækur um leynilögreglur og glæpi á meðan þau bíða eftir að eitthvað spennandi verkefni detti inn á borð til þeirra. Þau þurfa ekki að bíða lengi því fljótlega kemur Múhameð Karat, ríkasti maðurinn í bænum, og biður þau um aðstoð. Múhameð rekur skartgripaverslun í bænum og að undanförnu hafa dýrmætir demantar horfið úr búðinni hjá honum. Hann er orðinn örvæntingafullur og er búinn að gefast upp á því að bíða eftir að lögreglunni takist að leysa málið. Nú þegar hafa fimm mjög verðmætir demantar horfið og ef þjófurinn finnst ekki áður en fleiri hverfa gæti Múhameð Karat þurft að loka búðinni. Hann vill að Lalli og Maja finni þjófinn og ræður þau í verkið. Þau ákveða að dulbúa sig sem nýja starfsmenn og hafast handa við að reyna að finna út hver þjófurinn er. Þau kynna sér alla starfsmenn verslunarinnar og fara yfir það hvaða möguleika og ástæður þeir hefðu fyrir því að stela demöntunum. Starfsmennirnir eru hver öðrum grunsamlegri, afgreiðslukonan Sif sem vantar peninga til að greiða heimilistrygginguna, skartgripapússarinn Þórir sem hefði getað verið eigandi búðarinnar sjálfur ef pabbi hans hefði ekki selt Múhameð Karat hana og demantaslíparinn Raggi sem vill keyra dýra bíla og eiga flotta hluti. Lalli og Maja skipta með sér verkum, spæja og grafast fyrir og fyrr en varir eru þau komin með lausnina við ráðgátunni.

Verkefni Lalla og Maju er ekkert smáræði. Þeim finnst sjálfum frekar óhugnanleg tilhugsun að glíma við skartgripaþjóf og vita ekki hvert hinna grunuðu er sökudólgurinn. Þau fá upplýsingar um þá sem liggja undir grun hjá Múhameð Karat en tvær hliðar eru á sögu hvers og eins þeirra. Þau eru vissulega öll grunsamleg en gætu öll alveg eins verið saklaus. Lesandinn fær þannig svigrúm til að fylgjast með Lalla og Maju að störfum og mynda sér skoðun sjálfur eða reyna að geta í eyðurnar. Þegar lausnin er svo kynnt í lokin blasir hún auðvitað við og virkar svo augljós eftir á að hyggja, lesandinn getur rakið söguna aftur og sér þá að niðurstaða Lalla og Maju er afar rökrétt.

Demantaráðgátan er frábær bók fyrir yngstu lesendurnar, þessa sem eru nýlega læsir og treysta sér ekki í þéttskrifaðar blaðsíður og smátt letur. Á tímum minnkandi lesturs og aukinnar samkeppni um tíma og áhuga barna er nauðsynlegt að bjóða ungum lesendum upp á fjölbeytt úrval bóka sem höfða til áhugasviðs þeirra, vekja lestraránægju og auka þeim sjálfstraust við lestur. Myndir Helenu Willis eru góð viðbót við söguna, þær eru bæði lifandi og lýsandi og hægt að stúdera þær til að reyna að fá meiri upplýsingar um hver gæti verið þjófurinn. Lalli og Maja eru venjulegir krakkar þó þau séu líka spæjarar og sögusviðið Víkurbær gæti verið hvar sem er. Höfundum tekst vel að skapa umhverfi sem lesendur geta samsamað sig en bæta líka smá spennu við kunnuglegan hversdagsleika.

María Bjarkadóttir, nóvember 2014