Beint í efni

Boxarinn

Boxarinn
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á síðasta ári sendi Úlfar Þormóðsson frá sér stutta ljóðræna skáldsögu með sjálfsævisögulegu ívafi um samskipti fullorðins manns og aldraðrar móður hans, sem er við það að hverfa í þoku eigin gleymsku. Bókin nefnist Farandskuggar og vakti verðskuldaða athygli, enda ekki aðeins á ferðinni fallegt verk heldur einnig óvenjulegt í höfundarverki Úlfars, sem þó er langt því frá að vera einsleitt. Nú fylgir Úlfar bókinni eftir með Boxaranum, sem að þessu sinni er sjálfsævisöguleg skáldsaga um föður og (aðallega) syni.

Farandskuggar var stutt bók eins og áður segir, stíllinn ljóðrænn, íhugull og tregafullur og hinn (sjálfsævi)sögulegi hluti ekki fyrirferðarmikill. Boxarinn er mun lengri og hinn sögulegi og sjálfsævisögulegi hluti öllu hefðbundnari, þrátt fyrir að stíllinn sé enn sem fyrr frekar knappur og fágaður. Kannski er það svo að feður þurfi önnur tök en mæður? Allavega er sagan að ýmsu leyti skyldari sögulegum skáldverum höfundar en fyrri bókin.

Þetta breytir því ekki að verkið er haganlega smíðað og áhrifaríkt, en sem skáldskapur er sagan kannski ekki eins mikill fengur og Farandskuggar; ég óttast dálítið að hér sé boðið upp á ansi mikið slúðurgildi, eins og sýndi sig í umfjöllun Kiljunnar, miðvikudaginn 14. nóvember síðastliðinn. Að því leyti sver sagan sig meira í ætt við ævisagnahefð Íslendinga, bæði hvað varðar ritun og viðtökur.  Hinsvegar er ljóst að hér er ekki hefðbundin sjálfsævisaga á ferðinni – sé slík yfirhöfuð til, en eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir hefur sýnt fram á í skrifum sínum um æviritun þá býr mun meiri fjölbreytni og margræðni í slíkum verkum en ætla mætti.

Úlfar dregur einmitt þessa margræðni fram á ýmsan hátt þegar hann grefur undan sannleiksgildi sögu sinnar. Snemma segir: „Sé málum hins vegar svo háttað að ég hafi rangt fyrir mér um framhaldið skaltu hiklaust láta það eftir þér að hneggja. Ég glotti þá bara. Það hæfir afsprenginu“ (17). Hér ávarpar hann föður sinn, löngu látinn, en öll bókin er einskonar ávarp til hans, skrifuð að mestu í annarri persónu, sem út af fyrir sig dregur mjög úr því sannleiksgildi sem oft er talið felast í hlutlausari sögumanni. Þetta er stílbragð sem Úlfar beitti einmitt í Farandskuggum með svo góðum árangri. Sögumaðurinn, sonurinn og höfundurinn, er afar virkur, hann skapar ímynd af sjálfum sér í textanum og er á allan hátt ágengari en sá sem segir kyrrlátari sögu móður sinnar. Að því leyti er Boxarinn hressilegri bók, írónískari og hvassari og þó að hinn skáldlegi hluti líði nokkuð fyrir sögulegan þunga þá leiddist mér aldrei lesturinn. 

Seinna afhjúpar sögumaður sig enn frekar og segist hafa vanrækt fortíðarminni sitt, „sjaldan lagst í langa eftirþanka“, enda haft nóg við að vera:

Vegna þessa er það sem fram kemur á þessum blöðum samkvæmt götóttu minni. En þetta eru mínar minningar, mínar myndir. Á þeim byggi ég. Umfram margt annað hefur þetta minni eigi að síður mótað skoðun mína á mönnum og málefnum liðins tíma. Á okkur. Á þér. Að sjálfsögðu stangast það stundum á við minni annarra. (79)

En sögumaður nýtir sér einnig minningar og frásagnir annarra: „Sumar þeirra þekki ég og nýti mér ef þær bæta söguna, hvort sem þær eru kórréttar samkvæmt ýtrustu sagnfræði eða ekki“ (80). Og hann vitnar í Ara fróða sem lagði svo mikla áherslu á að „hafa það sem sannara reynist“ og telur það benda til þess að Ari hafi haft úr ýmsu að velja og oft valið sig frá óþægilegum sannleika, og ekki bara það heldur hafi hann „vitnað til sannleikans vegna þess að hann sagði ósatt. Vitandi vits“ (81). Skilaboðin eru skýr, hversu sjálfsævisöguleg og söguleg sem frásögnin kann að vera og virka, þá er hún alltaf bundin vali, og það að velja eitt atriði umfram annað felur í sér ákveðna ósannsögli.

Þegar hér er komið sögu hefur sögumaður lýst forfeðrum föður síns og systkinum hans og að lokum manninum sjálfum, þann sem hann ávarpar sem ‚þú‘. Næstu hlutar fjalla svo um sögumanninn og minningar hans af uppeldi og æsku sinni, og foreldrum, en þó aðallega föðurnum. Einnig systkinin, þó aðallega bræðurna, og að lokum um hin fjölmörgu hálfsystkin, aftur aðallega bræður, sem slæðast á ýmsan hátt inn í líf sögumannsins. Eins og vera ber í sjálfsævisögulegum skrifum felur allt þetta í sér einhverskonar sjálfsmyndarleit, eða sjálfsmyndarsköpun. Sögumaður speglar sig í föðurnum og mörgum lífum hans og sjálfum, en honum er umfram allt lýst sem marglaga manni, ólíkindatóli sem gat brugðið sér í ýmsa hami – ekki ólíkt því hvernig Úlfar sjálfur skiptir reglulega um ham sem rithöfundur. En það er ekki bara faðirinn sem er spegilmynd, ættingjarnir eru það allir, föðursystkinin, systkinin – aðallega bræðurnir – og að lokum hálfbræðurnir. Öll bera þau ættarmerki af einhverjum toga, ummerki sem skila sér svo áfram til sögumanns: „þú ert stöðugt innra með mér. Þar er blóðið úr þér og þar geymast myndirnar af þér, þær sem ég tala við undir eigin hjartslætti“ (212).

Þarna er komið að lokum sögunnar, en Úlfar á þar óvænt og forvitnilegt útspil þegar hann veltir því fyrir sér af hverju það sæki á hann „sagan af Grámanni í Garðshorni sem þú sagðir mér aftur og aftur ungum dreng“ (213). Sagan af Grámanni er eitt af þessum furðulegu íslensku ævintýrum sem fjallar um dirfsku og útsjónarsemi, en líka um þjófnað og hugulssemi og misskiptingu auðs og valds. Er hlutverk þeirrar sögu að vera „afréttari“ eins og segir stuttu síðar (213), og þá afréttari hvers?

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2012